17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

65. mál, starfsmat fyrir ríkisstarfsmenn og starfsfólk ríkisbankanna

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Mér þykir vera komið nokkuð þægilegt jafnvægi hér á milli karla og kvenna í hv. Alþingi. og ég verð satt að segja að taka undir það sem hv. fyrri ræðumenn sögðu, að það er undarlegt að ekki skuli fleiri vera viðstaddir þegar svo mikilvægt mál er til umr. sem hér er.

Ég átti um hríð sæti í ráði sem hét Jafnlaunaráð og var að nokkru leyti undanfari Jafnréttisráðs. Þar kynntist ég talsvert vel þessum málum. Og ég verð að segja að ég hef sjaldan eiginlega komist að jafnfurðulegum niðurstöðum um launamál í landinu og við komumst þar að í rannsókn á tilteknum málum. En það var kannske ekki misréttið, launamisréttið, sem athygli vakti, heldur þeir næstum því ótrúlegu erfiðleikar sem á því voru að fá úr bætt. Það var næstum því eins og allir aðilar sameinuðust gegn þeim úrbótum og þeim samþykktum sem Jafnlaunaráð gerði. Það skipti engu máli hvort það voru opinberir aðilar, meira að segja kom hið háa Alþingi inn í þessi mál, hvort það voru atvinnurekendur eða hvort það voru stéttarfélögin. Þar rakst maður oft á mjög undarlega afstöðu þar sem ekki mátti hagga við málum vegna þess að þetta væri samningsatriði milli atvinnurekenda og launþega.

En ég ætla nú alls ekki að lengja þessar umr. Ég viðurkenni það, að ég stóðst ekki frýju hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, að enginn karlmaður skyldi taka til máls í þessu sambandi. Ég vil eindregið lýsa stuðningi mínum við till. og í þeirri von, að það mætti verða liður í þá átt að jafna laun karla og kvenna og jafnframt að jafna laun allra launþega í landinu.