19.11.1981
Sameinað þing: 23. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

98. mál, almannavarnir

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður kom nokkuð inn á það mál sem ég ætla að ræða hér um. En áður en að því kemur vona ég að mér leyfist, bæði fyrir sjálfan mig og aðra sem eiga mál á dagskrá þessa fundar, að bera af mér sakir, ef ég mætti orða það svo.

Hér hefur verið nokkuð að okkur vegið fyrir að vera ekki tilbúnir að mæla fyrir þeim málum. sem við höfum flutt, og látið í það skína, að við höfum ekki nægan áhuga á þessum málum. Ég á sjálfur þáltill. sem er á dagskrá síðari fundar, að loknum 22. fundi, og er þar nr. 12. Ég hef beðist undan að flytja framsögu fyrir þeirri till. vegna þess að það mál varðar launamarkaðsmál og þau eru einmitt mjög í sviðsljósinu um þessar mundir og margt þar að ske sem ég tel að varði það mál sem ég vil ræða hér á hv. Alþingi. Þar sem þm.sjálfir, sem flytja mál hér í Sþ., ég held nær allir, verða að vinna sín mál sjálfir, þá tekur það auðvitað nokkurn tíma. Auk þess er kannske ekki von að menn séu tilbúnir að ræða efnislega mál sem er nr. 46 á dagskrá þessara funda sem hafa nú staðið í aðeins tæpar þrjár klukkustundir. Vegna þess að við fáum strangar áminningar og ákúrur, óbreyttir þm., þá vil ég taka undir með þeim sem hafa fundið að því, að ráðherrar geta hlaupist hér á brott og geta afsakað sig ítrekað þegar þeir eru krafðir svara um einstök mál, en staðið síðan í ræðustól lengi dags og vafið tungu um höfuð og vita í raun ekki hvað þeir hafa verið að tala um eða hvað þeir ættu að segja þegar þeir hafa verið beðnir um svör við spurningum. (Gripið fram í: Það er t. d. algerlega ráðherralaust hér núna.) Já, vegna þess að þetta frammíkall kemur nú ætti að sjálfsögðu að bíða með frekari umr. hér þangað til viðkomandi ráðh., sem fer með almannavarnarmál og reyndar öll þau mál sem því máli eru skyld. komi hér og setjist á sinn sigggróna rass í ráðherrastól og hlustaði á það, hvað þm. hafa um þetta mál að segja og skyld mál. Væri vert að biðja hæstv. forseta um að banka í bjöllu og óska eftir að sá góði, vellaunaði maður gegni störfum sínum og mæti hér eins og við hinir, sem við gerum mjög vel, eins og sjá má.

Ég verð að biðja hv. flm. sem hér eru staddir — 1. flm. sem mælti skörulega að venju fyrir sínum málum — afsökunar á því að geta ekki rætt málið nú jafnefnislega og ég hefði viljað. Skal ég þó ekki biðjast neitt undan því að afgreiða málið til nefndar nú eða ljúka umr. um það, en vil nota tækifærið til að benda einmitt á það sem kom fram í ræðu hv. þm. Skúla Alexanderssonar, að mér þykir þessi tillöguflutningur efnislega nokkuð skara störf annarra aðila sem eru að vinna að þeim málum sem þarna er bent á. Hv. 4. þm. Vesturl. benti réttilega á þau samtök sem hafa unnið hér að slysavörnum, almannavörnum, um áratugaskeið og hafa getið sér hið besta orð í hvívetna. Það er ekki aðeins Slysavarnafélag Íslands, sem mér hefur löngum fundist sjálfsagður aðili til að samhæfa störf þeirra sem fást við slíkt björgunarstarf, eins og Slysavarnafélagið hefur gert bæði á sjó og landi og farið nokkru víðar í sínu starfssviði. En það eru auðvitað fleiri aðilar en Slysavarnafélag Íslands. Hér er minnst á áhlaupaveður og talað um að setja jafnvel upp nýtt kerfi og auka við störf ríkisstofnunar, opinberrar stofnunar, frá því sem var rætt og samþykkt hér á Alþingi á síðasta þingi, er við óskuðum eftir að það væri kannað ítarlega hvort ekki mætti flytja slíkt enn frekar undir störf Veðurstofu Íslands. Veðurstofa Íslands hefur að sjálfsögðu innan sinna vébanda þá aðila sem hæfastir og bestir eru til þess að koma frá sér nauðsynlegum upplýsingum, ef slík veður skella á, og hefur til þess fjarskiptakerfi bæði til móttöku og útsendingar og er þá auk þess með útsendingu í samvinnu við þá aðila sem um þau mál fjalla. Ég fæ því ekki séð að það þurfi að fara að kalla til nýjan aðila á því sviði. Það verður að sjálfsögðu miklu ódýrara fyrir þjóðina að búa betur að starfi þeirra ágætu vísindamanna sem þar vinna svo að Veðurstofa Íslands geti fullnægt því sem um er talað í sambandi við það mál í þáltill.

Þá vil ég einnig benda á það, að í lögum um Landhelgisgæslu Íslands er einmitt sagt að hún eigi að gæta ákveðinna þátta sem hér er fjallað um. Ég sé enga ástæðu til að flytja verkefni frá Landhelgisgæslu Íslands þegar hér er að störfum mþn. sem er að leitast við að renna frekari stoðum undir starf Landhelgisgæslunnar. Ég vil enn fremur benda á það, að Landhelgisgæslan og Slysavarnafélag Íslands hafa haft hið ágætasta samstarf á liðnum árum og hafa skipst á nauðsynlegum upplýsingum þegar hættu hefur borið að, þegar leita hefur þurft bæði í lofti og á láði að bæði skipum og fólki, að ég tali nú ekki um á landi að flugvélum. Kemur þá enn einn aðilinn til viðbótar sem er að störfum og er opinber aðili, en það er Flugmálastofnunin sem einnig sér, að ég held, algerlega um samhæfingu á leit þegar um er að ræða leit að flugfari. Á þessu má sjá að við höfum fjölmarga aðila, opinbera aðila og aðra sem eru þegar með sterkar rætur í íslensku þjóðlífi og vinna að öryggismálum og almannavörnum. T. d. er Slysavarnafélag Íslands með þrautskipulagðar deildir um allt land, sem er náttúrulega hinn sjálfsagði grundvöllur að byggja á, ef sett verður á stofn eitthvert fast kerfi sem alltaf er í viðbragðsstöðu, eins og þær deildir í raun eru. Við höfum næga vitneskju um það, að svo hefur verið um áratugaskeið hjá Slysavarnafélaginn og deildum þess.

Mér virðist í fljótu bragði að hér sé verið að hlaupa langt yfir skammt, þegar lagt er til að við ályktum að fela ríkisstj. að gera áætlun um eflingu almannavarna í landinu með eftirfarandi markmið í huga. Ég tel t. d. sjálfsagt að sú þingnefnd, sem málið fær til meðferðar, kalli strax til sín þá sem hafa unnið að þessum störfum á liðnum árum. Og kannski er ekki síður ástæða til þess að láta þá mþn., sem nú hefur um nokkurra mánaða skeið unnið að endurskoðun laga um Landhelgisgæsluna, líta á málið í heild og benda á ýmsa annmarka, sem ég sé þegar á því að samþykkja till. í því formi sem lagt er til að gert verði.

Ég vara við því, að við förum að slá á hendur þeirra sem hafa lagt fram fórnfúst starf í sjálfboðavinnu á liðnum áratugum til þess að koma upp launuðu starfsliði. Við megum ekki við því. Ég tel að meginstefnan eigi að vera sú, að við byggjum á því sem hefur reynst vel í okkar þjóðlífi hjá þeim grónu samtökum og stofnunum sem við höfum byggt þessi mál á til þessa,

Starf Almannavarna ríkisins hefur beinst nokkuð einhæft að náttúruhamfaraþættinum. Ég geri mér hins vegar fyllilega ljóst að meðan þau lög eru eins og þau eru þarf með frekari breytingum að tengja starf þeirra öðrum stofnunum. Við skulum ekki fara endilega að flytja undir Almannavarnir allt það starf sem þegar er fyrir á þessu sviði í landinu.