24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

329. mál, heilbrigðisþjónusta

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þess var hvergi getið í þessu þskj., sem ekki er von, að hv. fyrirspyrjandi hefði tvisvar áður borið fram sams konar fsp. Það er gott að ýta á eftir málinu og gott að fá yfirlit yfir það sem gerst hefur í málinu til þessa, eins og hann rakti áðan.

Hann spurði fyrst: Hvenær má vænta útgáfu gjaldskrár um greiðslu sjúkrasamlaga til heilsugæslustöðva fyrir rannsóknir og meðferð veitta á heilsugæslustöð, aðra en læknishjálp, samkv. 20. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 57/1978, tölul. 2?

Fyrrv. heilbr.- og trmrh. skipaði nefnd til að vinna þetta verk, eins og kom fram í fsp. hv. þm. Þessi nefnd skilaði aldrei neinum tillögum og ég leysti hana frá störfum fyrr á þessu ári. Ég fól síðan Kristjáni Guðjónssyni starfsmanni Tryggingastofnunar ríkisins að gera tillögur til mín um þessa gjaldskrá, og ég á von á tillögum frá honum til heilbr.- og trmrn. um gjaldskrána núna fyrir áramót.

Í öðru lagi er spurt: Á hvern hátt fer fram eftirlit og endurskoðun launagreiðslna til lækna og tannlækna sem starfa við heilsugæslustöðvar, skipaðir af ráðh. og taka laun með tvennu móti samkv. 22. gr. laganna a- og b-lið, og hversu víðtæk var þessi endurskoðun 1979 og 1980?

Varðandi a-lið er þar um að ræða föst laun sem menn fá greidd í gegnum launadeild fjmrn. Ég er ekki hér með svar um þessi föstu laun. Það ætti út af fyrir sig að vera auðvelt að afla þeirra upplýsinga, en ég er ekki með þær við höndina. Það væri auðvitað hugsanlegt að bera fram um það sérstaka fsp. eða fresta þá málinu og taka það fyrir síðar. Ég er hér aðeins með þann hluta sem snýr að Tryggingastofnun ríkisins, enda held ég að það sé aðallega það sem hv. fyrirspyrjandi er að inna eftir.

Svar við þessari spurningu er á þessa leið: Viðkomandi sjúkrasamlög inna af hendi greiðslu til heilsugæslulækna á hverjum stað, þegar um er að ræða laun samkv. b-lið 22. gr. laga nr. 57/1978, um heilbrigðisþjónustu. Reikningar læknanna eru greiddir eftir að starfsmenn sjúkrasamlags hafa yfirfarið þá og gengið úr skugga um að þeir séu í samræmi við gildandi gjaldskrársamning. Þar fer því fyrsta eftirlit fram.

Sjúkrasamlög senda Tryggingastofnun ríkisins yfirlit yfir greiðslur til heilsugæslulækna mánaðarlega. Ef reikningar á umræddum yfirlitum virðast óvenjuháir er viðkomandi sjúkrasamlag beðið að senda hlutaðeigandi reikninga til endurskoðunar hjá sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins. Enn fremur senda sjúkrasamlög reikninga til stofnunarinnar til úrskurðar ef þeir virðast torkennilegir á einn eða annan hátt. Þá óskar Tryggingastofnun, ef tilefni er til, eftir teikningum einstakra lækna til athugunar.

Í þriðja lagi hefur verið farið í einstök sjúkrasamlög til eftirlits á greiðslum til lækna og sjúkrastofnana.

Í fjórða lagi annast svo Ríkisendurskoðun endurskoðun reikninga sjúkrasamlaga fyrir hvert ár, bæði tölulega og faglega. Á árunum 1979 og 1980 fór fram allt venjubundið eftirlit og endurskoðun með þessum efnum. Að auki var á árinu 1979 farið sérstaklega til eftirlits í 14 sjúkrasamlög, en á árinu 1980 í tvö sjúkrasamlög. Á árinu 1979 hafði Tryggingastofnunin afskipti af sex heilsugæslulæknum í fjórum sjúkrasamlögum og naut þar atbeina Læknafélags Íslands, en árið 1980 voru á sama hátt höfð afskipti af gjaldtöku eins læknis.

Í þriðja lagi er spurt: Liggja fyrir upplýsingar um hvernig þessi laun til lækna skiptast milli a- og b-liða 22. gr. laga nr. 57/1978 á árunum 1979 og 1980?

Að því er varðar b-liðinn sérstaklega, þ. e. það sem greitt er á vegum Tryggingastofnunarinnar, er þessu til að svara:

Taxtagreiðslur til almennra lækna voru 443 millj. gkr. árið 1979 og 1980 675.8 millj. gkr.

Í fjórða lagi er spurt: Var samningur milli Læknafélags Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins um gjaldskrá fyrir almenna læknishjálp veitta á heilsugæslustöðvum frá 19. mars 1979 gerður með samþykki heilbrmrh., og telst hann í samræmi við lögin um heilbrigðisþjónustu, nr. 57/1978?

Svar við þessari fsp., eins og það kemur frá Tryggingastofnuninni, er á þessa leið, og ég geri þau orð að mínum:

„Samningurinn frá 1979 verður að teljast hafa verið gerður með vitund heilbrmrh. því fulltrúi hellbr.- og trmrn. á sæti í samninganefnd hins opinbera við lækna og tók þátt í samningaviðræðum á umræddum tíma. Þá verður ekkert séð í þessum samningi sem brýtur í bága við lög nr. 57/1978, um heilbrigðisþjónustu.“

Í fimmta lagi er spurt: Hefur Tryggingastofnun ríkisins gert sérstakan samning við Læknafélag Íslands um að Læknafélagið annist reglulegt eftirlit með reikningsgerð lækna samkv. gjaldskrám, og um skipan gerðardóms er skeri úr ágreiningi, sbr. bókun er fylgdi samningsgerð frá 19. mars 1979?

Svarið er á þessa leið: Læknafélag Íslands hefur tjáð sig reiðubúið til að taka upp í samning sams konar ákvæði um eftirlit með reikningsgerð heilsugæslulækna og nú er að finna í samningi um sérfræðilæknishjálp frá 1978 milli Læknafélags Reykjavíkur annars vegar og Sjúkrasamlags Reykjavíkur og Tryggingastofnunar ríkisins fyrir hönd annarra sjúkrasamlaga hins vegar, en þar er sérstakri nefnd, sem skipuð er læknum frá báðum samningsaðilum, veittur aðgangur að reikningum lækna, sjúklingabókhaldi og sjúkraskrám. Hvílir á nefndinni að kanna reikningsgerð a. m. k. 15 sérfræðinga á ári. Verður væntanlega tekið inn sams konar ákvæði í nýjan samning við Læknafélag Íslands um almenna læknishjálp veitta á heilsugæslustöðvum, en samningaviðræður þar um eru nú að hefjast.

Ég vænti þess, herra forseti, að ég hafi svarað svo sem kostur er á þeim fsp. sem beint hefur verið til mín.