17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

65. mál, starfsmat fyrir ríkisstarfsmenn og starfsfólk ríkisbankanna

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég get tekið undir efni þessarar þáltill. og margt af því sem kom fram í ræðu hv. flm. hennar. Því ber auðvitað að fagna, ef till. verður til þess að starfsmat verði gert fyrir félaga BSRB og starfsfólk ríkisbankanna.

Eins og þessi till. ber með sér er hún liður í því að uppræta það launamisrétti sem ríkir á vinnumarkaðinum milli kvenna og karla. Það er leitt til þess að vita, að svo fáir þm. sjá sér fært að sitja undir þessari umr. Auðvitað er það dæmigert, því að það hafa oftar en einu sinni og oftar en tvisvar verið umr. einmitt um þessi launamál og það er yfirleitt fáliðað í þessum sal þegar verið er að ræða þau. En það er vissulega ástæða til að ræða þessi mál mjög ítarlega hér á hv. Alþingi.

Í grg. með till. kemur fram skipting starfsmanna ríkisstofnana í launaflokka. Þessi tafla undirstrikar enn þá brýnu nauðsyn, sem ég og reyndar fleiri þm. hafa marghaldið fram hér á hv. Alþingi, að könnun verði að gera á tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og fá á borðið raunverulegar launagreiðslur í landinu. Ekki síst undirstrikar taflan í grg. staðhæfingu mína oft hér á hv. Alþingi, að mikið launamisrétti ríki milli kvenna og karla í þjóðfélaginu.

Þáltill. Alþfl., sem samþykki var vorið 1980, um könnun á tekjuskiptingu og launakjörum, fól í sér að kannanir færu fram á ýmsum þáttum varðandi launagreiðslur og uppbyggingu launakerfa og þátt dulinna greiðslna í launatekjum. Einn þessara þátta fól í sér að rannsaka forsendur flokkaskipunar hinna ýmsu kjarasamninga, þ. e. meta vægi hinna ýmsu eðlisþátta vinnunnar eða annarra áhrifaþátta með vinnurannsóknum, t. d. með tilliti til menntunar, ábyrgðar, starfsaldurs, starfsreynslu og fleiri þátta. Er þar því raunar um starfsmat að ræða eins og till. kveður á um. Hefur Alþingi því í raun þegar ályktað og lýst vilja sínum um að starfsmat verði gert í hinum ýmsu starfsgreinum. Ég tel því að hv. 8. landsk. þm. hefði verið í lófa lagið — með skírskotun til þeirrar þál. sem felur í sér viljayfirlýsingu Alþingis um að starfsmat fari fram — að óska eftir því við ríkisstj., að það starfsmat verði gert sem fram kemur í þessari till. Ég vona að hv. þm. taki þetta sem vinsamlega ábendingu, vegna þess að ég tel að það hefði getað flýtt fyrir því, að þetta starfsmat færi fram, þar sem þegar liggur fyrir viljayfirlýsing Alþingis í því efni.

Í till. þeirri, sem hér er til umr., kemur sérstaklega fram að kannað verði hvort launamisrétti eigi sér stað milli karla og kvenna við sömu störf svo og hvort ábyrgðarstörf, sem konur sérstaklega gegna, séu metin til lægri launa en sambærileg störf karla. Það er vissulega nauðsynlegt að athuga þetta. En í þessu efni hefur Alþingi þegar ályktað með samþykkt þeirrar þáltill. sem ég nefndi frá 1980, um kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum. Þar segir að kannanir eigi að miða að því að upplýsa hvernig kynskipting sé eftir launatöxtum, yfirborgunum og starfsgreinum, auk þess sem kanna átti hvort brögð væru að því, að launamisrétti væri falið í stöðuheitum. Athuga átti einnig hvort uppbygging launataxta og annarra launakjara kallaði fram mismun á kjörum kvenna og karla. Ég sé þó ekkert því til fyrirstöðu, að það sé ítrekað hér aftur og aftur á hv. Alþingi, og styð að sjálfsögðu þær tillögur sem ég tel að geti flýtt fyrir að uppræta það launamisrétti sem við búum við í þessu efni.

Auðvitað er einnig ljóst að það er ekki eingöngu innan BSRB sem nauðsyn er á að starfsmat fari fram, eins og þessi till. kveður á um. Ég vil t. d. benda á verslunar- og skrifstofufólk almennt í því sambandi. Það er ekki síður nauðsyn á starfsmati þar, sérstaklega — eins og fram kemur í þessari þáltill. — að kannað sé launamisrétti milli karla og kvenna í þeirri stétt.

Verslunarmannafélag Reykjavíkur hefur látið fara fram nokkrum sinnum á vegum Hagvangs könnun á raunverulegum launagreiðslum meðal verslunar- og skrifstofufólks. Konur eru áberandi þar í neðstu launaflokkunum. eins og reyndar kemur fram hér í töflunni frá hv. þm. varðandi starfsfólk h já BSRB, en aftur á móti eru mjög fáir karlmenn í þessum neðstu flokkum. Síðan skiptir aftur yfir í efri flokkunum, því þar eru karlmenn fjölmennir en tiltölulega fáar konur þar að finna, auk þess sem yfirborganir koma mestmegnis fram í efri launaflokkunum og renna því áberandi mest til karla. Það væri því auðvelt að setja upp töflu varðandi launaflokka kvenna og karla í verslunar- og skrifstofustétt sem sýndi ekki síður en sú tafla, sem er í þessari grg., hve sláandi mismunur er á launakjörum kvenna og karla í stétt verslunar- og skrifstofufólks.

En, herra forseti, starfsmat fyrir félaga BSRB og starfsfólk ríkisbankanna gæti þó komið hreyfingu á þessi mál og orðið til þess, að nauðsynlegt starfsmat færi fram hjá fleiri stéttarfélögum og er það vissulega spor til þess að uppræta launamisrétti.