19.11.1981
Sameinað þing: 23. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

56. mál, stefnumörkun í fjölskyldumálum

Flm. (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Á þskj. 59 flyt ég ásamt hv. 1. þm. Vesturl., Alexander Stefánssyni, og hv. þm. Níels Á. Lund svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að skipa nefnd til þess að undirbúa löggjöf um samræmda stefnu í málum er varða eflingu og vernd fjölskyldunnar með tilliti til mikilvægis hennar í þjóðfélaginu og til þess að gera henni kleift að sinna vel uppeldis- og umönnunarhlutverkum sínum.

Þessi till. var flutt í örlítið öðru formi á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Er mér kunnugt um að allshn., er fékk till. til meðferðar, sendi hana nokkrum aðilum til umsagnar, m. a. Jafnréttisráði, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Kvenréttindafélagi Íslands og Félagi einstæðra foreldra. Í umsögnum þessara aðila kom fram jákvæð afstaða til till., og þessi mál hafa einnig komið til umræðu hjá stjórnmálaflokkunum. Virðist mér skilningur á mikilvægi þeirra fara vaxandi. Till. er nú flutt á ný í þeirri von að hið háa Alþingi samþykki hana nú í vetur.

Þær miklu þjóðfélagsbreytingar, sem átt hafa sér stað á Íslandi á þessari öld, hafa gerbreytt hlutverkum ýmissa þjóðfélagsstofnana og skapað nýjar. Iðnaður og framleiðsla hafa í ríkum mæli færst út af heimilunum og æ meira er keypt að af varningi og þjónustu. Mikilvægir þættir menntunar fara fram utan heimilanna, öfugt við það sem áður var, er menn öðluðust menntun og verkþekkingu á heimilinu eða í sínu nánasta umhverfi.

Sú þjóðfélagsstofnun, sem útbreiddust er og líklega hin elsta í mannlegu samfélagi, er fjölskyldan. Hérlendis var hún í senn framleiðslueining, uppeldisstofnun og tryggingastofnun hvers og eins. Iðnaður, matvælaframleiðsla og uppeldi fór fram í skauti fjölskyldunnar á heimilum sem voru sér næg um flest það sem við þurfti í fátæku landi. Þrátt fyrir þær miklu breytingar, sem orðið hafa, er þó margt enn í höndum fjölskyldunnar. Ýmislegt, er áður var einkamál heimilisins og fjölskyldunnar, er nú í verkahring opinberra aðila. Innan fjölskyldunnar mótast börn og unglingar og þar fer fram afdrifaríkasti hluti uppeldis þeirra, sá hluti sem mestu skiptir að vel takist til um. Samskipti manna og hæfileikinn til samstarfs við aðra mótast af heimilunum og í tengslum við eldri og yngri er menn alast upp með. Framtíðarheill hvers og eins er að verulegu leyti undir því komin, hvaða veganesti hann fær á bernskuheimili sínu. Þar geta skólar og uppeldisstofnanir lagað til það sem mjög hefur farið úrskeiðis, en geta ekki gert að engu illan arf frá sundruðum og óhamingjusömum fjölskyldum.

Með till. þeirri, sem hér er flutt, er áhersla lögð á að stuðlað verði að því, að fjölskyldan verði efld og vernduð. Það, sem við er átt, er að fjölskyldan verði áfram mikilvægur kjarni þjóðfélagsins og henni gert fært að sinna hlutverkum sínum eins vel og kostur er.

Mikilvægur þáttur allra fjölskyldumála er að stuðla að jafnri aðstöðu allra án tillits til kynferðis, stöðu, efnahags eða búsetu. Það hefur ekki farið fram hjá neinum, eins og áður sagði, að meðal þjóðarinnar er vaknaður áhugi á fjölskyldumálum og mikilvægi þess, að fjölskyldan geti sinnt sínum hlutverkum. Flm. telja að nauðsynlegt sé að samræma hin ýmsu sjónarmið flokka og hópa um fjölskyldumál með því að kanna m. a. hvaða lagaákvæði hugsanlega stuðla fremur að upplausn fjölskyldunnar en samheldni hennar eða geri henni erfitt fyrir að sinna hlutverkum sínum.

Leggja þarf drög að heildaráætlun að löggjöf um fjölskyldumál. Starf nefndar þeirrar, er lagt er til að sett verði á laggirnar, verður fyrst og fremst að kanna hvað neikvætt er í ríkjandi lögum að því er snertir fjölskylduna, en jafnframt að benda á úrræði til að gera hana sterkari og hæfari í starfi sínu. Margt þarf að athuga í þessu sambandi. Kanna verður tryggingamál, framfærsluskyldu, dagvistunartíma, skólatíma, sifjalöggjöf, atvinnumál og vinnu.

Spyrja verður hvort eitthvað sé í tryggingalöggjöfinni sem veldur því, að einhverjum aðilum er hagur í því að leysa upp fjölskylduna. Er heppilegt að nema úr gildi ákvæði um gagnkvæma framfærsluskyldu barna og foreldra? Á að leggja alla áherslu á að fjölga dagvistunarstofnunum eða á að gera foreldri eða foreldrum fært að annast börn sín heima? Á hvern hátt spillir sundurslitinn skólatími hagkvæmu heimilishaldi og fjölskyldulífi? Er ekki kominn tími til að ræða í alvöru um nauðsynina á skólamáltíðum? Þarf ekki að athuga hver áhrif langur skólatími hefur á börn og aðstandendur þeirra? Og ber ekki að leggja áherslu á að börn og unglingar geti sótt sem flestar tegundir skóla á skyldunámsstigi í grennd við heimili sín? Getur sveigjanlegur vinnutími auðveldað fjölskyldulífið? Á hvern hátt stuðla skattalög að hnignun eða viðgangi fjölskyldunnar? Og síðast en ekki síst, ber ekki að taka upp þá meginstefnu í launamálum, að einföld dagvinna nægi til framfærslu meðalfjölskyldu?

Þetta eru nokkur af þeim fjölmörgu atriðum sem kanna verður.

Jafnframt því að fjölskyldan er efld opnast möguleikar á að færa margt af því, sem er falið stofnunum af ýmsu tagi, aftur til fjölskyldunnar. Margar velferðarstofnanir — eða réttara sagt stofnanir sem sjálfsagðar þykja í velferðarríki — eru næsta þarfar og hafa unnið ómetanlegt gagn. En því má ekki gleyma, að þær eru fyrst og fremst hjálparstofnanir sem eiga að taka við þegar önnur úrræði þrýtur. Þróunin hefur hins vegar orðið sú, að þær taka að sér æ meira af verkefnum fjölskyldunnar. Draga verður í efa að slíkt uppeldi á stofnunum sé að öllu leyti hollt fyrir þjóðfélagið og þegna þess. Það er brýnt verkefni að stuðla að því, að heimilum verði gert kleift að annast ýmsa þætti umönnunar sem nú fer fram að mestu á stofnunum eða hælum.

Sem dæmi skal nefnt að taka verður til rækilegrar athugunar á hvern hátt öldruðum verður gert fært að dveljast á eigin heimili eða í umsjá aðstandenda sinna. Til þess þarf m. a. að efla heimilisaðstoð og heimahjúkrun, lækka þarf eignarskatt á öldruðu fólki og gefa því kost á að kaupa íbúðir sem hannaðar eru með þarfir aldraðra í huga. Margar þeirra, er nú dvelja í stórum íbúðum eða einbýlishúsum, mundu fúslega skipta á þeim og íbúðum sem betur henta og þar sem þeir geta fengið nauðsynlega aðstoð. Einnig ber að taka til athugunar hvort ekki er hægt að veita einhverjar ívilnanir þeim sem hafa aldraða ættingja sína á heimilinu.

Gera verður foreldrum og uppalendum kleift að vera eins mikið með börnum sínum og unnt er. Til þess að svo geti orðið þarf mjög viða að endurskoða vinnutíma og vinnuálag. Enn skal minnt á nauðsyn þess að gera skólabörnum mögulegt að fá máltíðir í skólum. Slíkt er brýn nauðsyn. Aðstaða til frístundastarfs og íþrótta er mikilvægt atriði í þessu sambandi.

Varla ætti að þurfa að minna á hvað starf að bindindismálum er gífurlega mikilvægt fyrir þjóðfélagið allt. Áfengi er e. t. v. það sem veldur börnum þessa lands hvað mestu böli. Óhófleg áfengisneysla leggur fleiri heimili í rúst en allt annað samanlagt. Skólinn, kirkjan og félög verða að sameinast í baráttunni við áfengisbölið.

Þetta eru nokkur atriði sem athuga verður þegar stefna í fjölskyldumálum er mörkuð.

Megintilgangur með flutningi þessarar till. er að ýta undir umr. um þessi mál, hvetja til aðgerða til verndar og eflingar fjölskyldunni. Allar hamingjusamar fjölskyldur eru eins, en óhamingjusamar fjölskyldur eru það hver á sinn hátt, sagði Tolstoj. Um hamingjusamar fjölskyldur er ekki margt að segja, þær sjá yfirleitt um sig sjálfar. Það eru óhamingjusömu fjölskyldurnar sem huga þarf að og finna leiðir til að koma í veg fyrir að þær verði til. Uppeldi barna og unglinga leggur grunninn að lífshamingju þeirra. Góð uppeldisskilyrði skapa hamingjusama einstaklinga. Það hlýtur að vera eitt mikilvægasta hlutverk löggjafans að stuðla að góðu mannlífi í landinu. Tryggja verður efnahagslegt og félagslegt öryggi foreldra og annarra uppalenda, en jafnframt að gera fólki ljósa þá ábyrgð sem því fylgir að ala upp börn.

Herra forseti. Á hverju þingi eru flutt ýmis mál er til umbóta og framfara horfa. Mörg þeirra snerta með einum eða öðrum hætti þau mál sem hér er fitjað upp á. Ég tel að þó skorti enn nokkuð á að litið sé í samhengi á þessi mál og það haft í huga, að tilgangurinn með löggjafarstarfinu á að vera að stuðla að betra mannlífi, fegurra og fjörugra þjóðlífi, og byggt á þeirri skoðun, að slíkt verði aðeins gert með því að auka möguleika hvers og eins til að nýta hæfileika sína. Það er á heimilunum sem grunnurinn er lagður, það er fjölskyldan sem mótar einstaklinginn og þess vegna ber að efla hana og gera henni fært að annast það hlutverk sitt.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að málinu verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umr.