24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

328. mál, gjaldtaka tannlækna

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. trmrh. fyrir svör hans við þessari fsp. Ég vil aðeins undirstrika það hér og vekja athygli á því að það eru engir samningar í gildi á milli hins opinbera og þessara aðila, sem taka svona stórar fjárhæðir frá því opinbera í sinn vasa, og það verður að segjast eins og er, að það er ekki gott til þess að vita, að ekki skuli hafa verið gerður greiðslusamningur, fastur samningur um jafnveigamikið atriði og þessi þjónusta er.

Hins vegar segi ég það, að ég tel að það hafi verið sjálfsagt mál að segja upp þessum samningi. Ég ætla að lesa hér smáglefsu úr 5. gr. samningsins sem var í gildi: „Trúnaðartanntæknir skal boða komu sína og semja við tannlækni um hentugan tíma til slíkrar skoðunar“ — og fyrir þann tíma, sem það tók trúnaðartannlækni að rannsaka umrædd gögn, átti viðkomandi tannlæknir að fá tímakaup samkv. taxta. Þetta er aðeins lítið sýnishorn um þetta atriði.

Ég vil segja það hér einnig, að það er mjög slæmt að ekki skuli hafa fengist fram sú sjálfsagða aðstaða, að við heilsugæslustöðvar víðs vegar um landið störfuðu tannlæknar. Þetta hefur ekki fengist. En ég vil vekja athygli á því, að heilsugæslustöðvarnar hafa víða tannlækna, sem betur fer, og veifa þeim alla aðstöðu: húsnæði, tæki og öll áhöld. En þessir tannlæknar taka greiðslur eins og um væri að ræða sjálfstæðan rekstur miðað við starfandi tannlæknastofu sem slíkir aðilar reka t. d. hér á Reykjavíkursvæðinu.

Ég vil einnig benda á það, að í áður gildandi samningum var ákvæði um sjóðsstofnun. Það var gert ráð fyrir að tryggingarnar legðu í sjóð sem svaraði 1% af kostnaði við tannlækningar sem tryggingarnar greiða. Þessi sjóður á að standa undir kostnaði við fræðslu um tannvernd, sem trúnaðarlæknir skipuleggur í samvinnu við heilbrmrn. Þetta var mjög þýðingarmikið atriði að mínu mati, því að auðvitað eru fyrirbyggjandi aðgerðir á þessu sviði það sem er raunhæfast eins og á svo mörgum öðrum heilbrigðissviðum.