19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

321. mál, húsnæðismál

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður hjó í sömu orð og ég ætlaði einmitt að gera í ræðu hæstv. menntmrh. Ég furða mig satt að segja á því, að hæstv. ráðh. skuli leyfa sér hér að tala um „videóæði“ þegar um er að ræða afskaplega eðlilega þróun hér á landi eins og annars staðar af hendi þeirra sem neyta. Hins vegar hefur ekki átt sér stað eðlileg þróun hjá stjórnvöldum, langt frá því. En hvað vídeóæði viðkemur væri alveg eins hægt að segja að ef einn ráðh. tæki sér aðstoðarráðh. og síðan hver af öðrum og allir fengju sér aðstoðarráðh. væri komið upp eitthvað sem heitir ráðherraæði. Ég fæ ekki skilið hvernig það fær staðist. (SvH: Jú, það fær staðist.) Ja, það fær staðist hjá núv. hæstv. ríkisstj. Það er rétt, hv. þm. Sverrir Hermannsson.

Ráðh, sagði að það væru ýmis dæmi um lögbrot. Ég verð satt að segja að lýsa undrun minni yfir því, að hæstv. ráðh. skuli segja frá þessu hér í ræðustól — og þó kannske ekki þegar vitað er að tveir aðrir hæstv. ráðh. hafa lýst yfir hér áður í sambandi við önnur mál að þeim sé kunnugt um lögbrot. Hér situr hæstv. dómsmrh. og hlustar á menntmrh. segja: Ja, það er kunnugt um ýmis lögbrot. — Því í ósköpunum stendur maðurinn ekki upp og gerir eitthvað í málinu? Má ég spyrja hæstv. menntmrh. varðandi þessi lögbrot: Hvernig kemur Kvikmyndaeftirlitið inn í þá mynd? Má ég einnig spyrja hæstv. menntmrh.? Hversu miklar eru söluskattstekjur sem hafa komið inn í ríkissjóð af myndbandaleigum á síðustu misserum? Kannske væri hægt að fá með þessum svörum nokkra hugmynd um hve víðfeðm sú ólöglega starfsemi er sem á sér stað í þessum efnum hér á landi. En það er eins og þessi hæstv. ríkisstj. fljóti sofandi í einu og öllu öðru en því að ganga að launum og kjörum alls almennings.