23.11.1981
Neðri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

107. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 110 er stjfrv. um breytingar á lögum um almannatryggingar, sem er stutt og í rauninni mjög einfalt og gengur út á það, að heimilt sé að ákveða að svokallaðir daggjaldaspítalar verði teknir inn á bein fjárlög samkv. ákvörðun Alþingis við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni. Eins og kunnugt er hafa ríkisspítalarnir um nokkurt skeið verið reknir á svokölluðum „beinum fjárlögum“. Er talið af ýmsum að það hafi út af fyrir sig gefist allvel og tryggt betra aðhald í rekstri þessara stofnana frá ári til árs en ella hefði verið.

Það er ljóst að kostnaður við sjúkratryggingar er einn stærsti liðurinn í ríkisútgjöldum okkar. Á árinu 1982 er gert ráð fyrir að vistgjöld á sjúkrahúsum og hælum nemi 692.3 millj. kr., en í ár er þessi upphæð talin samkv. fjárlögunum 446 millj. kr. Hækkun milli ára frá fjárlögum til frv. er talin vera 246.3 millj. kr. Það er því ljóst að hér er um að ræða mjög stóran lið í okkar útgjöldum, og samkv. forsendum fjárlagafrv. hækkar hann um 55.2% á milli ára, sem er nokkru meira en gert er ráð fyrir að önnur rekstrarútgjöld hækki. Stafar það af ýmsum ástæðum, m. a. þeirri, að í fjárlögum ársins 1981 eru útgjaldatölur í þessum efnum ekki að öllu leyti raunhæfar, m. a. vegna þess að rekstrardaggjöld hækkuðu 1. des. 1980 um 10.9%, en á fjárlögum hafði sú hækkun verið áætluð 10%. Auk þess hafa eftirtaldar hækkanir orðið á árinu 1981: 3.2% hækkun 1. jan., 6.8% hækkun 1. mars, 9.3% hækkun 1. júní, 3.9% hækkun 1. júlí vegna kjarasamninga og 8% hækkun 1. sept. Þá er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv., að daggjöld hækki um 9% 1. des. n. k. Ég hef ekki fengið nýjar tillögur frá daggjaldanefnd um breytingar á daggjöldum frá og með 1. des., svo að það er ekki alveg endanlega ljóst hvort það verður þessi tala eða einhver önnur.

Deilur hafa lengi staðið um það, hvort daggjaldakerfi á sjúkrastofnunum og hælum í landinu væri heppileg fjármögnunarleið. Ég held að það sé a. m. k. ljóst að daggjaldaviðmiðun, sem gengur út frá útreiknuðum kostnaði á hvert rúm hvern dag sem sjúklingur er inniliggjandi, er ekki að öllu leyti heppileg, m. a. með tilliti til þess, að sjúkrahúsaþjónusta hefur verið að breytast á undanförnum árum og vaxandi hluti af þjónustu sjúkrahúsanna er á vegum svokallaðra göngudeilda. Enn fremur er um að ræða slysaþjónustu, eins og t. d. hér í Reykjavík, þar sem rekin er stærsta slysavarðstofa landsins á Borgarspítalanum, en Borgarspítalinn er eins og kunnugt er einn af daggjaldaspítölunum.

Ég held að það væri heppilegt, hvað sem öðru líður, að Alþingi áttaði sig betur á því en nú virðist vera, hvað það kostar að reka hverja sjúkrastofnun í landinu. Í fjárlagafrv. og fjárlögum er yfirleitt ein safntala fyrir allan þennan kostnað. Ég þekki að sjálfsögðu ekki til starfa fjvn. í einstökum atriðum, en ég er ekki viss um að menn fari þar ofan í kostnað við hvern einstakan spítala frá ári til árs. Ég held þess vegna að bein fjármögnun á spítölunum mundi stuðla að meðvitaðri afgreiðslu Alþingis á þessum stóra kostnaðarlið en nú hefur verið. Ein meginforsenda þess hins vegar, að réttlætanlegt sé að breyta þessu kerfi, er sú, að tryggt verði að heilbr.- og trmrn. geti haft hönd í bagga með því frá degi til dags, að fjárveiting sú, sem ákveðin er af Alþingi hverju sinni, verði ekki til þess að þjónusta sjúkrahúsanna versni frá því sem verið hefur. Í viðræðum mínum við fjmrn. hef ég lagt áherslu á þetta grundvallaratriði, þannig að sjúkrahúsadeild heilbr.- og trmrn. verði efld frá því sem nú er. Í rauninni er furðulegt til þess að hugsa, hvað daggjaldanefnd, sem ákveður daggjöld á einstökum stofnunum, er veikt stjórnvald þegar allt kemur til alls, hvað hún hefur í raun og veru haft litla möguleika til þess að fara ofan í rekstrarkostnað og rekstrarforsendur sjúkrahúsanna lið fyrir lið. Þetta litla frv. um breytingar á lögum um almannatryggingar er lagt hér fram til þess að kanna til þrautar viðhorf Alþingis í þessum efnum.

Ríkisstj. vill færa þessi mál inn á vettvang Alþingis svo að hv. alþm. geti lagt það til málanna í.þessum efnum sem þeir telja nauðsynlegt á þessu stigi. Aðaltilgangurinn með flutningi þessa frv. er að tryggja betri fjármögnunaraðferðir en verið hafa á sjúkrahúsunum í landinu, skilvirkari þjónustu, betra aðhald löggjafans með þessari þjónustu og jafnframt gleggri meðferð mála hér á hv. Alþingi þegar fjárlög eru afgreidd hverju sinni. Hér er um að ræða heimildarákvæði sem Alþingi yrði að taka afstöðu til í hvert skipti.

Eins og kunnugt er bera sveitarsjóðir nú nokkurn kostnað af daggjöldum, eða um 15%, meðan ríkissjóður er með 85%. Jafnframt ákvörðun um að flytja einstaka daggjaldaspítala yfir á bein fjárlög verður auðvitað að tryggja að hlutur sveitarfélaganna skili sér. Ég á von á því, að unnt verði að gera fljótlega grein fyrir hugmyndum sem uppi eru í þeim efnum. Það verður raunar að vera tryggt, að ekki verði tekin ákvörðun um að flytja einstaka spítala yfir á bein fjárlög fyrr en ákvörðun hefur verið tekin um að tryggja hlut sveitarfélaganna. Það mál er nú í sérstakri athugun hjá ríkisendurskoðuninni og mun ég gera ráðstafanir til að láta gera hv. þm. og þá e. t. v. fjvn. grein fyrir niðurstöðum í þeim efnum eftir því sem málinu vindur fram.

Á þessu ári, 1981, hefur verið í gangi athugun á rekstrarkostnaði daggjaldaspítala á vegum fjmrn. og heilbr.- og trmrn. Þessi athugun fer fram á vegum þriggja manna nefndar sem skipuð var af þessum tveimur rn. snemma á þessu ári. Nefndin hefur þegar farið ofan í saumana á rekstrarkostnaði nokkurra spítala. Þar er um að ræða í fyrsta lagi fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað, sjúkrahúsið á Húsavík og sjúkrahúsið í Keflavík. Nefndin er nú með í athugun fleiri sjúkrahús og mun snúa sér næst m. a. að stóru sjúkrahúsunum hér í Reykjavík, þ. e. Landakotsspítala og Borgarspítala.

Ég undirstrika að lokum, herra forseti, að það verður auðvitað að búa þannig um hnútana, um leið og menn tryggja aðra fjármögnunarleið til spítalanna en verið hefur, að breyting á fjármögnunaraðferð komi ekki niður á þjónustu sjúkrahúsanna við almenning, við sjúklinga, við þá viðskiptamenn sem þangað þurfa að snúa sér. Það grundvallaratriði verður að tryggja jafnframt.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að sinni að fara rækilegar út í frv. þetta en legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.