23.11.1981
Neðri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

108. mál, vátryggingastarfsemi

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér rétt hjá hæstv. ráðh., að þegar lög voru sett um vátryggingarstarfsemi og Tryggingaeftirlitinu komið á fót, þá var reiknað með að í öllum höfuðgreinum mundi gjaldið, sem lagt væri á tryggingafélögin, nægja til að reka Tryggingaeftirlitið. Nú er sjálfsagt að reyna að stilla kostnaði í hóf eins og hægt er, bæði hvað snertir eftirlit og allar aðrar greinar. En í athugasemdum við frv. segir: „Að gjaldið skuli vera lægra af endurtryggingum en frumtryggingum er í miklu ósamræmi við þá vinnu sem eftirlitið verður að inna af hendi í sambandi við endurtryggingar félaganna.“ Þetta finnst mér verá byggt á ákaflega miklum misskilningi: Ég er þeirrar skoðunar, að endurtryggingargjaldið eigi að vera mun lægra en aðrar iðgjaldatekjur frv., því að með því að gera endurtryggingargjald jafnhátt öðrum raunverulegum tekjum vátryggingarfélaganna er verið að leggja hvað eftir annað á sama gjald. Ég held að þessi stefna eða þessi ábending sé byggð á miklum misskilningi. Þetta kemur ákaflega ójafnt á hin ýmsu vátryggingarfélög. Lítil félög, við skulum taka t. d. bátaábyrgðarfélögin, endurtryggja að verulegu leyti sínar tryggingar- enn meira eftir því sem þau eru minni og fjárvana. Þau endurtryggja hjá Samábyrgð Íslands. Þá er lagt tvisvar sinnum á þessar sömu tekjur, sem er ranglátt. Tryggingaeftirlitið hefur ekkert meira fyrir þessu en öðrum endurtryggjendum. Þetta er líkt og með söluskattinn, hann er lagður oft á, tvisvar og jafnvel þrisvar. Ég held að verið sé að fara að verulegu leyti í gegnum sjálfan sig með þessari breytingu. En það þýðir ekki að ég sé að taka efnislega afstöðu gegn því að auka nauðsynlegar tekjur Tryggingaeftirlitsins. Ég met alveg fullkomlega starfsemi Tryggingaeftirlitsins og nauðsyn þess að það var sett á á sínum tíma. En hér held ég að sé um stórfelldan misskilning að ræða, að ætla að leggja sama gjald á endurtryggingar og aðrar iðgjaldatekjur.