19.11.1981
Sameinað þing: 23. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

95. mál, öryggisbúnaður fiski- og farskipahafna

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður. Ég ætla bara að lýsa ánægju minni með þessa till. Ég held að þetta sé ein af gagnlegri till. sem hafa komið inn á þetta þing. Það er svo kannske athyglisverðara að það er varaþm. sem flytur till. Ég verð að segja það að þær tölur sem koma fram í grg. með þessari till., koma mér gersamlega á óvart. Það hefur ekki hvarflað að mér að hér væri á ferðinni eins alvarlegt mál og þessar tölur bera með sér, t. d. ef menn hugleiða það, að á 6 ára tímabili verða l28 slys hér á landi við það að fara að og frá skipi, — aðeins það, og að 110 manns hafi verið bjargað frá drukknun í höfnum við landið á sama tímabili kemur mér líka á óvart. Það er líka mjög athyglisvert að hvorki fleiri né færri en 179 drukkna með skipum, í ám, vötnum og við það að falla útbyrðis og vegna útafaksturs á bryggjum á 7 ára tímabili. Þetta er hár tollur, mikil blóðtaka.

Það mál, sem hv. þm. Jón Sveinsson hefur vakið hér athygli á, hlýtur að njóta stuðnings allra þeirra manna sem eitthvað hugsa um þetta. Má í þeim efnum hugleiða m. a., eins og hefur raunar komið fram hjá öllum hv. ræðumönnum, hvernig hægt sé að bæta bryggjukanta, umferð við hafnir og bryggjur, frágang á landgöngum og fleira af þeim toga spunnið.

Herra forseti. Erindi mitt var eingöngu að lýsa fyllsta stuðningi við þessa till. Ég vænti þess, að hún fái hraða og skjóta meðferð í þinginu vegna þess að hún er allra góðra gjalda verð.