19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

321. mál, húsnæðismál

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Satt að segja furða ég mig mjög á þeim umr., sem hér hafa orðið, og átta mig ekki fyllilega á því, hvernig þetta hleypur í skapið á hv. þm. sem hér hafa tekið til máls. Sannleikurinn er sá, að ég gerði afskaplega hógværa grein fyrir máli mínu og því, sem að var spurt, og lýsti ýmsum vandkvæðum sem eru m. a. á því að fara að taka á þessu sem lögbroti og standa í því að hringja í lögregluna út af hverju einu í sambandi við þessi mál. Ég bið hv. þm. að athuga að það er allt annað að ætla sér að halda lög, sem auðvitað allir vilja gera, en að að setjast í dómarasæti. Þetta bið ég menn að athuga.

Það er alger misskilningur, að ég hafi eitthvert vald sem menntmrh. til að standa í þessum skærumálum, þ. e. kveða upp algilda dóma um að þarna sé um lögbrot að ræða. (StJ: Það bað enginn um það.) Vissulega stendur í útvarpslögum að Ríkisútvarpið hafi einkarétt til útvarps. En hvenær hefur fallið dómur í því máli hvað útvarp merkir? (Gripið fram í: Það er skilgreint.) Mér vitanlega hefur það ekki verið gert. Það er skilgreint að nokkru leyti, það er hverju orði sannara, en sú skilgreining er engan veginn þannig að ég ætli að fara að setja mig í eitthvert dómarasæti sem ráðh. í því máli.

Hitt er satt, sem hér hefur komið fram, og menn eru að reyna að gera meira úr þeim orðum en sagt var, að ég hafi sagt að vissulega væru ýmiss konar lögbrot framin í sambandi við þetta vídeóæði, sem ég leyfi mér að kalla svo. — Það finnst sumum hv. þm., a. m. k. hv. 9. þm. Reykv., einhver hroki þó að ég nefni fyrirbæri,sem snýr þannig við mér, því nafni sem mér finnst við eiga. Ég kalla það engan hroka. Sannleikurinn er sá, að þetta hefur verið hálfgert æði allt saman. Það er hverju orði sannara, sem hér hefur líka komið fram og ég held hjá hv. fyrirspyrjanda, að þróunin á þessum málum hefur verið með þó nokkuð öðrum hætti hér á landi en í ýmsum öðrum löndum. Þar hefur þetta nefnilega ekki gengið yfir sem æði, en svo er alveg greinilega í þessu tilfelli okkar. Hvernig á að bregðast við faraldri og einhvers konar æði af þessu tagi, þegar hver apar eftir öðrum að það þurfi endilega að koma upp hverfisstöðvum hér og þar? Auðvitað er þetta ekkert annað en faraldur og æði líkt eins og dansæði sem stundum grípur um sig og hefur gripið um sig í allri mannkynssögunni og er alþekkt. Hvaða svör hafa menn við því? Menn láta fólkið bara dansa út. Það er engin önnur leið til.

Hvernig eigum við að koma reglu á þetta? Vissulega er það í mínum verkahring sem menntmrh. að koma reglu á þetta. En hver getur haft á móti því, að nefnd fjalli um þetta mál eins og fleiri slík mál sem vandasöm eru og sérstaklega flókin? Þetta er sú algilda venja sem við höfum í okkar stjórnkerfi. Þetta er sú algilda venja sem viðurkennd er á Alþingi. Oft er skorað á ríkisstj. að set ja nefndir í mál sem þarf að undirbúa vel. Það er nákvæmlega það sem ég hef verið að gera. Ég hef sett nefnd til að endurskoða útvarpslög sem nú eru orðin 10 ára gömul. Mikil breyting hefur orðið á þessum tíma frá því að útvarpslög voru sett. Ég vil taka það fram að útvarpslögin eru að mörgu leyti ágætislög og voru vel undirbúin þegar þau voru sett, en tími hefur samt liðið síðan og full ástæða til að endurskoða lögin í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa síðan 1971. Sama er að segja hvað snertir þessa nýju tækni eða myndbandatæknina. Ég finn ekki að það sé nokkur munur á skoðunum mínum og þeirra sem hér hafa talað um að þarna er um að ræða nýja tækni sem sjálfsagt er að taka í notkun. (Gripið fram í: Þú kallaðir það „barbarisma“.) Sjálfsagt er að nýta hana á eðlilegan og skynsamlegan hátt. — Það, sem ég kallaði „barbarisma“, var sá háttur, sem menn hafa tekið upp hér á landi, að taka bókstaflega allt að því lögin í sínar hendur, gera málið að faraldri sem gengur yfir. (Gripið fram í.) Ég hef að vísu aldrei séð efni á vídeóskjá, ég hef ekkert séð af þessu, en eftir því sem mér skilst er efnið af því tagi að vel má kalla það „barbarisma“. Ég held að menn hafi fulla heimild til að kalla hlutina þeim nöfnum sem þeim finnst við eiga. Ég áskil mér allan rétt til þess.

En kjarni málsins er sá, að það verður að setja framtíðarreglur um þessi mál og ætli við séum ekki öll sammála um það hér í þessum þingsal. Ég hef skýrt frá því, að ætlun mín er að bíða þess, að myndbandanefndin gefi sína skýrslu og leggi á ráðin um hvernig best verði að haga reglum í sambandi við þetta mál. Ég held því, að menn verði að bíða þess arna, og ég bendi á, að hér er fyllilega eðlilega að verki staðið af minni hálfu.