23.11.1981
Efri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

102. mál, mannanöfn

Flm. (Finnur Torfi Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 105 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á lögum nr. 50 frá 1925, um mannanöfn. Meginefni þessa frv. er að auka frelsi fólks til að velja sér og afkomendum sinum nöfn og auka ráðrúm þess til að breyta nöfnum. Tilgangurinn er að reyna að færa gildandi löggjöf um mannanöfn nær því sem telja má vera nútímaviðhorf.

Núgildandi lög um mannanöfn eru orðin býsna gömul og bera greinileg merki síns tíma. Þannig eru í lögunum allstrangar kröfur um þjóðerni nafna, gerðar ríkar lagakröfur um að nöfn þurfi að vera rétt að lögum íslenskrar tungu, og í annan stað eru miklar skorður settar við möguleika fólks til að breyta nöfnum. Tilgangur frv. er sem sagt að reyna að auka frjálsræði í þessu og nútímalegri viðhorf. 1 frv. er sú meginhugmynd lögð til grundvallar, að fólk eigi að hafa sem ríkast frelsi til að ráða nöfnum og því frelsi verði ekki settar aðrar skorður en þær sem mjög greinilega eiga stoð í þjóðfélagslegum hagsmunum. Í raun er það svo, að framkvæmd þessara lagaákvæða, gildandi réttar um mannanöfn, hefur auðvitað aðlagast þörfum tímans, og að verulegu leyti eru þau ákvæði, sem hér er lagt til að breyta, orðin úrelt. — Ég ætla nú að víkja að hverri grein frv. um sig.

Í 1. gr., sem breytir 1. gr. laganna, eru gerðar tvær breytingar. Í fyrsta lagi er sú breyting, að mönnum verði heimilt að heita fleiri en tveimur nöfnum. Í gildandi lögum er það þannig, að menn mega aðeins heita tveimur skírnarnöfnum, en hins vegar er það í raun svo, að margt fólk ber fleiri skírnarnöfn en tvö. Er í raun og veru ekki s jáandi neitt athugavert við það og þess vegna er hér lagt til að þessu verði breytt og fólki gert heimilt að lögum að nota fleiri en tvö skírnarnöfn.

Í öðru lagi er því atriði breytt í 1. gr., að menn geti kennt sig við kjörmóður jafnt og kjörföður. Þetta er auðvitað gert af samræmingarástæðum og er áreiðanlega í takt við tímann og gildandi lög um jafnrétti karla og kvenna

Þá er í 2. gr. frv., sem breytir 4. gr. laganna, lagt til að felld verði niður hin stranga krafa um að nöfn þurfi að vera „rétt að lögum íslenskrar tungu“. Í samræmi við þetta ákvæði gildandi laga má minna á 6. gr. laganna, þar sem segir að stjórnarráðið eigi að gefa út skrá yfir þau mannanöfn sem eru bönnuð samkv. þessum lögum. Það er skoðun mín, að það sé ástæðulaust að vera með mjög strangar kröfur um þjóðerni nafna, það verði að vera á valdi hvers og eins að velja sér nafn og hann þurfi að hafa nokkurt frelsi til þess. Þetta ákvæði gildandi laga á áreiðanlega rætur að rekja til þeirra sterku þjóðernisviðhorfa sem voru með þjóðinni þegar löggjöfin var sett. Þá var skammt liðið síðan Íslendingar heimtu frelsi sitt undan Dönum og má áreiðanlega rekja þetta lagaákvæði til þeirra viðhorfa. Hér er sem sagt lagt til að þessi stranga krafa um þjóðerni nafnsins verði lögð af, en hins vegar er miðað við að áfram haldist almennt ákvæði, sem er í 1. gr. laganna, um að menn skuli heita íslensku nafni. Það ákvæði mun haldast og gefur að sjálfsögðu vísbendingu um stefnu, að nöfnin eigi að teljast íslensk. En þessi breyting mundi þýða það, að menn hefðu mun rýmra frelsi til að meta eftir viðhorfum hvers tíma hvað íslenskt er og hvað ekki. Þetta held ég að sé ákaflega mikilvæg breyting.

Þá er lagt til í frv. að inn komi ákvæði um að nöfn megi ekki vera afkáraleg eða líkleg til að valda óþægindum þeim sem ber nafnið. Þetta er að sjálfsögðu sett sem varnagli og mundi væntanlega ákaflega sjaldan reyna á það, en tilefni er til að hafa einhverja viðmiðun í því samt.

Í 3. gr. frv., sem breytir 5. gr. laganna, er vikið að breytingum á nöfnum. Eins og er nú í lögum getur maður því aðeins fengið nafni sínu breytt að hann hafi hlotið óþjóðlegt, klaufalegt eða erlent nafn. Það eru sem sagt settar efnislegar skorður við breytingum. Ég tel að þetta sé ástæðulaust. Mér finnst eðlilegt að fólk geti fengið nafni sínu breytt ef það sjálft unir því ekki. Skiptir þá ekki neinu máli af hvaða ástæðu það er sem fólk unir ekki nafni sínu. Hér er um að tefla svo persónulegt svið, sem ræðst af einkasjónarmiðum hvers manns, að mér finnst óeðlilegt að í lögum séu einhver efnisskilyrði fyrir því hvenær menn geti breytt nafni sínu. Því legg ég til að þau verði felld niður. Hins vegar er alveg ljóst að það eru ríkir þjóðfélagslegir hagsmunir sem krefjast þess, að það sé festa í nafngiftum og menn haldi almennt sama nafni alla ævi. Þessir þjóðfélagshagsmunir eru að sjálfsögðu mikilvægir og auðsjáanlegir. Menn geta t. d. bent á hagsmuni réttarvörslunnar. Menn geta að sjálfsögðu misnotað nafnbreytingar t. d. í fjárplógsskyni, til að nota í fjársvikum og öðru refsiverðu hátterni, þannig að einhver varnagli þarf að vera. Sá varnagli, sem ég legg til að settur verði og er í þessu frv., er að menn geti aðeins fengið að breyta nafni sínu fram til tiltekins aldurs, og er í frv. miðað við lögræðisaldur. Hugmyndin er sem sagt að fram til þess aldurs hafi menn fullt frelsi til að breyta nafni sínu af hvaða ástæðum sem vera skal en eftir þann aldur verði nafninu ekki breytt. Enn fremur er sá skilmáli í frv., að menn geta aðeins fengið leyfi til nafnbreytingar einu sinni. Þess þarf að sjálfsögðu ekki að geta, að hið nýja breytta nafn verður að uppfylla hin almennu skilyrði sem eru í lögum.

Þá er í 4. gr. frv. lagt til að 6. gr. gildandi laga verði felld niður, en það er sú lagagr. sem ég gat um áðan, þar sem segir að stjórnarráðið skuli gefa út skrá yfir þau mannanöfn sem bönnuð skuli vera. Það verður alveg ástæðulaust að gefa út skrá yfir bönnuð nöfn þar sem eftir samþykkt þessa frv. verður ekki um að tefla nein nöfn sem bönnuð eru. Auk þess er það svo, að þessi grein mun ekki hafa verið framkvæmd. Stjórnarráðið mun ekki í raun hafa treyst sér til að gefa út neina skrá yfir bönnuð nöfn. Þar með er þetta lagaákvæði dautt og sjálfsagt að fella það úr lögum.

Ég ætla ekki að orðlengja miklu frekar um þetta. Frv. lætur lítið yfir sér, en hefur samt raunhæfa þýðingu fyrir mikinn fjölda fólks og leynir töluvert á sér að því leyti. Ég vænti þess, að það fái skjóta og málefnalega meðferð hér í hv. þd., og leyfi mér að leggja til að lokum að frv. verði vísað til hv allshn.