18.11.1981
Efri deild: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

68. mál, flugmálaáætlun

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég er aðeins kominn hér í ræðustól til að segja fáein orð um þetta þarfa frv. og lýsa yfir fylgi við þá meginstefnu sem það boðar. Ég verð að játa það, að ég hef raunar átt von á stjfrv. um þetta mál alllengi. A. m. k. þrír samgrh. hafa boðað hér á Alþingi, að þessa stefnu ætti að taka upp og að því væri unnið í þeirra rn. að flugmálaáætlun væri gerð í samráði við flugmálastjórn og flugráð. En það bólar ekki á þessu frv. enn og því eðlilegt að málinu sé hreyft hér á Alþingi, vegna þess að áætlanir varðandi framkvæmdir í svo veigamiklum þætti samgangna, flugmálum, eru vitanlega sjálfsagðar. Því betur sem menn gera sér grein fyrir umfangi, fyrir kostnaði öllum, fyrir áhersluþáttunum kannske alveg sérstaklega og röð framkvæmdanna eftir þýðingu þeirra, þeim mun meira árangurs má vænta af þeim framkvæmdum sem í gangi eru. Um allt þetta liggur fyrir býsna víðtækur fróðleikur, eins og hér hefur þegar komið fram reyndar, hjá flugmálayfirvöldum, hjá flugráði og í framtíðaráætlunum sérstakrar nefndar, sem um þessi mál fjallaði fyrir nokkrum árum og var þar með ákveðnar áætlanir og spár um framtíðina sem m. a. tóku mið af því, að flugmálaáætlanir væru gerðar, ef mig misminnir ekki. Frá því að sú nefnd skilaði áliti er það auðvitað mála sannast að við höfum þokast nokkuð í áttina, en þó allt of skammt með tilliti til þess, hve ríkur og vaxandi þáttur þetta er í öllum samgöngum okkar. Við erum með allt of lítil framlög til þessa málaflokks og stundum kemur fram spurning um skynsamlega framkvæmd eða ekki. Það má segja að í landi okkar, þar sem kallað er úr öllum áttum til aukinna umsvifa á sviði framkvæmda og hvers konar þjónustu, er vandi að velja, en þó held ég að framkvæmdir í flugmálum eigi að vera þar í alfremstu röð vegna þess hvað það er mikið í húfi.

Nú er það svo, að fátt gengur okkur verr en að raða verkefnum skynsamlega út frá hreinum faglegum sjónarmiðum og í þessum málaflokki þó alveg sérstaklega öryggissjónarmiðum, eins og þegar hefur verið komið rækilega inn á hér af tveimur hv. síðustu ræðumönnum. Það er víða þrýstingur á og eðlilega, svo sem þessi mál hafa setið á hakanum, en það hvetur líka til skipulagðra vinnubragða og áætlunar til langs tíma því að oft sætta menn sig við nokkra bið á framkvæmdum, t. d. á sínum stað, varðandi sitt umdæmi, ef þeir sjá svart á hvítu að röðin kemur að þeim í úrbótum og framkvæmdum innan skamms, þó að það líði jafnvel 2–3 ár, þó að það sé jafnvel síðast á áætlunartímabilinu. Marktækar áætlanir eru líka leiðarvísir sem byggja má'á. En þá vaknar auðvitað spurningin varðandi þetta frv. út frá annarri áætlunargerð: Hversu marktæk yrði áætlun af þessu tagi? Mér sýnist, að þar sé inn á rétta braut farið í þessu efni, og tek þar tvær áætlanir aðrar, sem snerta líka samgöngumál, til viðmiðunar.

Hafnaáætlanir hafa verið gerðar og þær hafa verið gefnar út í fallegri þykkri bók, sem menn kannast við, með fallegri litmynd á forsíðu. En þær bókmenntir hafa því miður oftar en ekki valdið vonbrigðum og vandræðum úti í kjördæmunum, þó að ég viðurkenni að það hefur síðar verið reynt að vanda betur til þessara áætlana og komast meira í taki við raunveruleikann, en raunveruleikinn er í raun og veru fjárveitingar Alþingis á hverjum tíma. Þær skipta í raun og veru öllu máli og að sjálfsögðu þróun verðbólgunnar, ekki megum við gleyma henni, sem oft hefur sett ljótt strik í reikninginn varðandi þessar framkvæmdir.

Hafnaáætlun hefur sem sagt verið að mörgu leyti mjög góð, menn hafa gert sér grein fyrir umfangi og eðli vandans, en hún hefur ekki verið marktæk að því leyti sem helst þyrfti, að menn gætu nokkurn veginn reitt sig á hana út áætlunartímabilið. Ég held að aðalástæðan hafi kannske verið sú. að þessi áætlun hefur ekki hlotið staðfestingu Alþingis. Hún hefur ekki verið lögð fyrir Alþingi til staðfestingar. Vegáætlanir hafa verið ólíkt marktækari. Ég er ekki að segja að það hafi alltaf verið farið eftir bókstafnum í einu og öllu, en vegáætlanirnar eru þd góður leiðarvísir um það, hvernig Alþingi getur markað nokkra langtímastefnu í framkvæmdum. Ég held að munurinn liggi einmitt í því sem ég kom inn á áðan, þ. e. staðfestingu Alþingis á vegáætluninni. Um leið kemur skuldbinding Alþingis á þessari áætlun. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., og það telst einn höfuðkostur þess, að svo skuli ráð fyrir gert um flugmálaáætlun.

Hv. 3. landsk, þm. kom hér inn á veigamikið atriði sem ég held að við eigum að gefa gaum, þ. e. samanburð á samgönguþáttum okkar. Þannig vildi til, að fyrir þrem árum setti þáv. hæstv. samgrh. á fót allfjölmenna nefnd frá öllum þeim aðilum, sem komu inn í þessi mál að nokkru marki, til að kanna einmitt þennan samanburð á öllum samgönguþáttum og þar voru einnig fulltrúar frá Alþingi. Ég átti sæti í þessari nefnd og vann í henni í nokkurn tíma. Ég var í raun og veru undrandi á því á þeim stutta tíma, hve ég aflaði mér mikils fróðleiks frá hinum ýmsu aðilum, sem stunda samgöngur og eiga við samgöngur hér á landi, sem þeir komu þar á framfæri og komu þar í vissan banka. Af einhverjum ástæðum var þessi nefnd leyst upp. Hún var kannske líka of fjölmenn. Það kann vel að vera að menn hafi þar farið of vítt út á málasviðið. Þó held ég ekki. Mér finnst að grundvöllurinn að þessu þurfi að vera ansi víðfeðmur svo að menn nái einhverjum árangri. Síðan mun hæstv. núv. samgrh. hafa sett í þetta þriggja manna nefnd, að ég held. Ég veit ekki hvernig starfi þeirrar nefndar er háttað, en hún mun eiga að taka til athugunar einmitt samanburð á samgönguþáttum og skipulagi allra þeirra framkvæmda. Þótt í þessari nefnd séu ágætismenn óttast ég hins vegar að þeir séu ekki í of miklum beinum tengslum við alla þá aðila sem vinna að samgöngum hér á landi. Fyrri nefndin sem afkastaði ótrúlega miklu á skömmum tíma, var þó að því komin að fara út í kjördæmin og tala þar við heimamenn, landshlutasamtök sveitarfélaganna þar og aðra heimaaðila sem þar unnu að samgöngum. Það kann að vera að þessi nefnd vinni í sama anda og þá er það vel, en það er full ástæða til að undirstrika þetta, því að skipulag allra samgangna okkar er auðvitað eitt brýnasta verkefni okkar. Þar erum við í algeru skipulagsleysi varðandi t. d. fólksflutninga, varðandi vöruflutninga og varðandi samgöngur allar, og þar gengur margt á misvíxl svo að ekki sé meira sagt.

Um flugmálaframkvæmdir að öðru leyti mætti segja margt, en ég vil aðeins leggja á það áherslu, að þar sem tugþúsundir farþega eiga í hlut á ári hverju hljóta öryggissjónarmiðin að sitja í fyrirrúmi og í áætlun sem þessari verður að taka mið af því, eins og reyndar kemur fram í grg. með frv. og sjálfri frv.-gerðinni.