19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

321. mál, húsnæðismál

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins undirstrika þetta: Það hefur enginn hv. þm., sem hér hefur tekið til máls, gert þá kröfu til hæstv. menntmrh., að hann kveði upp dóma í þessu máli á einn eða annan hátt. Hæstv. menntmrh. hefur lýst yfir þeirri skoðun sinni, að hér séu framin lögbrot. Hann hefur jafnframt lýst yfir því, að hann beini ekki þeim tilmælum til stjórnenda Ríkisútvarpsins sem sjálfstæðrar stofnunar, að þeir kæri lögbrotin. (Menntmrh.: Að sinni, sagði ég.) Að sinni, gort og vel. Ég stóð einhvern veginn í þeirri trú, að það væri hlutverk ráðh., aðila framkvæmdavaldsins, að sjá um framkvæmd laganna, gera ráðstafanir ef lög séu brotin, og þó að hæstv. dómsmrh. lýsi yfir því, að eftir því sem hann best viti hafi ekki einn einasti aðili kært þau lögbrot sem hér eru framin, þótt hæstv. dómsmrh. lýsi yfir því hér í þingsölum, staðhæfi ég að mér hefur ekki heyrst betur en hér hafi komið þm. eftir þm. og kært þessi lögbrot í eyru dómsmrh. Ef hann ætlar að skjóta sér á bak við að hann geti ekki sagt saksóknara fyrir verkum kynni hann einhvers staðar í fórum rn. að finna leyfi til að stemma stigu við lögbrotum, því hér eru framin lögbrot, mjög alvarleg lögbrot, og það kemur til kasta ráðh. að sjá til þess að réttir aðilar stemmi stigu við þeim.

Ef á að bíða eftir því, að lögbrot helgist með hefð, með því að heimila það vitandi vits og með yfirlýsingu af því tagi, sem ráðh. hafa flutt hér, að lögbrot fái á sig rétt hefðar, vil ég aðeins minna á með hvaða hætti lögum er breytt vegna kröfu þúsunda og aftur þúsunda, segir hæstv. þm. Vilmundur Gylfason, sem talar mest um sæmd Alþingis. (Gripið fram i: Hv. þm.) Hann er það líklega, já. — Við höfum mörg dæmi um þetta. Ég vil minna hæstv. menntmrh. á það, vegna þess að atburðurinn gerðist í hans eigin kjördæmi og kjördæmi okkar beggja, að þegar kaupendum síldar á Hjalteyri hafði verið látið haldast uppi í þrjú ár að svíkja síldarmálið forna, sem var hektólítri, var lögunum breytt á þá lund, að það skyldu vera 136 lítrar í íslenskum hektólítra framvegis. Það er ekki með þessum hætti, hv. þm. Vilmundur Gylfason, sem lög eru sett.