19.11.1981
Sameinað þing: 23. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

98. mál, almannavarnir

Jón Helgason:

Ég vil taka undir það sem mér finnst vera efni þessarar till., þ. e. fyrst og fremst að leggja áherslu á þörfina á að auka almannavarnir. Ég skal ekki leggja dóm á það, hvort till. megi vera eitthvað öðruvísi, eins og kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns. En ég skil a. m. k. þennan tillöguflutning ekki þannig, að þarna sé verið að gera lítið úr því, sem aðrir hafa unnið, eða draga úr því, heldur undirstrika þörfina á að starfið sé samræmt og gert betur á þessu sviði. En ég vildi einmitt sérstaklega taka undir það sem hefur komið fram í máli ræðumanna hér á undan mér, að við þurfum að nýta sem best þau áhugasamtök sem að þessum málum vinna. Það tel ég að sé hægt að gera og hafi reyndar verið gert af Almannavörnum ríkisins, því þurfi efling þeirra ekki að draga úr því, að slík áhugasamtök vinni vel. Ég vil sem sagt taka sérstaklega undir og leggja áherslu á það, að reynt sé að nýta þau sem allra best og að samstarf Almannavarna við þau sé sem best, eins og ég held að Almannavarnir hafi reynt að gera.

Hér var af flm. rakið hvernig tæki Almannavarna hefðu verið notuð við björgunarstörf í Vestur-Skaftafellssýslu og þar í kring. Ég veit að þar eru það áhugamenn í björgunarsamtökum sem hafa verið stoð og stytta Almannavarna í þeim störfum. Þar er því um að ræða góða samvinnu, en ekki neina árekstra. Ég vil leggja áherslu á það, að reynt sé að styðja þessi samtök þannig að áhugi þeirra og dugnaður nýtist til fulls. Þannig held ég að þeim fjármunum, sem í þessu skyni er varið, sé varið á bestan hátt. En vitanlega þarf að koma heildarskipulagning og samræming milli þessara aðila.