23.11.1981
Neðri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

107. mál, almannatryggingar

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég er nú ekki eins sannfærður og hæstv. heilbr.- og trmrh. og hv. síðasti ræðumaður um að sú breyting, sem gerð var þegar daggjaldakerfið var afnumið á ríkisspítölum, hafi orðið til þess að auka aðhald í rekstri sjúkrahúsanna. Þetta var gert á þeim tíma sem ég var heilbr.- og trmrh. og voru færð ýmis rök fyrir því, bæði með og á móti. Mönnum fannst rétt að reyna þessa aðferð. En eftir á að hyggja er ég ekki sannfærður um það að þetta hafi verið til mikils sparnaðar fyrir ríkið — alls ekki. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að daggjaldakerfið sé fyrir löngu sér til húðar gengið. Á fyrri hluta árs 1978 var skipuð nefnd til að endurskoða daggjaldakerfið. Þó að það hafi á sínum tíma verið sæmilegt, þegar það var sett á, hafa margvíslegar breytingar orðið síðan. Það má segja að frá því það var sett á í þeirri mynd sem það er núna gagnvart þeim sjúkrahúsum sem það snertir hafi orðið sú geigvænlega breyting að göngudeildarstarfsemi, sem var eiginlega ekki til, ekki að neinu ráði, er nú gífurlega mikill þáttur í heilbrigðisþjónustunni. Dagvistarstofnanir hafa einnig risið upp síðar í ríkari mæli og ýmiss konar önnur þjónusta í sjúkrahúsum sem fellur ekki undir daggjaldakerfið, því að daggjaldakerfið miðast fyrst og fremst við gistingu, en ekki við þann kostnað sem er í sambandi við komu sjúklings á göngudeild eða dagvistun eða þess háttar. Brýnasta þörfin er þess vegna að gjörbreyta þessu daggjaldakerfi og hefði átt að vera búið að því.

Ég get ekki látið undir höfuð leggjast að segja það hér við 1. umr., að ég er langt frá því að vera trúaður á að niðurfelling daggjaldakerfisins á ríkisspítölum hafi orðið til sparnaðar. Um þetta má auðvitað deila alveg óendanlega. Ég hefði talið að það hefði mátt fara af stað með fleiri og veigameiri breytingar en þetta eina frv. felur í sér. Mér finnst þeirri endurskoðun, sem hefur átt sér stað á almannatryggingalögunum, miða hægt áfram. Yfirleitt hefur ekkert verið gert annað en auka útgjöld ríkissjóðs í sambandi við almannatryggingarnar. Ég hef ekki orðið var við að núna á síðustu árum hafi verið gerðar neinar þær breytingar sem skapa aukið aðhald eða sparnað fyrir ríkissjóð í þessum efnum.

Ég tel að ákaflega erfitt sé að gera sér grein fyrir því, hvort meira eða minna aðhald sé í þeim sjúkrahúsum, sem eru undir þessum beinu framlögum í fjárlögum, eða þeim, sem háð eru daggjöldum. Það hafa verið færð fram veigamikil rök á móti því kerfi sem hefur verið gildandi gagnvart ríkisspítölunum. Á heilbrigðisráðstefnu, sem núv. hæstv. heilbrmrh. boðaði til, voru flutt mjög eftirtektarverð erindi um þessi efni. Ég minnist eins erindis þar sem mér fannst ákaflega veigamikil rök vera fram borin fyrir því, að aðhaldið væri að mörgu leyti meira gagnvart þeim sjúkrahúsum sem væru háð daggjaldafyrirkomulaginu, heldur en hinum. Þetta eru flókin mál og erfið sem við finnum ekki lausn á í ræðustól hér í hv. deild. En ég vil leggja á það áherslu, að horfið verði frá daggjaldakerfinu, eins og það er núna, og gerðar viðamiklar og róttækar breytingar. Það er líka ómögulegt að reka sjúkrahúsin með þeim hætti að ákveða daggjald nokkuð langt tímabil í einu og greiða síðan halla eftir á. Það hefur sýnt sig, að eftir því sem verðbólgan hefur aukist hefur skuldahali þessara sjúkrahúsa vaxið. Þetta kemur bæði mjög hart niður á sjálfseignarstofnunum og ekki síður á sjúkrahúsum sveitarfélaga víðs vegar um landið sem eiga að þessum ástæðum einum, fyrir utan allar aðrar, við mikla erfiðleika að stríða í sambandi við rekstur sjúkrahúsa.

Ég ætla ekki á þessu stigi að hafa þessi orð miklu fleiri, en tel sjálfsagt að atbuga þetta mál með fullri vinsemd í þeirri nefnd sem fær það til meðferðar.