17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

48. mál, umfjöllun þingnefnda varðandi reglugerðir

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil einnig taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Finni Torfa Stefánssyni og nú síðast hjá hv. þm. Birgi Ísi. Gunnarssyni, að vitaskuld er við Alþingi sjálft að sakast, að þessi valdatilfærsla frá löggjafarvaldi til framkvæmdavalds hefur átt sér stað. Menn deila raunar ekki um það að hún hafi átt sér stað. Og menn eiga ekki heldur að deila um hitt, að það er að því leyti við Alþingi sjálft að sakast að Alþingi getur auðvitað hvenær sem er sótt sér þetta vald aftur ef það svo kýs. Sumt af því er auðvitað mjög einfalt að gera. Bendi ég í því sambandi enn og aftur á að ég held að meira að segja sé heimild fyrir því í lögum að hér skuli vera virk lagastofnun á vegum Alþingis, innan þessarar stofnunar geti því raunveruleg samning lagafrv. átt sér stað. Nú er það þannig, eins og auðvitað allir vita, að varðandi það, sem menn kunna ekki skil á sjálfir, leita þeir annaðhvort á náðir embættismannakerfisins eða til vina og kunningja við samningu frv. Þetta er auðvitað í heldur fornu fari svo ekki sé meira sagt.

Á þeirri þáltill., sem hv. þm. Helgi Seljan hefur flutt, hafa hv. þm. réttilega séð bæði kost og löst. Ég vil enn vekja athygli á því, að ég hygg að hún þræði nákvæmlega sama farveg og það frv. til 1. um breytingu á þingsköpum sem mælt hefur verið fyrir í Nd. sem hv. þm. á raunar ekki sæti í. Í frv. segir að á eftir 19. gr. laganna komi ný grein sem orðist svo: „Þingnefndir skulu fylgjast með framkvæmd laga“ o. s. frv. Ég fæ ekki betur séð en að hér sé nákvæmlega reynt að ráða bót á vandamálinu sem hv. þm. Helgi Seljan er réttilega að lýsa, því ef löggjafanum er ætlað annað og meira starf en að setja lög, leiðir það af sjálfu sér að þingnefndin skuli fylgjast með framkvæmd laganna. Ég hygg að um níu af hverjum tíu reglugerðum sé ekki deilt. Hins vegar er það efalítið rétt hjá hv. þm., að um eina af hverjum tíu reglugerðum er hægt að deila. Þá á lögum að vera svo fyrir komið, að þingnefndir á sviði menntamála, heilbrigðismála, tryggingamála eða hvaða annars málaflokks sem um er að ræða geti óskað eftir að kanna það — með aðstoð sérfróðra manna ef þörf er á — hvort verið geti að reglugerðin sé annaðhvort ónóg að þeirra mati eða hreinlega brjóti í bága við lögin. Ef annað af þessu kemur í ljós, annaðhvort að reglugerðin sé ónóg eða hún samrýmist ekki lögunum, þá getur Alþingi með lítilli fyrirhöfn breytt lögunum og lagfært þá þann agnúa eða það óvissuatriði sem um er að ræða. Þetta á að vera hinn rétti og eðlilegi gangur málsins. Slíkum vanda er auðvitað ekki til að dreifa um allar reglugerðir. Það á aðeins við um lítinn hluta þeirra. En auðvitað er rétt að þingnefndir hafi til þess vald að fá til sín slíkar reglugerðir og eyða óvissu ef einhver er. En hver getur eytt óvissunni? Alþingi sjálft. Og hvernig? Með því að breyta lögunum sem um er að ræða. Reglugerðir eru náttúrlega ævinlega óæðri reglur en lög.

Ég fæ ekki betur séð en þetta sé kjarni málsins. Og ég fæ ekki betur séð en að það sé ástæðulaust að ríkisvaldið lögbindi eitt eða neitt. Það liggur fyrir frv. um nákvæmlega þetta, sem að vísu tekur til fleiri þátta en mundi leysa þetta vandamál, sem ég fellst á með hv. þm. að vissulega er vandamál — ekki í öllum tilfellum en í einhverjum, kannske mörgum. Það er þá á valdi viðkomandi þingnefndar að benda á og leggja til úrlausnir. En hina endanlegu ákvörðun í þessum efnum tekur náttúrlega enginn nema Alþingi sjálft. Og þá erum við enn komin að þeim kjarna málsins, sem hv. þm. Birgir Ísleifur og Finnur Torfi lýstu hér, að hvað sem menn segja um valdaafsal löggjafans til framkvæmdavalds — og ég tala nú ekki um þegar dómsvaldið er farið að kássast upp á annarra manna jússur eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir lýsti hér alveg réttilega áðan — að vilji Alþingi breyta þessu getur það breytt því hvenær sem því sýnist. Það er málið. Og hér liggur frammi frv. til l. um að breyta a. m. k. veigamiklum þáttum þessa. Það þarf ekki annað en einfaldan meiri hluta í hvorri deild um sig til að gera þetta.

Það er auðvitað mjög veigamikið atriði, að menn geta ekki endalaust talað um valdaafsal og skammast yfir því, þegar það er á valdi stofnunarinnar sjálfrar að snúa þessari þróun við með þeim hætti og í þá veru sem hún sjálf kýs. Ég vil biðja hv. flm. að taka þetta til mjög velviljaðrar athugunar. Þessar breytingar þarf að gera. Og ég endurtek það, að ég fæ ekki betur séð en að þessir pappírar falli nákvæmlega í sama farveg. Lagafrv. tekur að vísu til fleiri þátt, en höldum okkur við þetta og þetta eitt, þá er hér verið að leggja þetta til. Við þurfum væntanlega ekki að leysa annað en það sem er vandamál, hitt gengur nokkuð sjálfkrafa fyrir sig. Leiki á vafi um einhverjar reglugerðir, þá er hér lagt til að þingnefndir geti kallað þær til sín og síðan lagt fyrir Alþingi lausn á málinu, sé eitthvað sem þarf að leysa.