19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

321. mál, húsnæðismál

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég verð að segja að ekki skána nú ræðuhöldin eftir að 4. þm. Austurl. tók til máls áðan. Varla var hægt að segja að bitastætt væri í ræðu hans sem annars eru oft skemmtilegar og ágætar, sérstaklega skemmtilegar. En satt að segja sá ég hann fyrir mér í alveg nýju ljósi og reyndar suma aðra, eins og tvo ágæta félaga mína úr Norðurlandskjördæmi eystra. Alla þessa menn hef ég þekkt að því að vera fremur mannúðarlega í hugsun og síst af öllu refsiglaða. Ef það er nú talið til ágætis mönnum hér í þinginu að vera refsiglaðir fram úr hófi líst mér ekki orðið á það. Ég held nefnilega að menn verði að gæta sín svolítið í þessu.

Vissulega hefur það komið fram í ræðum mínum, að telja megi víst að einhver lög hafi verið brotin í sambandi við þetta vídeómál í Reykjavík og kannske víðar. Það er alveg ljóst, en vandinn er að bregðast rétt við þessu. Ég hef talið að höfuðatriðið sé að bregðast við þessu á þann hátt, að við getum sett okkur skynsamlegar frambúðarreglur um þetta. Ég held nefnilega að menn geri allt of mikið úr því að þessi lögbrot, þó einhver kunni að hafa verið, séu svo voðaleg að einhverjum óbætanlegum almannahagsmunum sé ógnað, eins og t. d. þegar menn eru að bera þetta saman við það þegar brennuvargur gengur laus eða menn eru að bera það saman, hvort slík lög kunna að verða brotin eða hvort maður leggur bíl sínum rangt á bílastæði. Allur slíkur samanburður er auðvitað út í loftið. Það verður að meta hvert sérstakt atriði fyrir sig og vera ekki að bera það saman við eitthvað annað eða taka dæmi af öðru.

Ég held að þegar upp er staðið séum við öll sammála í meginatriðum um þetta mál, að það þurfi að setja reglur um notkun og nýtingu þessarar nýju myndbandatækni. Það er einmitt það sem verið er að vinna að. Ég held að það séu mjög eðlileg vinnubrögð að það sé sett nefnd, sem í sitja ýmsir sérfræðingar, og hún njóti forustu góðs lögfræðings, eins og í þessu tilfelli er, þar sem er prófessor Gaukur Jörundsson. Ég hygg að það sé einmitt þess háttar nefnd sem á að fjalla um þetta. Hún er að störfum nú og mun fljótlega skila áliti.— Þetta er flókið mál, við skulum viðurkenna það, og hafi verið framin lögbrot er það auðvitað slæmt. En ég segi það enn og aftur: Ég hef ekki trú á allri þeirri refsigleði sem hér hefur komið fram í orðum annars mannúðarfullra alþm.