24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

328. mál, gjaldtaka tannlækna

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég tel fyllilega tímabært að ræða þetta mál, sem lýtur að greiðslu hins opinbera fyrir viðgerðir á tönnum skólabarna; öryrkja og aldraðs fólks. Ég tel þær umræður tímabærar. En ég vil upplýsa það, að samningaviðræður af hálfu samninganefndar Tryggingastofnunar ríkisins og tannlækna eru komnar á það stig, að við höfum ástæðu til þess að ætla að ekki sé nú ýkjalangt í samkomulag um hvort tveggja, þ. e. kvittanaformið, sem auðveldi eftirlit með tannviðgerðum þessara hópa sem hið opinbera greiðir, og einnig um breytingar á gjaldskránni. Eftir því sem ég best veit hafa viðræður tryggingatannlæknis við forustumenn tannlækna gengið vel og við höfum ástæðu til að ætla að samkomulag náist um þessi atriði.

Ég er ekki þeirrar skoðunar, að við höfum beinlínis ástæðu til að ætla að stéttarfélag tannlækna ellegar forysta stéttarfélagsins hafi verið að reyna að torvelda það, að Tryggingastofnun ríkisins gæti haft eftirlit með að verk væru unnin svo sem reikningur hefur verið fyrir gerður. Ég er hræddur um að hér hafi mál lent í togstreitu, í þvargi, þar sem báðir hafi kannski haft nokkuð til síns máls. Í fyrsta lagi hygg ég að það sé efalaust, að af hálfu tryggingayfirlæknis var að því stefnt að fá reikningsformin eða kvittanaformin þannig úr garði gerð að eftirlitið yrði auðveldað. Það er ekki þar með sagt að gagnaðilinn, tannlæknar, mættu ekki gagnrýna þessar tillögur, setja út á þær, koma með gagntillögur um þetta form, þar sem þeir unnu þetta verk, ef vera mætti að hægt væri að ná eins fullkomnum gögnum til eftirlits með þeim hætti og gert var ráð fyrir í tillögum tryggingatannlæknis.

Þarna var þvargað um framkvæmdaatriði. Tannlæknar buðu sannarlega upp á gögn sem hefðu nægt til þess að hægt væri að tryggja þetta eftirlit með því að leggja í það nógu mikla vinnu. Þeir buðu ljósmyndir af tannkortum, og ef það nægði ekki, þá buðu þeir gifsmót af tönnunum eða munni hlutaðeigandi eins og tennurnar væru fyrir viðgerð og eftir, sem hefði þá kostað talsvert húsnæði fyrir Tryggingastofnunina að geyma slík gögn í, því safnast þegar saman kemur.

Nei, deilan var ekki um þetta. Og við skulum ekki endilega ganga út frá því sem vísu, að þessir dýru starfsmenn sem tannlæknar eru vilji svindla. Þeir eru sjálfsagt eins misjafnir og þeir eru margir, en við skulum alls ekki gefa neitt slíkt í skyn. Ég hef sem sagt ástæðu til þess að ætla að viðræðurnar við tannlækna séu vel á veg komnar af hálfu trúnaðarlækna Tryggingastofnunarinnar og þar sé e. t. v. ekki langt í samkomulag. Og ég ætla að einnig í viðræðum við tannlækna muni það gefast vel, svo sem gert hefur víða annars staðar, að reyna fyrst samkomulag með góðu, hæfilegan tíma, áður en farið er að nota svipuna.