17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

48. mál, umfjöllun þingnefnda varðandi reglugerðir

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Á þskj. 51 er hreyft býsna merku máli. Talað var um það hér fyrir stuttu í sambandi við annað mál, að Alþingi væri nauðsyn á að ná vopnum sínum gegn embættismannavaldinu, og má vissulega heimfæra það um þessa þáltill. Ég er sem sagt ekki grunlaus um að í ýmsum tilvikum vanti á fullt samræmi milli anda þeirra laga, sem Alþingi er að samþykkja og þm. vildu túlka, og þeirra reglugerða, sem settar eru um viðkomandi lög. Það er að sjálfsögðu til athugunar hvort ætti að lögbinda það, að þingnefnd fjallaði um allar reglugerðir. Mér finnst það lámarkið og sjálfsagt að þm. séu í öllum tilfellum sendar reglugerðir sem settar eru samkv. lögum sem þeir hafa samið eða átt hlut að máli að samþykkja.

Ég held að það væri e. t. v. þungt í vöfum, eins og flm. benti á að gæti verið í vissum tilvikum, að þingnefndir fjölluðu um þessar reglugerðir áður en þær tækju gildi. En lágmarkskrafa hlýtur að sjálfsögðu að vera að þm., sem taka ábyrgð á samþykkt laga, séu sendar þessar reglugerðir þannig að þeir geti a. m. k. sannfært sjálfa sig um það, að þær séu í þeim anda sem þm. í viðkomandi nefnd ætluðust til að lögin yrðu túlkuð.