23.11.1981
Neðri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

46. mál, land í þjóðareign

Frh. 1. umr. Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er orðið allnokkuð síðan umr. um þetta frv. fór fram, en mig langar þó til að undirstrika tvo þætti í frv. Eins og kom fram hjá hv. frsm., 3. þm. Vestf., Sighvati Björgvinssyni, gengur þetta frv. mun skemmra en önnur frv. sem um þetta mál hafa verið flutt á undanförnum þingum og rakin eru í grg. Eins og segir í 1. gr. frv: er aðeins um það að ræða að þau landssvæði skuli teljast þjóðareign sem eignarheimildir einstaklinga eða annarra lögaðila finnast ekki fyrir.

Nú hafa tveir hv. þm., sem töluðu gegn frv., Steinþór Gestsson og Páll Pétursson, haft uppi þau rök, að það muni engu máli skipta, frv. sé í raun óþarft. Þetta fær auðvitað ekki staðist af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi þeirri sem getið er um í 4. gr. frv., að þær reglur, sem settar skuli, hafi m. a. að geyma ákvæði um varnir gegn ofbeit, og telst það þegar vera allnokkur ástæða fyrir því, að þetta frv. verði samþykkt. Í annan stað hlýtur þróunin á allra næstu árum vitaskuld að verða sú, að þau landssvæði, sem hér um ræðir, verði í vaxandi mæli skipulögð fyrir þéttbýlisfólk. Kjarni þessa frv. er auðvitað sá m. a. að flýta fyrir því, að slík skipulagning, t. d. undir sumarbústaðalönd, geti átt sér stað. Þetta tvennt hygg ég að muni í reynd verða megintilgangur þessara breytinga ef samþykktar verða.

Hv. þm. Steinþór Gestsson talaði gegn þessum breytingum á þeim forsendum, að opinber eign á slíkum löndum væri ekki æskileg. Nú eru hugmyndir um opinbera eign á landi oft og iðulega mjög ruglingslegar. Til marks um það má undirstrika að í þá fimm áratugi sem Sjálfstfl. réð fyrir Reykjavíkurborg var það beinlínis stefna flokksins hér í borg að land skyldi vera í almannaeign, að land skyldi keypt upp af opinberum aðilum. Og hver var ástæðan fyrir þessu? Ástæðan var í raun óumdeild. Ástæðan var sú, að það mundi auðvelda að skipulagning á þessu landi færi fram. Og það má út af fyrir sig segja að í þessu frv., eins og það er að þessu sinni lagt fram, er í raun og veru ekki verið að leggja til annað um hin óbyggðu landssvæði, sem eignarheimildir lögaðila finnast ekki fyrir, en verið hefur stefna Sjálfstfl. í Reykjavíkurborg og raunar á fleiri þéttbýlisstöðum. Þetta er aðeins sagt til undirstrikunar á því, hvaða hugmyndir manna, grundvallarhugmyndir um opinbera eign annars vegar og einkaeign hins vegar, þegar landið á í hlut, eru oft ruglingslegar. Það er ekki rétt að það sé stefna eins stjórnmálaflokks öðrum flokkum fremur að varðveita einkaeign þegar landið er annars vegar. Þetta er sagt til að undirstrika það, að þegar hv. þm. Steinþór Gestsson talaði gegn þessu frv. var hann ekki að mæla fyrir neinum almennum hugmyndum um þetta efni.

Ég geri ráð fyrir að þetta frv. geti átt greiðari leið hér í gegn en oft áður vegna þess, hvað hægt er í sakirnar farið. En kjarni málsins er sá, að á næstu árum hlýtur að fara fram vaxandi skipulagning svæða sem þessara í þágu þéttbýlisfólks og frv. sem þetta mundi mjög auðvelda slíka þróun. Af þeirri ástæðu er það flutt. Í raun og veru er ekki verið að leggja annað til en t. d. hefur verið stefna Sjálfstfl. í Reykjavíkurborg. Það ber rækilega að undirstrika, að hér er í raun og veru um að ræða eitt og hið sama.