24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

328. mál, gjaldtaka tannlækna

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þessi fsp. hv. þm. Alexanders Stefánssonar er vissulega tímabær vegna þess að það er einkennilegt fyrirkomulag, að Tryggingastofnunin hafi þurft að standa í karpi ekki mánuðum saman, heldur árum saman til að fá tannlækna til að láta af hendi viðunandi greiðslukvittun fyrir tannlæknaþjónustu sem greidd er af opinberu fé. Auðvitað hlýtur það að vekja tortryggni, hvað tannlæknar eru tregir til að láta af hendi greiðslukvittun þar sem fram kemur sundurliðun á þeirri þjónustu, sem veitt er, og kostnaði við hana.

Ég tel að form greiðslukvittana eigi ekki að þurfa að vera samningsatriði við tannlækna. Það á hreinlega að skylda þá til að láta af hendi sundurliðaða greiðslukvittun í því formi sem Tryggingastofnunin og sjúkrasamlögin telja sig þurfa til þess að geta haldið uppi virku eftirliti. Liggur reyndar fyrir frv. sem ég hef lagt fram á Alþingi um að tannlæknar verði skyldaðir til að láta af hendi sundurliðaða greiðslukvittun sem Tryggingastofnunin óskar eftir til þess að geta haldið uppi þessu eftirliti.

Stjórnvöld verða að geta haft virkt eftirlit á þessu sviði eins og öðrum þar sem opinberra skýrsina er krafist til þess að halda uppi virku eftirliti og aðhaldi. Skattgreiðendur hafa t. d. ekkert um það að segja, hvernig skýrsluform þeim ber að útfylla varðandi sínar tekjur. Það er ákvörðun stjórnvalda, en ekki samningsatriði við launþega, hvernig þeir telja fram sínar tekjur. Skýrslur í ýmsu formi, séu ákveðnar eru af stjórnvöldum og krafist er af atvinnurekendum og ýmsum þjónustuaðilum, eru auðvitað algengar og nauðsynlegar til þess að stjórnvöldum sé kleift að hafa eftirlit með opinberu fé og greiðslum þegnanna til samfélagsins. Tannlæknar eiga ekki að vera nein undantekning frá því, sem ríkisvaldið þarf árum saman að standa í karpi við um viðunandi greiðslukvittun til að geta haft eftirlit með greiðslum fyrir tannlæknaþjónustu.