17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

331. mál, gróði bankakerfisins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er staðinn hér að ósannindum í ræðustól ítrekað. Það er borið á hann af hæstv. viðskrh..að hann hafi farið með uppspuna og fleipur. Formaður bankaráðs Seðlabankans, hv. þm. Halldór Ásgrímsson, segir að hann hafi vísvitandi farið rangt með og beinlínis borið á bankaráð Seðlabankans skjalafals. Svo þegar hann fær leyfi forseta til að bera af sér sakir, þegar menn benda á þetta, aðrar voru nú ekki sakirnar, þá notar hann þær mínútur, sem hann fær, til þess að ítreka fyrri ósannindi og búa til ný.

Það hefur að sjálfsögðu aldrei nokkurn tíma komið fram ósk frá þm. Sjálfstfl. um gengisfellingu. Trúi því hver sem vill að ríkisstj. Gunnars Thoroddsens og Ólafs Ragnars Grímssonar hafi fellt gengið vegna óska Lárusar Jónssonar og Eyjólfs Konráðs Jónssonar þar um í Ed. Alþingis. Trúi því hver sem vill. Nei, þessi gengisfelling var framkvæmd vegna þess að það var komið í algjört óefni með öll atvinnumálefni þjóðarinnar. Það er sannað af orðum Steingríms Hermannssonar sjálfs sem þegar hafa verið prentuð og komið út í þingtíðindum og allir geta lesið. Hv. þm. þarf því hvorki að kenna okkur stjórnarandstöðunni né neinum öðrum um það sem hefur skeð eða á eftir að ske. Það er þeirra eigin stefna sem er að hitta hann og þá félaga í höfuðið. Það eru að hitta þá aftur ósönnu orðin sem þeir notuðu 1977 og 1978 og æ síðan. Og það er hart að þessi hv. þm., formaður þingflokks Alþb., skuli vera að tala um góðan hag launþega í sömu andrá og hann talar um sitt stjórnarstarf. Að sjálfsögðu fagna allir því, að samningar tókust við hin almennu verkalýðsfélög nú fyrir skömmu. En það breytir ekki því, að kaupmáttur þessa fólks hefur stórminnkað á liðnum misserum, þeim misserum sem hv. þm. hefur ráðið hér hvað mestu í þingsölum. Og því miður er ekki að sjá neinar lagfæringar þar á, enda mjög lítil bót að gera samninga um þennan þátt vinnumarkaðarins, þegar við eigum eftir að semja um aðra mikilsverða þætti, sem m. a. eiga að halda uppi þeirri atvinnu sem þetta fólk þarf að njóta á komandi mánuðum. Það, sem hér hefur gerst, er því ekki nema lítill hluti af þessu vandamáli.