18.11.1981
Efri deild: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

68. mál, flugmálaáætlun

Finnur Torfi Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kjartani Jóhannssyni fyrir flutning þessa máls hér á Alþingi. Ég tel að þetta sé mikið þjóðþrifamál og mundi horfa mjög til framfara í samgöngumálum Íslendinga ef þingið samþykkti frv. og það yrði að lögum. Flm. hefur flutt okkur mjög ítarlega framsöguræðu um málið og ég hef satt að segja ekki mjög miklu við það að bæta öðru en nokkrum almennum aths.

Það er mitt mat og margra annarra, sem hafa fylgst með flugmálum á Íslandi, að flugið hafi orðið mjög út undan hvað uppbyggingu alla varðar. Það kann að eiga sér ákaflega eðlilegar skýringar. Hver sá Íslendingur sem ferðast t. d. um þjóðvegakerfið finnur á mjög áþreifanlegan hátt hversu vegakerfinu er áfátt. Flugfarþegi gerir sér hins vegar ákaflega litla grein fyrir því, af hverju var hægt að fljúga í dag, en ekki í gær. Það er þess vegna ekki eins augljóst fyrir flugfarþeganum hverjir ágallar flugkerfisins eru. Hverjar sem orsakirnar eru er alveg ljóst að hv. Alþingi og stjórnvöld hafa alls ekki sinnt þessum samgönguþætti sem skyldi. Það skortir verulega mikið átak, einkum í flugvallagerð og hvað varðar uppsetningu leiðsögutækja fyrir flug.

Það er hægt að nefna einstök dæmi um hvað núverandi ástand er óhagkvæmt og þjóðinni raunverulega dýrt. Nú háttar svo til á flestum stöðum á landinu, þangað sem flogið er til farþegaflug, að flugvellir eru þar bæði mjög stuttir og venjulega einungis malarbrautir, sem eru misjafnlega góðar eftir því hvernig veðurfar er. Þetta ástand flugvallanna og flugbrautanna gerir það að verkum að ekki er hægt að nota hagkvæmari vélar til flugsins. Menn verða að nota flugvélar sem eru hægfleygar, sem geta lent á litlum hraða og eru með fyrirferðarmikinn hjólabúnað svo það verði ekki mikil hætta ef það skyldi vera léleg færð á brautinni. Þessar hægfara vélar eru miklu dýrari í rekstri, þær fljúga hægar og eyða meira eldsneyti en aðrar nýtískulegri vélar, sem tiltækar eru, en einungis verða notaðar á sæmilega góðum flugbrautum.

Í annan stað er ástand hvað varðar leiðsögutæki ákaflega fátæklegt og satt að segja mesta furða hvað innanlandsflugið gengur áfallalaust. Ég held að það megi fyrst og fremst þakka því, að sem betur fer hefur íslensku flugfélögunum tekist að þjálfa upp ákaflega hæfa flugmannastétt sem hefur aðlagað sig sérkennilegum og erfiðum aðstæðum hér á Íslandi svo furðulegt má telja. Það er grundvallaratriði fyrir samgönguöryggið og að unnt sé að halda uppi reglulegum og öruggum ferðum að flugleiðsögutæki séu eins góð og kostur er. Flest þau leiðsögutæki, sem menn hafa hér við að styðjast nú, eru ákaflega forn og raunverulega löngu orðin úrelt.

Ég nefni þessi tvö atriði sem dæmi um það sem einna helst má gripa á og ábótavant er hér í flugmálum. Annar þátturinn er sá, sem raunar kom fram í máli flm., að raunverulega hefur ekki verið fyrir hendi neinn samanburður á hagkvæmni hinna ýmsu samgönguþátta, þ. e. samgangna á sjó, samgangna í lofti og samgangna á landi. Menn hafa unnið þetta nokkurn veginn eftir kröfum tímans, en ekki lagt niður fyrir sér með skipulegum hætti með hvaða samgönguaðferð skynsamlegast væri að sinna hverju verkefni. Hér er mikil þörf á að bæta úr. Það er einn megintilgangur þessa frv. að stuðla að því, að flugmálastefna og framkvæmdir í flugmálum verði unnar með skipulögðum hætti eftir áætlanagerð, sem verður lögð reglulega hér fyrir Alþingi, og menn fái þar með kost á því að bera saman hvert hlutverk flugsins á að vera í samanburði við aðra samgönguþætti.

Eins og ég gat um í upphafi er í raun og veru ekki þörf á að bæta miklu við það sem hv. flm. sagði, en ég vil einungis óska þess, að hv. Alþingi geti samþykki þetta frv. og gert að lögum.