17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

88. mál, kalrannsóknir

Páll Pétursson:

Herra forseti. Hér er mjög mikilvægt mál til umr. og ég get ekki orða bundist þess vegna. Bjarni E. Guðleifsson er ágætur vísindamaður og hefur unnið mjög mikilvægt og gott starf nú þegar og á áreiðanlega eftir að gera betur. Það er mjög réttmætt að hvetja hann og skapa honum sem besta aðstöðu til sinna mikilvægu starfa. Spurningin er hins vegar hvernig best verði að því staðið og með hvaða hætti eigi að vinna því máli gagn.

Mér finnst þessari till. eða undirbúningi hennar svipa dálítið til tillöguflutnings hér fyrir hálfum mánuði frá einum varaþm. af Suðurlandi. Ég hef aðeins þá athugasemd fram að færa: Hvað olli því að hv. þm. Árni Gunnarsson bauð ekki stjórnarsinnum að standa að þessum málum með sér? Ég held að það hefði styrki málið og tryggt framgang þess. (ÁG: Stefán Jónsson Alþb.-maður er þarna, og ég bauð framsóknarmanni að vera með, en hann sagðist vera að vinna að málinu á bak við tjöldin.) Nú, já, þá er það komið til skila. Ég held að það sé gott að vinna að þessu máli og megi gera það opinberlega. Spurningin er náttúrlega um það, hvernig best verði tryggður árangur af málinu.

Ég vil þakka fyrir þá greinargerð sem fylgir till. Hún er bæði fróðleg og vandvirknisleg. Og ég verð að segja, að ég er alveg hissa hvað hv. flm. er fróður um þessi efni og vandvirkur, og þakka honum fyrir grg. Ég mun standa að því með honum á einum eða öðrum vettvangi að hjálpa til við að útbúa Bjarna E. Guðleifssyni sem besta aðstöðu. Það kann að vera að allt eins skynsamlegt sé að gera það í gegnum fjárlög eða með öðrum hætti, en þetta er samt í mínum huga mjög mikilvægt mál. Ég þekki kal af eigin reynslu þráfaldlega og hlýt að fagna því sem vel er gert í þessu efni.