19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

321. mál, húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Mér finnst það svolítið hlálegt þegar menn koma hér og draga í efa að hér sé um lögbrot að ræða. Ég held að það hafi afar rækilega komið hér fram, að hér er ekki aðeins um að ræða brot á einum lögum. heldur tvennum. þrennum. fernum eða jafnvel fleiri lögum. Það hefur verið minnst hér á kvikmyndaeftirlit. Lögum samkvæmt á kvikmyndaeftirlit að skoða allar kvikmyndir. Lögum samkvæmt annast sjónvarpið eigið kvikmyndaeftirlit. Það er sérstaklega tekið fram í útvarpslögum. Það hefur enginn aðili eftirlit með því efni sem þúsundir manna sjá í þessum lokuðu sjónvarpskerfum hér í Reykjavík.

Hæstv. menntmrh. talar um að þetta sé ekki einfalt mál, ítrekar það hér hvað eftir annað. Það er sjálfsagt alveg rétt. En finnst mönnum það viðkunnanlegt ástand, að sjálfskipaðir sjónvarpsstjórar og útvarpsstjórar velji með einhverjum sjónarmiðum efni til handa almenningi án þess að fólk hafi nokkra möguleika til að hafa áhrif á það efni sem þar er sýnt? Auðvitað ógnar þetta ekki Ríkisútvarpinn, sagði hæstv. menntmrh. Ég er á öndverðri skoðun. Þetta ógnar Ríkisútvarpinu með nokkrum hætti. Það er afar stutt í það og um það talað, að tilkynningar og auglýsingar séu birtar í þessum kerfum. Hvernig er með skattheimtu af slíku, söluskatt af slíku og annað?

Ég held að að menn ættu verulega að leiða hugann að alvöru þessa máls. Þó að menntmrh. leyfi sér að segja að þetta sé afar skoplegt í aðra röndina get ég ekki tekið undir það.

Það er ýmislegt fleira í þessu sambandi, en ég vil ítreka þau tilmæli mín til hæstv. menntmrh. að hann óski þess við nefndina, sem er að endurskoða útvarpslögin og í eiga sæti fulltrúar allra þingflokka, að sú nefnd taki þennan þátt vandamálsins til sérstakrar athugunar og afgreiðslu og geri tillögur um lagabreytingar hið allra fyrsta.