19.11.1981
Sameinað þing: 23. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

98. mál, almannavarnir

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Aðeins örstutt. — Það að koma með samanburðartölur á fjárlögum, í sambandi við Slysavarnafélag Íslands og Almannavarnir held ég að sé mjög vafasamt. Sú upphæð, sem fer til Slysavarnafélagsins, rennur sjálfsagt að einhverju leyti til Tilkynningaskyldunnar, þó að ég viti það ekki, en fyrst og fremst til höfuðstjórnstöðvar þeirra hér, en til hinna almennu frjálsu samtaka úti um landið er ekki styrkur fyrir hendi. Ég veit ekki til þess, að hinar mörgu og góðu björgunarsveitir Slysavarnafélagsins, sem eru starfandi í hverju byggðarlagi úti um landið, hafi neinn ríkisstyrk. Ég held því að það sé ekki rétt að koma með einn eða neinn samanburð í sambandi við ríkisframlög til þessara tveggja stofnana. Aftur á móti vil ég taka undir flest af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Péturs Sigurðssonar í sambandi við að ýmsar stofnanir, sem eru í gangi, haldi áfram sinni starfsemi og ekki verði farið að taka þá starfsemi og færa hana yfir til einhverrar nýrrar stofnunar, t. d. það sem Landhelgisgæslan hefur sinnt og Flugmálastjórn í sambandi við þessi mál á sjó og í sambandi við flug. Varðandi þann þáttinn, sem hv. þm. Friðrik Sophusson nefndi, að Viðlagatrygging Íslands veiti styrk til þjálfunar björgunarsveita, að slíkt mál komi hér inn á Alþingi, þá líst mér vel á það og sjálfsagt þarf einhvern slíkan þátt til að starfsemi björgunarsveita verði tryggð.