18.11.1981
Neðri deild: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

46. mál, land í þjóðareign

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Hugmyndir okkar Alþfl.-manna og tillögur um þjóðareign á landi eru löngu kunnar. Fyrstu tillögur Alþfl. um þessi mál voru lagðar fyrir Alþingi af Braga Sigurjónssyni alþm. árið 1970 eða fyrir röskum einum áratug. Var þar um að ræða till. til þál. um endurskoðun löggjafar um óbyggðir landsins, vötn, ár, jarðhita og námur. Í till. var lagt til að Alþingi legði fyrir ríkisstj. að láta sérfróða menn semja frv. eða frumvörp að lögum um eignarráð og eignarréttindi yfir óbyggðum landsins, stöðuvötnum, fallvötnum, jarðhita svo og hvers konar námum og vinnslu verðmæta úr jörðu, þar sem stefnt væri að því m. a. að allt hálendi landsins og óbyggðir þess yrðu lýst alþjóðareign.

Till. þessi, sem fyrst var flutt á Alþingi 1970, hefur síðan tekið ýmsum breytingum. Árið 1972 var henni breytt verulega nefndist þá till. til þál. um eignarráð á landinu, gögnum þess og gæðum. Árið 1976 breyttu þm. Alþfl. síðan þessari tillögugerð í formlegt frv. og fluttu þeir Bragi Sigurjónsson og Jón Ármann Héðinsson frv. til l. árið 1976 um eignarráð yfir landinu, gögnum þess og gæðum. Þá hafa þm. Alþfl. einnig flutt sérstök þingmál þessu tengd, svo sem frv. til l. um breytingu á lögum um framkvæmd eignarnáms, sem flutt var á 100. löggjafarþinginu árið 1978, og frv. til l. um breytingu á orkulögum, sem þm. Alþfl. voru meðflm. að á þingunum 1974, 1975 og 1976, en upphaflega var þetta frv. samið og flutt af þáv. orkumrh. Magnúsi Kjartanssyni.

Tillögur Alþfl. um eignarráð á landinu, gögnum þess og gæðum eru mjög yfirgripsmikið mál og varðar fjölmarga þætti landa og landgæða. Frá því umr. um málið hófust teljum við Alþfl.-menn að stuðningur við ýmis meginsjónarmið okkar um þjóðareign á landi hafi farið vaxandi, enda er staðreyndin sú, að stöðugt er verið að kreppa meira að almenningi um aðgang að landi, not þess og nytjar. Þannig hefur t. d. sú till. okkar Alþfl-manna nú hlotið almenna viðurkenningu að mati okkar, að náttúruauðlindir, svo sem djúphiti og orka í fallvötnum landsins og virkjunarréttur, eigi að vera eign þjóðarheildarinnar, en ekki tiltekinna einstaklinga, og að sama máli skuli gegna um óbyggðir og hálendi landsins.

Mér leikur sérstök forvitni á að vita hjá hæstv. iðnrh. hvort hann hafi í huga að beita sér fyrir því á Alþingi í vetur, að flutt verði frv. eða frumvörp sem taka af öll tvímæli um að virkjunarréttur djúphita og fallvatna sé í eign þjóðarheildarinnar, en ekki einstakra einstaklinga eða hópa þeirra. Ef svo er ekki munum við Alþfl.-menn óska eftir því við þingflokk hæstv. ráðh., Alþb., að við stöndum saman um að flytja frv. til I. um breytingu á orkulögum sem hæstv. þáv. iðnrh. Magnús Kjartansson átti frumkvæði að flutningi á. Ef hins vegar hæstv. iðnrh. hefur í huga að gera eitthvað í þessum málum á Alþingi í vetur vænti ég þess fastlega, að við getum orðið sammála, Alþb.-menn og Alþfl.-menn, um að fylgja slíku máli eftir. Ég held að almennt sé mönnum orðið ljóst hvílík nauðsyn er á því, að enginn vafi hvíli á um að náttúruauðlindir. svo sem djúphiti og orka fallvatna, séu í eign þjóðarheildarinnar, en ekki einhverra örfárra einstaklinga.

Við flm. þessa frv. teljum að m. a. vegna tillöguflutnings og málflutnings Alþfl.-manna sé nú orðinn mjög almennur stuðningur við sum atriði í tillögugerð Alþfl. um þjóðareign á landi og ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að þau atriði gætu náð fram að ganga. Hins vegar gerum við okkur fyllilega ljóst að ýmis önnur atriði í okkar tillögugerð, svo sem að íslenska þjóðin í heild skuli eiga veiðirétt í veiðivötnum og ám landsins, eru umdeildari og ríkir ekki eins mikill almennur skilningur og stuðningur við þau atriði í stefnu okkar og þau sem ég gerði að umtalsefni rétt áðan.

Að þessu athuguðu höfum við þm. Alþfl. talið rétt að láta nú á reyna hvaða einstök atriði í stefnumótun og tillögugerð okkar um eignarráð yfir landinu, gögnum þess og gæðum hafi öðlast nægan stuðning til þess að von sé ti1 að þau náist fram á Alþingi Íslendinga. Við höfum því brugðið á það ráð, þm. Alþfl., að í staðinn fyrir, eins og við höfum áður gert, að flytja þetta stóra og mikla mál um eignarráð á landinu, gögnum þess og gæðum í einu þingmáli á Alþingi, annaðhvort í mynd lagafrv. eða sem till. til þál. um almenna stefnumörkun Alþingis, þá verði þetta umfangsmikla mál brotið upp í einstaka þætti og flutt síðan sjálfstæð þingmál um hvern þátt um sig og þannig látið á reyna hvaða hugmyndir Alþfl.-manna, og þá sérstaklega þær sem notið hafa almenns stuðnings í þessu landi, geti náð afgreiðslu á Alþingi. Þannig verða flutt á þessu þingi margar till. og lagafrv. um einstök atriði í stefnu og tillögugerð Alþfl.- manna um eignarráð yfir landinu, og er frv. það, sem hér um ræðir, eitt þeirra. Af öðrum málum má nefna till. til þál. um orlofsbúðir fyrir almenning. Eins og menn muna eftir, því að sú till. hefur verið rædd á Alþingi, stefnir hún að því að bújarðir ríkisins, sem ekki eru nýttar til búskapar, verði fengnar almenningi eða almannasamtökum til útivistar og til þess að byggja þar á orlofsbúðir eða sumardvalaraðstöðu. Einnig munum við endurflytja lagafrv. um framkvæmd eignarnáms og er það nú í undirbúningi. Þá munum við væntanlega einnig endurflytja frv. til l. um þjóðareign á háhitasvæðum og virkjunarrétti á þeim, náist ekki eða hafi ekki náðst að fyrirlagi hæstv. iðnrh. samkomulag um flutning slíks máls á þessum vetri.

Þannig munum við þm. Alþfl. gera hin einstöku atriði í stefnu og tillögugerð Alþfl. um eignarráð yfir landinu, gögnum þess og gæðum að sjálfstæðum þingmálum nú á þessu þingi og láta þannig á reyna hvernig háttað er afstöðu annarra þm. og þingflokka til einstakra atriða í þeirri stefnu.

Frv. það, sem hér er flutt, takmarkast við að lýsa öll þau landssvæði þjóðareign sem skýlausar eignarheimildir annarra en ríkisins finnast ekki fyrir, m. ö. o. að það verði tryggilega frá því gengið, að þau svæði á okkar landi og þau landgæði, sem enginn getur gert eignarréttarlegt tilkall til, hvorki einstaklingar, félagasamtök, sveitarfélög, upprekstrarfélög né aðrir aðilar, verði í eitt skipti fyrir öll lýst alþjóðareign. Með sama hætti verði farið með vatnsréttindi, jarðhita, námuréttindi og önnur fasteignarréttindi sem aðrir eignaraðilar finnast ekki að.

Í framkvæmd mundi þetta þýða að allar óbyggðir Íslands yrðu lýstar þjóðareign ásamt flestum eða öllum afréttum og hálendissvæðum sem formlegt eignarhald annarra aðila er ekki fyrirfinnanlegt á. Á þeim svæðum mundi íslenska þjóðin gera tilkall til allra fasteignarréttinda, svo sem vatnsréttinda, jarðhita, námuréttinda og annarra réttinda sem bundin eru eignarrétti lands, en beitarréttindi þau, sem fylgja einstökum bújörðum, upprekstrarfélögum eða sveitarfélögum, stæðu óskert svo og veiðiréttindi öll og allar aðrar eignarheimildir annarra en ríkisins sem sönnun er færð fyrir.

Ég vek í þessu sambandi sérstaka athygli á því, að dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu, að skilið geti verið á milli annars vegar takmarkaðs eignarréttartilkalls, sem menn geta gert til slíkra landssvæða, t. d. hvað varðar beitiréttindi og veiðirétt, og formlegs eignarhalds. M. ö. o. hafa dómstólar komist að þeirri niðurstöðu, að einstaklingar, upprekstrarfélög og sveitarfélög geti gert tilkall til þess að halda og teljast eiga beitarréttindi á afréttum og hálendissvæðum án þess að um formlegt eignarhald að öðru leyti sé að ræða. Við gerum ekki með frv. þessu tillögur um að þessu sé á nokkurn hátt breytt, m. ö. o.: að upprekstrarfélög, bújarðir, sveitarfélög og aðrir þeir, sem slík réttindi eiga, svo sem beitarréttindi eða veiðiréttindi, haldi þeim réttindum sínum óskertum, en eignarrétturinn, sem ekki er fyrir hendi á landssvæðinu í heild, falli til ríkisins.

Stefna af því tagi, sem tekin er í frv. þessu, mundi líka afgreiða ýmis deilumál sem niðurstaða þarf nauðsynlega að fást í. Nú hafa fallið dómar nýverið sem gera að verkum að bráðnauðsynlegt er að taka afstóðu til þess, hver teljist vera formlegur eigandi ákveðinna landa og landssvæða á Íslandi. Svo nefnd séu þrjú dæmi þar um vil ég fyrst víkja að því. að nýlega féll dómur um að bændur við Mývatn teldust ekki eiga botn vatnsins sem þeir höfðu gert eignarréttarlegt tilkall til. Fyrst niðurstaða dómstóla er sú, að ekki bændur og væntanlega þá ekki sveitarfélög né félög bænda við Mývatn eigi botn vatnsins, hver er það þá sem fer með formlegt eignarhald á því svæði? Auðvitað þarf að skera úr um það. Dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu, að íbúarnir við Mývatn eigi þetta ekki. Ber þá ekki að ganga svo frá, að það sé þá almenningur, ríkisvaldið í nafni almennings, sem með þennan eignarrétt fari?

Svo nefnt sé annað dæmi, þá reis upp deila milli Eyfirðinga og Skagfirðinga um hvorir teldust eiga Nýja-bæjarafrétt. Dómur hefur fallið í því máli á þann veg, að hvorug geti gert eignarréttarlegt tilkall til þessa landssvæðis, hvorki bændur í Skagafirði, bændur í Eyjafirði né heldur samtök þessara aðila. Fyrst það er niðurstaða dómstóla þarf auðvitað að ganga frá því, hver það er þá í þjóðfélaginu sem fer með þennan eignarrétt og telst eiga þetta land. Það liggur auðvitað í augum uppi, að það getur enginn annar verið en þjóðarheildin, ríkisvaldið í nafni þjóðarheildarinnar, en um það þarf að fá úrskurð með lagasetningu frá Alþingi.

Þriðja dæmið, sem ég vildi gjarnan fá að nefna hér, varðar enn eitt deilumál. Fyrir nokkrum árum var áhugamönnum um rjúpnaveiði bannaður allur veiðiskapur á Hellisheiði af bændum og sveitarfélögum sem töldu sig eiga þar veiðiréttindi og töldu sig hafa fullkomið eignarhald á þessu landssvæði. Þessar deilur enduðu með því, að lögreglan á Selfossi elti uppi nokkrar rjúpnaskyttur þar á heiðinni og tók af þeim bæði veiði og skotfæri að beiðni þeirra sem töldu sig vera landeigendur þarna, enda væru rjúpnaveiðimenn þar í banni.

Rjúpnaveiðimenn höfðuðu skaðabótamál á ríkissjóð vegna þess að afskipti lögreglunnar á Selfossi af þeirra málum hefðu verið óleyfileg þar sem bændur og þeir aðilar, sem hefðu talið sig eiga þetta land og bannað veiðiskap á því, gætu ekki gert eignarréttarlegt tilkall til landsins og þarna væri því öllum íslenskum ríkisborgurum heimilaður fullur og frjáls aðgangur og veiðiskapur samkv. almennum reglum þar um. Niðurstaða er nýfengin í þessu deilumáli. Þar var ríkissjóður dæmdur skaðabótaskyldur og dæmdur til að skila umræddum veiðimönnum bæði vopnum og veiði og greiða einnig skaðabætur. Lögreglan hefði ekki haft leyfi til að elta rjúpnaskyttur þessar upp á heiði og taka þar af þeim vopn og veiði, þar eð þeir bændur og þeir aðilar, sem hefðu bannað veiðiskap á heiðinni, gætu ekki talist formlegir eigendur þessa umdeilda landssvæðis.

Þá rís enn spurningin: Ef úrskurður dómstóls er á þá lund, að upprekstrarfélögin og einstaklingarnir, sem þarna eiga hlut að máli, geti ekki gert eignarréttarlegt tilkall til þessa landssvæðis, hver er það þá sem á það? Málum af þessu tagi mun fjölga á næstu árum. sérstaklega í sambandi við deilur um virkjunar- og vatnsréttindi, og því er nauðsynlegt að úrskurðir liggi fyrir. Þegar niðurstöður dómstóla eru á þá lund, að einstaklingar eða samtök þeirra geti ekki talist fara með formlegar eignarheimildir á ákveðnum landssvæðum á hálendi landsins, verður að skera úr um með lagasetningu frá Alþingi hver sé þá talinn eiga þessi landssvæði, hver hafi umráðarétt yfir þeim. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt, að það sé óvíst um slíkt, að það sé t. d. hægt að meina almenningi aðgang að landssvæðum eða telja að ákveðin landssvæði allt upp að hájöklum landsins séu í einkaeign og þeir, sem hafi þar eignartilkall, geti meinað öllum almenningi frjálsan aðgang að slíku landi, ef það liggur ekki alveg ljóst fyrir að heimildir séu fyrir slíku.

Ég vil sem sé ítreka að með frv. þessu er alls ekki gerð tillaga um eignaupptöku eða eignarnám á landssvæði, hlunnindum eða öðrum eignarréttindum sem eru eign annarra en ríkisins. Frv. gerir ekki ráð fyrir að neitt sé tekið af neinum slíkum, hvorki bændum, samtökum þeirra, sveitarfélögum né heldur öðrum lögaðilum. Samþykkt frv. mundi í engu breyta þar um. Þessir aðilar hefðu í sínum höndum jafnt eftir sem áður allar þær eignir og eignarheimildir sem þeir hafa. Einasti tilgangur frv. er að lýsa yfir að land og landsréttindi, sem aðrir eigendur finnast ekki að, skuli eftirleiðis talin eign þjóðarheildarinnar og að um þá þjóðareign verði settar ákveðnar reglur sem tryggi bæði rétt og skyldur almennings gagnvart slíku landi og landgæðum. Almenningur þarf einnig að taka á sig skyldur gagnvart slíkum eignum sem settar eru í eigu þjóðarinnar, jafnframt því sem almenningur fær aðgang að slíku landssvæði. Er vel við eigandi að slíkt sé gert einmitt núna, þegar talað er um að verja talsverðum fjárfúlgum úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar til að bæta fyrir spjöll genginna kynslóða á landinu þegar rætt er um nauðsyn á því, að áfram sé haldið því starfi. Auðvitað fer ekki saman að biðja í öðru orðinu um fé úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar til slíkra þarfa, þar eð Ísland sé eign þjóðarheildarinnar og þjóðarheildin eigi að greiða kostnaðinn af því að bæta það sem miður hefur farið hjá gengnum kynslóðum, en ætla svo að neita því í hinu orðinu, að þessi sama þjóð fái að öðlast frjálsan aðgang að því landi og landgæðum sem enginn annar eigandi finnst að.

Nú er vel líklegt að ágreiningur geti orðið og verði um hvaða löndum og landgæðum eignarheimildir annarra en ríkisins liggi fyrir á. Í 5. gr. frv. er þannig ráð fyrir því gert, að fjmrn., sem á samkvæmt frv. að annast framkvæmd laganna, byrji á því að láta kanna eignarrétt á öllu landi og landgæðum utan heimalanda og birti slíka könnun opinberlega. Verði þannig öllum þeim, sem hlut eiga að máli, gefinn kostur á að koma fram breytingum og leiðréttingum á skránni. Loks er fjmrn. lögð sú skylda á herðar, að ef óvissa þykir ríkja í þeim efnum skuli rn. leita úrskurðar á málinu fyrir dómstólum. Með þessu á að vera frá gengið svo öruggt sé, að ekki verði um neinar eignaupptökur að ræða né eignarnám, heldur aðeins það eitt, sem er tilgangur flm. frv. og meginatriði frv., að lýsa þau landssvæði og landgæði þjóðareign sem aðrir eigendur finnast ekki að.

Þetta er ekkert nýmæli, sem hér er verið að varpa fram, herra forseti. Nákvæmlega sams konar könnun og hér er rætt um að gera var gerð í Noregi fyrir nokkuð mörgum árum. Þótti þar nauðsynlegt að gera slíka könnun áður en ráðist yrði í mjög umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir í Noregi. Norsk stjórnvöld töldu nauðsynlegt, áður en til slíkra stórvirkjunarframkvæmda kæmi, að gengið yrði úr skugga um, hvar væru mörkin á milli almannaeigu og einkaeigu, til þess m. a. að lesa þau vandkvæði og þau ágreiningsefni sem kynnu að vakna varðandi virkjanir og virkjunarframkvæmdir eða ef einhver vafi ríkti á um hvaða land og landgæði væru í eigu einkaaðila og hvaða land og landgæði í eigu þjóðarheildarinnar eða sveitarfélaga.

Þessi könnun tók nokkuð langan tíma í Noregi, enda er um mikið viðfangsefni að ræða. Mig minnir að það komi hér einhvers staðar fram í frv., hvað þessi könnun, samning slíkrar skráar um hvar væru fyrirfinnanlegar heimildir um einkaeignarrétt á löndum og landgæðum og hvar ekki, tók langan tíma. Ég held að sú vinna hafi tekið u. þ. b. 20 ár í Noregi. Það er einnig gert ráð fyrir því í þessu frv., að góður tími verði gefinn til að útbúa slíka skrá og ganga frá slíkri könnun eins og kemur fram í 5. gr. frv., en þar er lagt til að gefinn sé tími allt til ársins 1955 til að ganga frá könnun af þessu tagi og leysa þau ágreiningsefni sem kynnu að rísa milli ríkisvaldsins annars vegar og lögaðila hins vegar um eignarrétt á landi. Þó svo að þetta frv. öðlaðist gildi t. d. á þessum vetri væri það þó ekki fyrr en eftir árið 1995 sem gera mætti ráð fyrir að meginefni þess kæmist til framkvæmda, og áður en það kæmist til framkvæmda væri búið af hálfu fjmrn. að gera mjög ítarlegar kannanir á því, hvar eignarréttur einstaklinga og samtaka þeirra væru fyrir hendi á landi og landgæðum utan heimalanda og hvar ekki. Væri um vafa að ræða, sem ekki næðist samkomulag um á milli stjórnvalda annars vegar og þeirra aðila, sem hagsmuna eiga að gæta, hins vegar, yrði leyst úr honum fyrir dómstólum með því að leggja fjmrn. þá skyldu á herðar að óska eftir úrskurði dómstóla um slík efni, þannig að einstaklingarnir, sem hlut ættu að máli, þyrftu ekki að taka málið upp gagnvart rn., heldur rn. sjálft hafa frumkvæðið að því að leita úrskurðar dómstóla.

Þá vek ég einnig athygli á því, herra forseti, að í grg. þessa frv. er jafnframt skýrt frá öllum þingmálum Alþfl. um eignarráð á landi, allt frá árinu 1970 þegar þau fyrst voru lögð fram. Bið ég þm. eindregið að bera saman annars vegar þetta frv., sem aðeins lýtur að ákveðnum þætti þess málatilbúnaðar alls, og svo þau þingmál, sem gerð er grein fyrir í grg. frv., til þess að menn geti gengið úr skugga um afdráttarlaust, að tilgangurinn með þessu frv. er sá einn að leystur verði ágreiningurinn, sem uppi er um mörk almannaeignar og einkaeignar í þessu landi, og frá þeim málum verði gengið, ef ekki næst sátt á milli aðila, þá með úrskurði dómstóla, og niðurstaða málsins verði síðan sú, að þau landssvæði og þau landgæði á landi okkar, sem enginn annar eignaraðili finnst að, verði úrskurðuð eign þjóðarheildarinnar.

Herra forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði frv. þessu vísað til 2. umr. og væntanlega til hv. félmn.