17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

65. mál, starfsmat fyrir ríkisstarfsmenn og starfsfólk ríkisbankanna

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Vegna þess, hve mjög er nú liðið á starfsdag, skal ég reyna að stytta mál mitt sem mest ég má.

Ég held að öll getum við verið sammála um að mikið misrétti á sér stað í launagreiðslum landsmanna og ekki síst milli kynja. Ég hef því leyft mér að bera fram á þskj. 68 till. til þál. um endurskoðun starfsmats fyrir ríkisstarfsmenn og starfsfólk ríkisbankanna. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að starfsmat fyrir félaga BSRB og starfsfólk ríkisbankanna verði endurskoðað í samvinnu við samtök þeirra. Skal sérstaklega kannað hvort launamisrétti eigi sér stað milli karla og kvenna við sömu störf svo og hvort ábyrgðarstörf, sem konur gegna sérstaklega, séu metin til lægri launa en sambærileg störf karla.“

Í grg., sem fylgir till., hef ég birt skrár sem ég hef tínt saman um launagreiðslur hinna ýmsu starfsstétta. Á fyrstu síðu er listi yfir launaflokka starfsmanna innan Starfsmannafélags ríkisstofnana. Þar kemur fram, eins og vænta mátti, að í lægstu flokkunum eru flestar konur, um miðbik launaflokkanna verður nokkurt jafnvægi, en síðan þegar komið er yfir 15. launaflokk fer körlum hraðfjölgandi og konum mjög fækkandi þar til komið er í 26. launaflokk þar sem engin kona er. Sama er uppi ef við lítum á starfsmenn ríkisbankanna. Starfsgreinar eða starfslaunaflokkar eru þar 12, eða mun færri en launaflokkar Starfsmannafélags ríkisstofnana, starfsheiti enda miklu færri. Starfsheiti innan Starfsmannafélags ríkisstofnana eru hvorki meira né minna en 290 og segir sig sjálft hversu heppilegt er að svo sé. Það hlýtur að vekja athygli þegar litið er á starfsmenn ríkisbankanna, hversu mikill munur er á launaflokkum karla og kvenna, þar sem þau störf eru miklum mun einfaldari og líkari en innan Starfsmannafélags ríkisstofnana. Starfsmenn bankanna fullyrða að ekki sé sjaldgæft að t. d. tveir gjaldkerar sinn af hvoru kyni sitji hlið við hlið og vinni nákvæmlega sömu störf og karlmaðurinn sé allt að þrem launaflokkum hærri en konan. Á tímum þegar mikið er rætt um fjölskyldupólitík segir sig sjálft hversu mikilvægt er að á þessu fáist leiðrétting. Nægir að nefna fjölskyldur einstæðra mæðra sem að sjálfsögðu líða fyrir þetta misrétti.

Þegar litið er á rannsókn. sem Kjararannsóknarnefnd gerði á fyrsta ársfjórðungi 1981, kemur í ljós að verkamenn á höfuðborgarsvæði höfðu þá í mánaðarlaun 4856 kr. en verkakonur á sama svæði á sama tíma um það bil h46 kr. lægri laun. Sams konar könnun var síðan gerð á launum karla og kvenna innan Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Kom þá í ljós að karlar á höfuðborgarsvæði höfðu þá í mánaðarlaun 6408 kr. en konur á höfuðborgarsvæði 4858 kr., næstum því 2000 kr. lægri laun. Er harla erfitt að sjá hver getur hugsanlega verið munur á störfum karla og kvenna í svo ríkum mæli innan verslunarstéttarinnar. Það skal tekið fram, að í þessum athugunum var eingöngu um að ræða hreinan kauplið samkv. taxta. Yfirborganir, álagsgreiðslur og kaupaukar voru ekki teknir með og ekki heldur var reiknað með aukagreiðslum vegna afbrigðilegra vinnuskilyrða, orlofsgreiðslum, eftirvinnu, næturvinnu, bónus — eða „premíu“-greiðslu. En það er sama hvert litið er, launamisréttið er alls staðar hið sama.

Þegar við tölum um starfsmat fyrir þá starfsmenn sem hér eru tilteknir, þá skal upplýst að með samkomulagi BSRB og fjmrh. snemma árs 1967 var hafinn undirbúningur að starfsmatskerfi fyrir opinbera starfsmenn. Megintilgangurinn var að finna leið til þess að sömu laun yrðu greidd fyrir sömu vinnu í stað þess að yfirmenn gætu meira og minna metið það sjálfir eftir ágæti starfsmanna hvaða launaflokk þeir skyldu skipa, og þarf ekki að ýja að því, hvers vegna það þótti ekki réttlátt. Undirstöðuatriði var sem sagt að ágæti starfsmanna væri ráðningaratriði en ekki launagreiðsluatriði.

Mikil vinna var lögð í þetta starfsmat og unnu margir að því. Á endanum var settur upp listi þar sem meta skyldi í prósentum hvern þátt starfsins. Hann geta menn séð á bls. 2 í grg. Um það má auðvitað endalaust deila, hvort rétt mat er þarna lagt á hina ýmsu starfsþætti, hina ýmsu starfsmatsþætti. T. d. má reka hér augun í atriðið ábyrgð sem er 24.8%. Maður hlýtur að spyrja: ábyrgð á hverju? Því er ómögulegt að neita, að það litur út fyrir að þessi ábyrgð sé að verulegu leyti metin ef menn bera ábyrgð á peningum. En beri menn ábyrgð á mannslífum, litlum börnum eða gömlu fólki, þá sýnist sú ábyrgð sýnu minna metin.

Það komu fram margvíslegir örðugleikar þegar kom að því að raða í launaflokka, kannske vegna þess að menn — sem þó þóttust vinna heils hugar að þessu starfsmati — trúðu e. t. v. ekki alveg á það. Annað atriði olli auðvitað vandræðum líka. Menntunarþátturinn er þarna verulegur eða 23.8%. Við könnumst við deilur kennara þegar upp komu vandkvæði þar sem voru fyrir réttindalausir kennarar, en síðan voru við hlið þeirra menn með full réttindi sem raunverulega áttu samkv. matinu að taka hærri laun. Þetta varð auðvitað að leysa. En margir höfðu horn í síðu starfsmatsins af þessum sökum, og það er óhætt að fullyrða að eftir því hefur alls ekki verið farið sem skyldi. Víða hefur verið sneitt fram hjá því markmiði sem starfsmatið upphaflega hafði: að tryggja sömu laun fyrir sömu störf. Leikinn hefur verið sá leikur að sniðganga þetta á þann hátt að breyta stöðuheitum þó að starfið breytist ekki í neinu. Og það er áreiðanlega óumdeilt, að oftast njóta karlmenn þessara hækkana vegna eilífðarhugmyndar manna um fyrirvinnuhlutverk karla.

Það er því ljóst að þetta starfsmat hefur ekki náð tilgangi sínum gagnvart öllum launþegum. Þar sem skilgreindrar menntunar er krafist er launaflokkaröðun auðveldari og launamunur minni og nánast enginn sums staðar. En enginn vafi er á því, að félagar Starfsmannafélags ríkisstofnana og starfsfólk ríkisbankanna á þarna erfiðast uppdráttar, eins og töflurnar sýna, og einmitt vegna þess að þar er menntun á mjög mismunandi stigi. Ég tel að nauðsynlegt sé að láta ekki bara sitja við að raða stöðum í flokka ef til nýs starfsmats kæmi. Ég tel að það þurfi að kanna störf manna á vinnustöðum og ganga úr skugga um hverjir raunverulega vinna sambærileg störf. Auk þess hlýtur að vera svo komið að starfsmat, sem gert var fyrir rúmum 10 árum, sé orðið úrelt. Störf manna á skrifstofum hafa gerbreyst, t. d. með aukinni tölvunotkun, og víðast hvar held ég að það starfsmat, sem nú er unnið eftir, vanti hreinlega fjölmarga þætti sem nútímatækni hefur flutt inn í störf þessa fólks. Það eitt væri nóg til þess að hefja endurskoðun á starfsmati.

Þá er einnig ljóst að ábyrgðarstörf af ýmsu tagi, sem konur gegna að mestu eða eingöngu enn sem komið er. eru að manni sýnist metin lægra en jafnvel ábyrgðarminni störf sem karlar gegna. Mig langar að nefna hér störf forstöðumanna dagvistarheimila sem bera ábyrgð á 70–100 smábörnum dag hvern sem foreldrar eru við störf. Með nútímahugmyndum manna um dagvistarstofnanir er ekki lengur um að ræða geymslustaði fyrir lítil börn, heldur uppeldisstofnanir, og hið háa Alþingi hefur nú þegar samþykki breytingu á lögum um dagvistarstofnanir þar sem gert er ráð fyrir að gerð verði námsskrá fyrir þessi heimili. En þessar forstöðukonur hafa nú laun sem eru mörgum launaflokkum lægri en laun fulltrúa á skrifstofum sem margir hverjir hafa litla sem enga ábyrgð og erfitt að sjá að starf þeirra sé fulltrúastaða nema til þess eins að hækka launin þeirra umfram stúlkurnar sem vinna við hlið þeirra.

Um þetta er hægt að nefna fleiri dæmi, einkum þó um störf sem eru tiltölulega ný af nálinni hér á landi, svo sem félagsráðgjöf, meinatækni, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og önnur slík störf sem krefjast umtalsverðs náms og nákvæmni og varða líf og heilsu manna, og það tel ég vera meiri ábyrgð en þó menn eigi að loka einhverjum peningakassa þegar talið hefur verið úr honum að kvöldi.

Starfsmannafélag ríkisstofnana hefur nýlega ályktað um þörfina fyrir nýtt starfsmat. Í Ásgarði, októberhefti 1981, segir Helga Ólafsdóttir í grein, sem ber nafnið „Konur eru láglaunaður meiri hluti“, með leyfi forseta:

„Skrifstofumenn og fulltrúar eru starfshópar sem stunda óskilgreind skrifstofustörf. Þegar ráðið er til þessara starfa er frekar krafist almennrar menntunar en sérhæfðrar þekkingar á einhverju sviði. Sannleikurinn er þó sá, að skrifstofumenn þurfa oft og tíðum að búa yfir góðri íslenskukunnáttu og jafnframt kunnáttu í öðrum tungumálum ásamt færni í vélritun og notkun annarra skrifstofuvéla.

65% kvenna í skrifstofustörfum eru „skrifstofumenn“, það er þeirra starfsheiti, og verður obbi þeirra launaður í 10. launaflokki og lægra. En aðeins 13% karla eru „skrifstofumenn“. Aftur á móti eru aðeins 13% kvenna í störfum „fulltrúa“ en 39% karla. Þeir eru jafnframt yfirgnæfandi í enn þá æðri skrifstofustörfum, svo sem í stöðum deildarstjóra og skrifstofustjóra.“

Síðan segir hér áfram: „Fulltrúar eru oftast næstu yfirmenn skrifstofumanna, og sjálfsagt er töluvert almennt að skrifstofumenn hækki í fulltrúa, sérstaklega ef þeir eru karlar. Ekki þarf þó að vera mikill eðlismunur á þessum tveimur störfum. Dæmi eru þess, að skrifstofumaður, kona, og fulltrúi, karl, sitji saman á skrifstofn og vinni sömu störf fyrir ójöfn laun.“

Í sama blaði er bréf frá Jafnréttisráði sem ég vil einnig lesa hér, með leyfi forseta:

„Jafnréttisráð skorar á alla atvinnurekendur að hafa alltaf til reiðu nákvæmar starfslýsingar, áður en þeir auglýsa störf laus til umsóknar, þannig að umsækjendur geti í hverju tilviki gert sér sem besta grein fyrir í hverju starfið er fólgið og hvaða kröfur það gerir til starfshæfni og menntunar. Hvað eftir annað hefur það komið í ljós í þeim málum sem Jafnréttisráði er gert að fjalla um, að starfslýsingar og erindisbréf fyrir starfsmenn eru ýmist alls ekki til eða afar ófullkomin. Þetta er m. a. til þess fallið að torvelda Jafnréttisráði störf sín. Jafnréttisráð telur að stjórnvöld eigi að ganga á undan í þessum efnum og sýna með því gott fordæmi.

Að lokum tekur Jafnréttisráð það fram, að verði breytingar á eðli og umfangi starfs, sem valda því að aðrir eða fleiri eiginleikar séu æskilegar til að gegna því vel, þá verður að taka það greinilega fram í auglýsingu um starfið.“ — Og lýkur þá bréfi Jafnréttisráðs.

Öllu þessu fólki er ljóst að röng starfsheiti ráða miklu um launamisrétti, ekki síst milli karla og kvenna við sambærileg störf. Launþegar una ekki lengur þessu misrétti sem vafalítið á ómældan þátt í erfiðleikum við kjarasamninga. Konur una því ekki heldur lengur að vinna mestallt hið raunverulega starf fyrir langtum lægri laun en svokallaðir yfirmenn sem augljóslega leggja fram miklu minni vinnu. Oft og tíðum hafa þessar láglaunakonur verið kennarar hins nýja yfirmanns á skrifstofunum. Hygg ég að við könnumst margar við þá aðstöðu.

Þá er loks löngu kominn tími til að hreinsa til í launaflokkum ríkisins og kanna hvaða starfsmenn eru raunverulega nauðsynlegir á vinnustað — og þó fyrr hefði verið. Samviskusamir stafsmenn ríkisins eiga betra skilið en áróður almennings um að þeir sinni ekki starfi sinu í þágu hans vegna fárra manna sem aldrei leggja fram nokkra vinnu.

Ég tel að í þeirri sjálfheldu, sem launamál í landinu eru, væri með samþykki þessarar till. náð mikilsverðum áfanga til leiðréttingar á því launamisrétti sem nú viðgengst og torveldar alla skynsamlega umræðu um launamál.

Herra forseti. Ég vil að lokum leggja til að þessari till. verði vísað til allshn.