18.11.1981
Neðri deild: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

46. mál, land í þjóðareign

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umfjöllunar um land í þjóðareign, eins og fram kom í framsögu 1. flm., er hluti af eignarréttartillögum þeirra Alþfl.-manna, sem þeir hafa flutt hér á hv. Alþingi fyrr. Þm. Alþb. hafa á undanförnum árum einnig flutt hér á hv. Alþingi mál sem varða þetta málefni, m. a. frv. um breytingu á stjórnarskipunarlögum sem að sumu leyti fellur að því frv. sem hér er til umr. Þótt skemmra sé farið á ýmsan hátt með tillögum þm. Alþfl.

Gert var ráð fyrir að við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar bættist ákvæði um að eignir, sem enginn hefur sannanlega átt og séu þess eðlis að þær þurfi að nýtast af þjóðarheildinni, verði lýstar sameign þjóðarinnar með stjórnarskrárákvæðum. Tillagan fól í sér að öll verðmæti í sjó og á sjávarbotni innan efnahagslögsögu svo og almenningar, afréttir og önnur óbyggð lönd utan heimalanda teldust sameign þjóðarinnar allrar, einnig námur í jörðu, orka í rennandi vatni og jarðhiti neðan við 100 m dýpi. Þá var gert ráð fyrir að eignarrétti á íslenskum náttúruauðæfum, landi og landgrunni skyldi að öðru leyti skipað með lögum. Landsmönnum öllum yrði tryggður réttur til eðlilegrar umgengni og útivistar í landinu. Við eignarnám á landi, í þéttbýli sem dreifbýli, skyldi almennt ekki taka tillit til verðhækkunar sem stafar af uppbyggingu þéttbýlissvæða í næsta nágrenni, opinberum framkvæmdum eða öðrum ytri aðstæðum, heldur bæri að miða mat við verðmæti hliðstæðra eigna þar sem þess háttar ástæður hefðu óveruleg áhrif til verðhækkunar. Þá var og gert ráð fyrir, að með þeim takmörkunum, sem þar greindi, skyldi við það miða að bændur héldu eignarrétti á jörðum sínum, beitirétti í óbyggðum og öðrum þeim hlunnindum í heimalöndum og utan þeirra sem fylgt hafa íslenskum búskaparháttum á liðnum öldum. — Í þessum málum er stefna Alþb. óbreytt.

Í því frv., sem hér er til umr., er lagt til að Alþingi samþykki lög um land í þjóðareign. Flm. hafa fellt burt ýmis ákvæði sem minni líkur eru á að samstaða náist um, miðað við þeirra fyrri flokkstillögur. Ég tel ekki rétt að fara að metast á um hvort hér sé verið að falla frá fyrri hugmyndum eða ekki. Sjálfsagt er að kanna hvort sú meðferð þessa stóra máls, sem hér er lögð til, njóti stuðnings Alþingis. Ég vænti þess, að svo sé. Hér á ég við 1. gr. frv. 2.–5. gr. frv. eru um framkvæmd aðalefnis þess samkv. 1. gr. Þau atriði þarf að athuga vel í nefnd og má vera að þar sé breytinga og viðbóta þörf.