23.11.1981
Neðri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

46. mál, land í þjóðareign

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þetta frv. er gamall draugur sem hefur verið vakinn upp hér um bil árlega síðasta rúman áratug. Hins vegar hefur þessi draugur eins og ýmsir aðrir í sögunni tekið breytingum frá einu ári til annars. En ekki fer honum fram. Ég held að þetta frv. sé glöggt dæmi um hvernig ekki eigi að leggja mál fyrir og hvernig frv. sé sem hefur engan tilgang og á ekkert erindi inn á Alþingi.

Í 1. gr. frv. er sagt, með leyfi forseta: „Þau landssvæði skulu teljast þjóðareign sem eignarheimildir einstaklinga eða annarra lögaðila finnast ekki fyrir.“ Hvað skyldi þetta þýða? Ég skal að vísu ekki fullyrða neitt um það, að ekki fyrirfinnist einhvers staðar land sem kallað er í byggð og þar sem orki tvímælis hver eigi það. En það mun þá vera alger undantekning frá reglunni. Á því svæði, sem ég þekki til, veit ég ekki til að slíkt land finnist. Ef það er eins annars staðar, þá liggur í augum uppi að hér mundi í raun og veru eingöngu vera átt við jöklana og öræfin, þar sem getur verið og er og hafa fallið dómar um að geti orkað tvímælis hver eigi landið. En sé það ekki, þá er það þjóðareign. Það þarf ekkert frv. til að koma til þeirra hluta. Það, sem segir í 4. gr. um að þetta land, sem enginn eignaraðill finnst að, skuli vera skipulagt sem útivistarsvæði eða fyrir orlofsbúðir, er þess vegna náttúrlega algerlega út í hött, því að öræfin sjálf verða það aldrei. Ég skil ekki að þar finnist svæði sem mundi verða notað í því skyni eða að nokkur mundi óska eftir að orlofsbúðahverfi væri skipulagt uppi á öræfum eða uppi á reginfjöllum.

Þetta frv. ber þess auðvitað glöggt merki, að þeir sem standa að flutningi þess, hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að fjalla um. Eins og hæstv. landbrh. gat um vegna ummæla hv. þm. Vilmundar Gylfasonar um að eitt af meginmarkmiðum frv. væri að koma í veg fyrir ofbeit, sem segir í 4. gr., þá eru um það sérstök lög. Það eru sérstök lög um hvernig eigi með að fara ef menn álita að einhver ákveðin afréttur sé of setinn. Þetta frv. eykur þar engu við þó að það yrði lögfest, því að það eru ákvæði um það í þeim lögum hvernig með skuli fara, en hér ekki. Hins vegar er það sjaldgæft, það er rétt, að til þess hafi verið gripið. Þó veit ég nokkur dæmi til að þess hefur verið krafist að metið skuli samkv. þessum lögum hvað megi vera margt á ákveðinni afrétt.

Það ákvæði frv., að fjmrn. ætti að fara með þessi mál, hef ég rætt í sambandi við flutning á öðru frv. og fer ekki að endurtaka það hér. Það er nánast um það að jarðeignadeildin yrði flutt á milli hæða. Það er bara um það. Að það sé einhver breyting á því að öðru leyti er alger misskilningur, vegna þess að lögin að öðru leyti og öll þekking á þessum málum er eðli sínu samkvæmt í landbrn. og hjá Búnaðarfélagi Íslands sem er nokkurs konar undirráðuneyti landbrn. Eftir sem áður yrði því fjmrh. eða fjmrn. að sækja umsagnir og úrskurði að verulegu leyti þangað, að öðru leyti en því sem sá maður hefur sem mundi færast þarna milli hæða.

Ég sé ekki ástæðu til að eyða meiri tíma í að ræða þetta frv. eins og það er allt úr garði gert. Það má kannske segja að þetta sé meinlaust nema að því leyti til að það er hætt við því, eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði áðan, að það mundi auka málaferli á næstunni út af þessum málum. En auðvitað geta þau alltaf komið til. Og ef slík mál koma upp á annað borð og óljóst er hver sé eigandi að ákveðnu landi, þá getur auðvitað orðið að leita til dómstólanna til þess að fá þar niðurstöðu þó að þetta frv. verði ekki samþykkt.