19.10.1981
Efri deild: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

19. mál, söluskattur

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 19 höfum við hv. 3. þm. Norðurl. v., hv. 11 landsk. þm. og hv. 5. þm. Vesturl. leyft okkur að flytja frv. til l. um breyt. á lögum um söluskatt, með síðari breytingum, þ. e. að við 1. tölul. 7. gr. laganna, sem varðar undanþágur frá söluskatti, bætist nýr málsliður er orðist svo: „Heimild þessi nái einnig til barnaheimila, leikskóla, félags- og safnaðarheimila og atvinnuhúsnæðis.“

Þetta frv. er endurflutt frá síðasta þingi og er þess eðlis að grg. skýrir það að fullu.

Flm. er það ljóst, að allar undanþágur frá söluskatti eru viðkvæmar og vandmeðfarnar. Hér er í raun ekki um nýja undanþágu að ræða. Undanþága hefur verið frá upphafi varðandi vinnu við byggingar á byggingarstað. Alllangan tíma tók að yfirfæra þessa undanþágu á hliðstæða vinnu við verksmiðjuframleidd hús, en þegar það var gert var það eingöngu varðandi íbúðarhús, enda var meginframleiðsla einingaverksmiðjanna íbúðarhúsabyggingar. Nú hafa verksmiðjurnar í auknum mæli snúið sér að öðrum viðfangsefnum, svo sem þeim sem tilgreind eru í frvgr. Að sjálfsögðu á þessi undanþága að gilda um alla hliðstæða vinnu hjá verksmiðjunum og í byggingariðnaði yfirleitt. Hér er í raun eingöngu um það að ræða, að allir sitji við sama borð, og því um sanngirnisog réttlætismál að tefla. Flm. vilja þó aðeins tilgreina hér þá viðbótarþætti í framleiðslu verksmiðjanna, sem eru mest áberandi, og þá þætti sem hið opinbera kemur inn í með einhverjum hætti, að öðru leyti en snertir atvinnuhúsnæði, en menn telja rétt að láta það fylgja með, enda um leið ákveðinn stuðningur við innlendan iðnað almennt. Það hlýtur að teljast sjálfsagt að úttæra undanþáguna hvað alla þessa þætti snertir, enda er óeðlilegt að kaupendur þurfi að gjalda þess, að aðrar reglur gildi um verksmiðjuframleiddar byggingar en aðrar byggingar.

Flm. ræddu þetta mál við hæstv. fjmrh. áður en það var flutt í fyrra. Hann lýsti þá stuðningi við málið. Við væntum þess því, að þingnefnd afgreiði þetta litla mál fljótt og vel.

Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn.