23.11.1981
Efri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég sagði í upphafi ræðu minnar áðan, að ég hefði ekki hugsað mér að taka til máls í þessu máli, en mér hefði fundist umr. fara þannig að ég fyndi köllun hjá mér til að gera það. Ég verð að segja það eins og er, að mér þótti heldur miður að ég skyldi þurfa að halda mína ræðu eftir að hv. 11. þm. Reykv. var búinn að tala tvisvar. Þess vegna var mér það ekki á móti skapi þó að það yrði farið nokkuð mildilega gagnvart hv. 11. þm. Reykv. um ræðutíma þegar hann stóð aftur upp, þó að ég hins vegar geti verið fullkomlega samþykkur því sem hæstv. dómsmrh. sagði og hæstv. forseti, að hv. 11. þm. Reykv. hafi gengið helst til langt með að taka svo mikinn ræðutíma í stutta aths.

Hv. þm. vék að minni ræðu, en það var harla lítið bitastætt í því sem hann sagði og ég finn köllun hjá mér til að svara sérstaklega. Svo að ég nefni einstök atriði fór hann að tala um þær tölur sem hann hefði nefnt um málskot til Hæstaréttar og dóma Hæstaréttar og sagði þær hafa verið teknar úr grg. frv. Það vissi ég að var gert, en það er ekki nóg þó að tölurnar séu réttar. Það er hægt að leggja mismunandi skilning í þær og mistúlka þær. Það var það sem ég taldi að hv. þm. hefði gert þegar hann hefði litið fram hjá því, tölurnar í sjálfu sér segja ekkert, heldur hvers eðlis málin eru.

Hv. þm. vildi bera af sér þær sakir, að hann hefði sagt að það mundi fjölga sératkvæðum Hæstaréttar ef frv. þetta yrði samþykkt. Hann sagði nú margt sem var kannske frekar ástæða til að svara en þessu, en ég held samt sem áður að það verði ekki annað skilið á hans ræðu en það mundi enn þá aukast lausungin í störfum réttarins og m. a. með fjölgun sératkvæða.

Ég skil ósköp vel að hv. þm. hálfvegis fyrirverði sig fyrir að hafa talað um bitlinga eða aukabitlinga í sambandi við störf hæstaréttardómara, og það mun sjálfsagt vera rétt að hann notaði þetta orð ekki oft, en hins vegar var efni ræðunnar allt á þá lund. Það er auðvitað það sem máli skiptir. Þessi viðkvæmni af hálfu hv. ræðumanns, 11. þm. Reykv., gefur vonir um að hv. þm. finni að þessi ummæli hans voru ekki tilhlýðileg.

Hv. þm. fór að tala um að það væru engar reglur um deildaskiptingu. Hæstv. dómsmrh. kom nú lítillega inn á það efni og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það.

Hv. þm. sagði að það væri ekki rétt, sem ég hefði sagt, að hann væri upphafsmaður að deilu um Hæstarétt. Ég held að ég hafi aldrei sagt að hann væri upphafsmaður, en hann er þó upphafsmaður á þessum vettvangi og hefur þann heiður eftir sem áður.

Hv. þm. vék dálítið að því sem ég sagði um ábyrgð ríkisstj. Hann komst svo að orði, að ríkisstj. kæmi málið ekki við. Það er nýstárleg fullyrðing út af fyrir sig, að þeim sem flytur málið, komi það ekkert við. Ég tek þetta eins og hverja aðra gamansemi af hálfu hv. þm. og ætla þess vegna ekki að svara því. En þetta gefur ábendingu um að þess verði naumast að vænta, að hv. þm. taki þá eðlilegu ákvörðun samkv. afstöðu sinni og ummælum til þessa frv. að bregða trúnaði og stuðningi við ríkisstj. ef hún lætur sér ekki segjast í þessu máli.

Ég sagði að ég hefði raunar ekki mikið að tala við hv. þm. því að það var heldur veigalítið sem hann svaraði minni ræðu. Ég skil það út af fyrir sig. Þess vegna var mikill hvalreki fyrir hann í þessari umr. að fá það plagg í hendur, sem hann var að lesa upp, frá virðulegustu lögfræðingum þjóðarinnar. Ég hafði ekki vitað um þetta plagg og því síður séð og ekki heyrt fyrr en nú að hv. þm. las það upp. Ég vil aðeins segja um það, að það vill svo til að ég þekki flesta eða nær alla þá virðulegu lögfræðinga, sem standa að þessu plaggi, og met þá mikils bæði sem menn og sem lögfræðinga. Mér finnst sjálfsagt að athuga þetta nánar. Það er náttúrlega rétti vettvangurinn að gera það í nefnd.

En ég vil aðeins segja það til að fyrirbyggja misskilning, af því að hv. 11. þm. Reykv. sagði að ég hefði ekki vikið að bráðabirgðaákvæði frv., að ég hef litið svo á að þarna væri ekki um að ræða brot á stjórnarskránni. En mér þykir sjálfsagt og nauðsynlegt að athuga þetta mál. gaumgæfilega og mér dettur ekki í hug að halda því fram, að ég hafi athugað þetta mál sérstaklega. Ég hef ekki gert það. En án þess að hafa gert það, en lesið frv. með gagnrýni eins og menn gera þegar þeir lesa frv. til l., hef ég litið svo á fram að þessu að þetta væri ekki stjórnarskrárbrot.

Ég sagði áðan að einmitt þetta atriði málsins, spurningin um, hvort hér er um stjórnarskrárbrot að ræða, og þetta plagg, sem hv. 11. þm. Reykv. las upp úr, hefði komið eins og hvalreki fyrir hann inn í þessar umr. Mér sýndist eftir ræðu hans að hann hefði haft harla lítið erindi í ræðustól nema til að gera deildinni grein fyrir þessu plaggi hinna virðulegu lögfræðinga sem að því stóðu.