19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

321. mál, húsnæðismál

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Menn tala um brot á lögum og það er sjálfsagt að ræða það. Ég gerði svolitla grein fyrir því í frumræðu minni, hvað mér fyndist um þetta. Ég held að það hafi komið nokkuð skýrt fram hjá mér, að ég hef hugleitt hvort rétt væri af mér að fara nú að hvetja útvarpið til að standa í kærumálum út af þessu. Niðurstaðan hjá mér varð að gera það ekki. Ég get sagt það hér, að ég hef ekki aðeins ráðgast við eigin samvisku í þessu efni, heldur rætt við ýmsa klóka lögfræðinga og slíka menn um þessi efni og þannig komist að þessari niðurstöðu. En ég segi það af einlægni, eins og ég sagði áðan í frumræðu minni, að ég legg engar hömlur á forráðamenn útvarpsins að kæra þetta ef þeim finnst þarna vera um þess háttar lögbrot að ræða sem ógni Ríkisútvarpinu. Ég held nefnilega að svo sé ekki. Þetta ógnar ekki útvarpinu sem stofnun. Hins vegar hygg ég að svo gæti orðið með tímanum, að ýmislegir fjárhagslegir hagsmunir útvarpsins væru þarna í veði. Ef þessar útvarpsstöðvar yrðu reknar sem eins konar auglýsingastöðvar og þannig gróðastöðvar hygg ég að fyrst sé farið að ógna hagsmunum Ríkisútvarpsins. Sannleikurinn er sá, að þessar stöðvar eru ekki svo merkilegar og útvarpið og sjónvarpið ekki svo ómerkilegar stofnanir að þarna sé um verulega hættu að ræða út frá sjónarmiði Ríkisútvarpsins. Þetta er alveg á misskilningi byggt.

Hvað varðar brot á höfundarétti heyra auðvitað höfundaréttarmál undir mitt embætti. Hins vegar er það nú svo, að höfundaréttarhafar eiga sjálfir sókn í sínum málum. Menntmrh. er enginn sækjandi í einkaréttarmálum, alls ekki. Og hvað kvikmyndaeftirlitið snertir er það dálítið vandamál hvernig með skuli fara. Ég hygg að það sé alveg augljóst mál, að mjög væri æskilegt, þegar við setjum framtíðarreglur um þetta, um myndböndin, að kvikmyndaeftirlitið verði látið ná til þess arna. En sannleikurinn er sá, að það verður ekki séð af lögum að kvikmyndaeftirlitið, eins og það er sett upp, nái til þessa þáttar. Kvikmyndaeftirlitið hefur nefnilega þann þrönga verkahring að skoða fyrst og fremst kvikmyndir í kvikmyndahúsum. Þetta er svona.

Menn verða að átta sig á því, að þetta mál er afskaplega flókið frá lögfræðilegu sjónarmiði fyrst og fremst, en líka frá þjóðfélagslegu sjónarmiði. Þess vegna held ég að sé best að taka þessu öllu með ró og leyfa t. d. myndbandanefndinni, þar sem sitja 10 menn, með einum af okkar ágætu lagaprófessorum í forsæti, að fjalla enn um stund um þessi mál og bíða þess, að hún gefi þá skýrslu sem hún hefur heitið mér að geti orðið innan tiltölulega stutts tíma. Það er að vísu svo, að nefndarmenn hafa talað um að það yrði bráðabirgða- eða áfangaskýrsla, en ég vona hins vegar að skýrslan verði um þau mál, sem fyrst og fremst eru efst á baugi, eru „aktuel“, eins og maður segir á vondu máli. Ég held að það sé engu spillt og menning þjóðarinnar bíði engan stórhnekki þó við bíðum 10 daga eða 12 eða 14, þó þeir yrðu yfir 20, eftir því að nefnd Gauks Jörundssonar fái að segja sitt álit. Ég held að Ríkisútvarpinu sé ekki ógnað þótt við bíðum niðurstöðu þessarar nefndar. Ef svo er stendur Ríkisútvarpið svo völtum fótum að ég sé ekki annað en það geti beinlínis rúllað hvenær sem er.

Kjarni málsins er þessi: Ég tel að það beri að mæta þessari nýju tækni með skynsamlegum reglum. Þær reglur verður að setja eftir samráð góðra manna og sérfræðinga á ýmsum sviðum, lögfræðisviði og tæknisviði ýmiss konar. Ég held því að ég eigi ekki annars úrkosta en að bíða þess að heyra frá nefnd sem ég hef sett í þessu máli. Ég er alveg sannfærður um að þeir, sem hafa verið að gagnrýna orð mín hér og gerðir núna, muni komast að þessari sömu niðurstöðu þegar þeir hugsa sitt ráð. Þetta er sú skynsamlega leið.

Það má náttúrulega lengi deila um hvort brugðist er nógu fljótt við, og það getur vel verið að ég hafi brugðist of seint við. En eigi að síður hefur þessi nefnd nú starfað nokkuð og mun skila áliti mjög fljótt. Við skulum vona að það, sem hún hefur að segja um þetta, verði okkur leiðbeining um framtíðarreglur um notkun þessarar nýju tækni, sem er í alla staði ágæt sem tækni og áreiðanlega hægt að nota til margra þarfra hluta.