23.11.1981
Efri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gaf þá skýringu, að skertur hefði verið tekjustofn Byggingarsjóðs ríkisins af launaskatti með því að það hefði verið verulegur halli á ríkissjóði. Ég mótmæli því ekki. En ég vil aðeins vekja athygli á að ráðh. hefur höggvið þar sem síst skyldi þegar Byggingarsjóður ríkisins er sviptur launaskattinum vegna þess að sá skattur var lagður á í sambandi við vinnudeilu og átti að vera visst framlag til að mæta hagsmunum og kröfum launamanna í landinu.

Annars er það greinilegt, að við ætlum ekki að deila mikið hér á þessum fundi, ég og hæstv. ráðh. Það má hins vegar segja að það sé áherslumunur. Þegar vextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins, sem hann tekur, eru 3.5%, en vextir af lánum, sem hann veitir, eru 2%, þá orðar hæstv. ráðh. það svo, að 2% sé heldur lægra en 3.5%. Ég mundi orða þetta þannig, að útlánsvextir sjóðsins væru nærri því helmingi minni en vextir af því fé sem hann aflar.