23.11.1981
Efri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa um þetta langt mál né endurtaka neitt af því sem ég hef sagt við þessa umr. En ég vildi fyrst og fremst spyrja hæstv. forseta, eftir að hafa hlýtt á þessa löngu þriðju ræðu hv. I1. þm. Reykv. um þetta mál: Er þetta örstutt aths., herra forseti? (Forseti: Nei.) Ég held að ég verði heldur að flokka þetta undir málþóf og ég get nefnt eitt dæmi: Hv. þm. lét sér ekki nægja að lesa upp nöfn þessara virðulegustu lögfræðinga landsins einu sinni, heldur tvisvar, og annað eftir því. Ef þetta er ekki málþóf veit ég ekki hvað slíkt er. Ég leyfi mér að gera þessa aths.

Það er sjálfsagt að menn hugsi þetta mál og ræði, en þessar upplýsingar voru af því tagi að mér hefði fundist fara vel á því, að þær kæmu fram í nefnd. Ég vona að hv. nefnd kanni þetta mál rækilega frá öllum hliðum.

Það var margt annað í ræðu hv. 11. þm. Reykv. sem ástæða væri til að svara í alllöngu máli, en það skal ekki gert hér. M. a. talaði hann um að það þyrftu að liggja fyrir ítarlegar skráðar reglur um það, hvenær dómarar dæmdu, að mér skildist, fimm og hvenær þrír. Ég held að það sé erfitt að setja nákvæmar reglur um þetta efni. Það er að vísu hægt, en það er a. m. k. ástæðulaust að setja skriflegar reglur um hvað eina. Það ætti hv. þm. að vita eins vel og ég og aðrir alþm., að munnleg loforð eru jafngild og skrifleg og munnlegar reglur, sem fylgt er ár eftir ár, eru í raun og veru jafngildar og skriflegar. Þessi árátta manna að vilja negla allt niður með því að skrifa blaðsíðu eftir blaðsíðu af reglum um einföldustu mál er ekki að mínu skapi.

Það er svo eitt og annað sem nefna mætti, en ég fer ekki lengra út í þá sálma. Ég vænti þess aðeins að þetta mál komist sem fyrst til hv. allshn., svo að hún geti hafið þá vinnu, sem nauðsynleg er, en hitt er að sjálfsögðu vel þegið, að menn hugsi og rökræði málið dagfari og náttfari eins og þeim líst.