18.11.1981
Neðri deild: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

46. mál, land í þjóðareign

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég get ekki lofað þingheimi því að taka jafnjákvætt undir þetta frv. og þeir tveir þm. sem hér hafa talað á undan mér á eftir flm.

Þetta frv., sem hér er flutt, er gamall kunningi og hefur komið þráfaldlega til umr. á Alþingi, eins og rakið er í fskj. með því. Þegar svo oft er búið að flytja frv. er svo sem engin furða þó að það sé einhver ruglingur í upptalningunni. Ég sé að a. m. k. hefur fallið úr eitt ár sem þetta var flutt, árið 1971. Ég minnist greinilega að þá varð allmikil umr. um málið í Ed., sem ég átti þá sæti í.

Þær till., sem hér hafa verið fluttar á Alþingi áður, og frv. um þessi efni eru, eins og flm. kom inn á, allmiklu ítarlegri og taka yfir fleiri þætti þessa máls en það frv. sem hér er flutt. Mig minnir að flm. orðaði það eitthvað á þá leið, að það væri gert með vilja að taka út úr því þau atriði, sem helst væru líkleg til að valda ágreiningi, og að með því móti væri líklegra að frv. yrði samþykki. Þetta er að sjálfsögðu rétt. En ég vil að menn hugleiði um leið til hvers það leiðir ef svo fer, sem flm. lætur liggja að að hann vonist til, að frv. verði samþ. í þessu formi þó að till. um þetta efni hafi verið hafnað í fyrri útgáfu.

Það hefur verið sagt að það væri gott ráð, ef menn vildu koma máli sínu fram og hefðu rétt fram höndina til þess, að hverfa frá því að rétta höndina alla, en koma fingrinum að. Það mun vera mála sannast, að ef þetta frv. verður samþ. er það byrjun á miklu stærra máli og erfiðara fyrir þá sem eru á annarri skoðun um þjóðnýtingu landeigna en þeir sem þetta frv. flytja.

Það er sagt hér í grg., að í framkvæmd þýði þetta frv. ekki annað en að allar óbyggðir Íslands yrðu lýstar þjóðareign, þær sem ekki fyndust fyrir eignarheimildir annarra, og þar væri átt við allt hálendissvæðið, afrétti o. fl., og því fylgjandi að sjálfsögðu þá vatnsréttindi, jarðhitaréttindi og námuréttindi og önnur réttindi sem bundin eru við jarðeignir eins og venja hefur verið.

Ég ætla ekki að tala langt mál um þetta. Ég tel ekki þörf á því, þetta hefur verið rætt hvað eftir annað hér á Alþingi. Ég vil þó fara nokkrum orðum um greinarnar hverja fyrir sig.

Ef litið er til 1. gr. frv., að þau landssvæði skuli teljast þjóðareign, eins og ég gat um áðan, sem eignarheimildir einstaklinga eða annarra lögaðila finnast ekki fyrir, þá verð ég að telja að þessi grein og 5. gr., sem einnig tengist 1. gr. algjörlega, séu báðar óeðlilegar og óþarfar. Þær eru óþarfar vegna þess að það eru mörg mál enn óupplýst um það, hvernig eignarheimildum er háttað, og ég tel alrangt að hefja leikinn á því að lýsa því yfir að það, sem ekki finnast nú á stundinni eða á næstu tímum ákveðnar eignarheimildir fyrir, allt til 1995, skuli teljast þjóðareign. Mér kemur í hug að það væri ógaman ef það skyldi þurfa að endurtaka sig hvað eftir annað sá leikur sem var hafinn, ef ég man rétt, 1974 þegar ríkissjóður höfðaði mál gegn nokkrum hreppum í Rangárvallasýslu um afréttarlönd. Í því málastappi stóð í nokkur ár, þangað til það kom á daginn að málatilbúnaður ríkissjóðs var ekki í lagi og málið varð að falla niður. Enn hafa ekki fengist úrslit í því máli, að ég best veit.

Ég held að það væri miklu eðlilegri og viðkunnanlegri leið að ríkið þyrfti ekki að vera í málaferlum við sveitarfélögin, því að það er ég viss um, að það fylgir eftir ef þetta frv. verður samþykkt. Sveitarfélög, sem hafa um það nokkra hugmynd að þau eigi þennan rétt, láta hann ekki af hendi nema fá fullar bætur fyrir eða hafa varið eignarrétt sinn fyrir dómstólum.

Ég held að ég hafi tekið rétt eftir því, að hv. flm. sagði áðan að nauðsynlegt væri að fá þessi ákvæði lögfest því að það þyrfti að fást úr því skorið, hver ætti það sem enginn gæti sannað eignarrétt sinn á. Ég skil ekki meininguna í því, hvaða þýðingu það hefur ef enginn getur sannað eignarrétt sinn á landi eða einhverjum réttindum. Þá getur það ekki fallið til annars en ríkisins. Það hefur hvað eftir annað verið rætt um hver ætti afréttina t. d. og hálendið. Það hefur líklega verið um 1969 eða 1970 sem Páll Líndal, sem var formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, skrifaði um það í tímaritið Sveitarstjórnarmál hvernig þessum málum væri háttað. Þar segir hann m. a.:

„Það hefur verið könnuð töluvert eldri löggjöf um eignarrétt á almenningum. Hefur verið bent á, að samkv. bæði þjóðveldislögunum, þ. e. Grágás, og Jónsbók hafa almenningar verið taldir eign fjórðungsmanna, þ. e. bænda í hverjum landsfjórðungi. Er mjög vafasamt, hvort þessum fornu ákvæðum hefur nokkurn tíma verið breytt, en það þýðir, að landsfjórðungarnir, eða væntanlega sveitarfélögin í hverjum landsfjórðungi, eru sameigendur allra almenninga í hverjum landsfjórðungi fyrir sig.“

Þetta voru orð Páls Líndals.

Ég mun hafa getið þess í umr. sem varð um þetta málefni fyrr á Alþingi, að í raun og veru hefðu ýmis sveitarfélög á Suðurlandi fengið staðfestingu á því, að ríkið gerði ekki athugasemdir við það, að þau teldu sig hafa eignarheimild að afréttunum. Í því falli rakti ég samninga sem hreppsnefnd Gnúpverjahrepps gerði við sölu á vatnsréttindum í Þjórsá tvívegis. Það mun hafa verið 1914 sem Gnúpverjahreppur seldi Títan hf. ákveðin réttindi til virkjana og ákveðnar landspildur. Þá voru ákveðin atriði tekin undan og geymd sem réttindi sveitarfélagsins. Til frekara öryggis, þegar sá samningur var gerður, var samningurinn sýndur yfirdómaranum í Reykjavík og hann skrifar upp á samninginn: „Gert í samráði við mig. Eggert Briem.“ — Annar samningur var gerður af sömu hreppsnefnd 1916 við Einar Benediktsson og þá seld landspilda. Undan tekin voru viss réttindi, svo sem námaréttur, viðarhögg og e. t. v. fleira, sem ég man nú ekki, en á sama hátt var þessi samningur sýndur yfirdómaranum í Reykjavik og á hann ritað: „Samningur þessi er gerður í samráði við undirritaðan eftir ósk hreppsnefndarinnar. — Reykjavík, 3. okt. 1916. — Eggert Briem, yfirdómari“.

Það fer því ekki á milli mála, að hið opinbera eða ríkisvaldið leit svo á, að þessar sölur væru heimilar sveitarsjóðunum. Þær voru heimilar fyrir það, að litið er svo á að þetta sé eign sveitarfélaganna. Ég vil undirstrika það, sem sagt er í þeim orðum sem ég vitnaði í eftir Pál Líndal, að það er ekki vitað að þeim ákvæðum hafi verið breytt sem í Grágás og Jónsbók er getið um. Það má einnig geta um það, að í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er tekið fram að einstakar jarðir eigi hluta í ákveðnum afréttum.

Þá ætla ég að fara nokkrum orðum um 2. gr. frv. sem hér liggur fyrir. Þar er gert ráð fyrir að fjmrn. annist framkvæmd laga þessara, hafi umsjón og eftirlit með eignunum. Það er ekki nema eðlilegt, ef um eignir er að ræða, sem er vissulega til í sumu falli. Þá er sagt að þar skuli semja skrár yfir fasteignir og réttindi. Þess skal getið hvernig nýtingu er háttað hverju sinni, hverjir nýta og hvaða leigugjöld eru greidd. Skrána á að birta reglulega.

Skoðum þessa grein í ljósi þeirrar næstu, 3. gr. Hún hefst á því, að sagt er að óheimilt sé að leigja einstaklingum eða lögaðilum landssvæði, landsréttindi eða hlunnindi, sem talin eru í 1. gr., þannig að réttur almennings til umferðar og afnota glatist eða verði háður gjaldtöku. Ef horfið er að því ráði að lýsa landssvæði eins og afréttina þjóðareign verður að koma til einhvers konar samningur milli þeirra, sem not hafa haft af þeim, til þess að þau geti haldist áfram. Það er ekki víst að það komi til þess, að um neinar leigur verði að ræða sem goldnar væru fyrir beitarréttindi og því um líkt, því að það mun mála sannast að það er ærinn kostnaður sem leggst í það að nýta þessi réttindi, eins og smölun og slíkt, og ég hygg að ef ríkissjóður ætti að sjá um þá eign sína, að hreinsa hana á haustin, ef ekki eru leigð not af landinu með öðrum hætti til annarra aðila sem sæju um þetta, þá fyndist til þess að þetta kostaði peninga. Þó er ein undantekning frá þessu. Það er heimilt að leigja þessi lönd öðrum og jafnvel taka fyrir greiðslu, skilst mér, ef um er að ræða skipulögð orlofsbúða- eða útivistarsvæði fyrir almenning. Mér dettur nú i hug: Hvað er almenningur í þessu efni? Við skulum segja að það mundu einhverjir menn, kannske margir menn, 20–30 menn, mynda með sér félag og óska eftir að fá landssvæði fyrir skipulagt orlofsbúðasvæði. Er það almenningur sem þannig hefur rétt til þess arna eða er það ekki almenningur líka ef starfsmenn einhverrar ákveðinnar stofnunar komast í þetta færi að fá ákveðin svæði til umráða hjá ríkissjóði? Þetta er óljóst orðað og þarf að taka verulega til athugunar. Ég tel þetta svo óglöggt að það verði ekki við unað eins og það er sett fram hér.

Í 4. gr., er gert ráð fyrir að setja í samráði við ákveðna aðila almennar reglur um nýtingu þeirra hlunninda landa og landgæða sem teljast þjóðareign og í þeim reglum eigi að vera ákvæði um ítölu og varnir gegn ofbeit og rányrkju, umgengnisrétt almennings og annað það sem lýtur að afnotum lands og landgæða í gróðurvernd. Þessi grein er að mínu mati algerlega óþörf. Í fyrsta lagi eru ákvæði um þetta sérstaklega í náttúruverndarlögunum, og í jarðalögunum eru einnig lagaákvæði sem ganga í sömu átt. Í lögunum um ítölu eru ákvæði, sem er fyllilega auðvelt að beita, ef þess þykir vera þörf, um varnir gegn ofbeit og rányrkju. Nýlega hafa verið felld inn í lög um landgræðslu ríkisins þau ákvæði sem mjög hafa aukið rétt landgræðslustjóra til að hafa afskipti af þessum málum. Vildi ég halda að þessi atriði, sem ég hef sagt hér frá, væru nægilega glögg og skýr til þess að ekki þyrfti á þessari lagasetningu að halda eða því sem í þessari lagagrein felst.

Hitt er annað mál, að ég á von á að ef hið opinbera setur reglur um umgengnisrétt almennings og annað það sem lýtur að afnotum landsins, sem er í þjóðareign, muni fljótt koma í ljós að þar verður um fleiri boð og bönn að ræða en er yfirleitt í þeim löndum sem eru í einkaeign. Það er ég alveg viss um, að þá getur komið til greina að eltir verði uppi veiðimenn með byssur og rjúpnakippur sem víðast hvar fá að ganga frjálsir um í einkaeignarlöndum.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa miklu fleiri orð um þetta frv. að sinni. Ég vil þó, áður en ég lýk máli mínu, vekja athygli á því, að frv. þetta gerir ráð fyrir að landið sé þjóðnýtt, ekki allt að vísu, en góð byrjun þó, er horft er til fyrri tillagna Alþfl.-manna og yfirlýstra áforma þeirra. Þessi stefna er röng, að mínu mati og varhugaverð í þessu falli. Ég ætla að hag þess almennings í landinu, sem vitnað er til í frv., sé síður borgið á eignarlöndum ríkisins en nú er í löndum bænda og sveitarfélaga. Ef dæma má eftir fenginni reynslu um slík landssvæði má vænta miklu frekari fyrirmæla um umferð, boð og bönn eftir að sú breyting yrði á sem hér er stefnt að að koma á.

Eins og ég sagði áðan ætla ég að jafnvel rjúpnaveiðibann verði miklu harðara í höndum ríkisvaldsins en í höndum bænda eins og þeir hafa beitt því. En það vil ég að öllum sé ljóst, að það má ekki koma mönnum á óvart þó að gripið sé fram fyrir hendur þeirra sem bera með sér skotvopn, svo margir sem það eru sem fara óvarlega með þá hluti. Ég veit af allt of mörgum dæmum um að gripir hafa borið það með sér, þegar þeim hefur verið fargað, að einhverjir þeir, sem haft hafa byssur milli handa, hafa ekki miðað á réttan fugl þegar þeir tóku í gikkinn.

Þetta frv. er að mínu mati óþarft og ég er andvígur því í því formi sem það er og ég er andvígur því að hefja sókn að því að þjóðnýta land á Íslandi.