19.11.1981
Sameinað þing: 23. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

98. mál, almannavarnir

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég lýsi stuðningi mínum við þá till., sem hér er fram komin, og kem hér upp fyrst og fremst vegna þess, að mér finnst að í þessari till. eða grg. hennar og í þeirri framsöguræðu, sem flutt var um hana, komi of lítið fram og sé jafnvel frekar lítið gert úr því starfi sem unnið hefur verið í almannavörnum hér á undanfarandi áratugum. Mér finnst hlutur Slysavarnarfélags Íslands og annarra björgunaraðila, sem hafa starfað hér undanfarinn áratug eða áratugi með miklum sóma, ekki koma nógu vel fram. Frsm. sagði m. a.: „Stundum er almannavörnum ruglað saman við björgunarsveitir“ o. s. frv., og nánast í þeim tón að það væru hálfgerðir aukaaðilar í þessu máli. Mín skoðun er sú, að almannavarnir á Íslandi verði aldrei byggðar upp almennilega nema í samstarfi við þessa aðila, við þessa frjálsu aðila sem hafa starfað og gert kraftaverk á þessum vettvangi á undanförnum árum. Og þegar frsm. taldi upp þau atriði sem hefðu nýst af vettvangi Almannavarna í Vestur-Skaftafellssýslu, þá hefðum við getað á sama tíma talið upp marga þætti sem hafa verið gerðir á svipuðum vettvangi á vegum Slysavarnafélags Íslands og björgunarsveita hinna frjálsu samtaka

Ég vil sem sagt undirstrika það, að ég tel að ef Almannavarnir eigi að byggjast vel upp þá sé nauðsynlegt að þær verði byggðar upp í samvinnu við Slysavarnafélag Íslands og þær björgunarsveitir sem starfað hafa hér á landi undanfarandi ár og unnið þarft verk. Uppbygging á vegum sveitarfélaganna þarf að vissu leyti að vera á ýmsa vegu. Þau þurfa að koma inn í þetta og ríkið. En hið virka starf björgunarsveitanna nýtist ekki nema með því móti, að það sé þáttur af almannavörnum, hið frjálsa starf sem þegar er skipulagt í landinu.

Ég get líka sagt það, að mér ofbýður hálfpartinn að koma inn á sveitarskrifstofur úti um land og sjá þar fjórar, fimm eða sex möppur frá Almannavörnum ríkisins, sem sjaldan eða aldrei eru opnaðar, en vita aftur á móti að við hliðina á þessari stofnun eru kannski frjáls samtök sem hafa lítinn eða engan ríkisstyrk til sinna starfa. Ég vil sem sagt undirstrika það, að ég tel að um leið og við byggjum upp almannavarnir á þeim vettvangi, sem hér er lagt til, verði hinum þættinum ekki gleymt, hann verði styrktur og efldur.