23.11.1981
Efri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

102. mál, mannanöfn

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að ræða þetta frv. almennt. Það er athyglisvert. En það var eitt atriði sem ég hnaut um og mér þykir rétt nú þegar á þessu stigi að víkja að og spyrja hv. flm. um skýringu á. Það er í sambandi við 3. gr. frv. Þar segir: „Nú vill maður breyta nafni sinu, bæta við það eða fella niður hluta þess, og getur hann þá sótt um leyfi til þess til stjórnarráðsins ef hann er ekki orðinn lögráða.“ Ýmis réttur er bundinn við að menn séu komnir til vits og ára, þeir verða lögráða, fjárráða o. s. frv. En hér er þetta á hinn veginn, að menn hafa rétt áður en þeir verða lögráða, en ekki á eftir. Hvaða þýðingu hefur þetta? Ekki vænti ég að það sé gert ráð fyrir að börn geti gert þetta eða er það svo? Eða þurfa menn að vera sjálfráða? Hvernig er þetta hugsað? Og er rétt að binda þetta við aldur innan lögráðaaldurs, við fólk í bernsku, æsku eða fólk sem er ekki búið að ná þeim þroska sem er tilskilinn til þess að það geti gert almenna löggerninga? Ég geri mér ekki grein fyrir hvað þetta þýðir og hvernig á að framkvæma það. Í öðru lagi: Ef það er ástæða að veita þennan rétt innan við lögráðaaldur, hví ekki að einhverju leyti þegar maðurinn hefur náð lögráðaaldri?