24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

329. mál, heilbrigðisþjónusta

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti.

Ég þakka hæstv. heilbrmrh. fyrir þessi svör. Að vísu hefði verið æskilegt að fá fyllri svör í sambandi við launamálin, samkv. bæði a- og b-lið, en við því er ekkert að segja. Það er sjálfsagt hægt að afla þeirra upplýsinga með öðrum hætti. Það hefði gert málið athyglisverðara ef fengist hefði töluleg stærð þessa í þessum svörum, en ég geri það ekki að aðalatriði.

Mér finnst eðlilegt að undirstrika að hér er um stórmál að ræða. Þeir samningar, sem í gildi hafa verið milli Læknafélags Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins, eru þess eðlis, að þeir hljóta að verða sífellt í endurskoðun. Hér er um slíkt stórmál að ræða að það verður að ætlast til að svo sé

Ég vil í framhaldi af þessu geta þess, að það er ákaflega ríkt í hugum margra sveitarstjórnarmanna, sem eiga að hluta til að sjá um rekstur heilsugæslustöðva í landinu, að sá mikli aðstöðumunur, sem er ríkjandi, eins og ég gat um fyrr í þessum umr., verði með einhverjum hætti jafnaður. Ég tel nauðsyn bera til að ljúka sem fyrst endurskoðun á heilbrigðislöggjöfinni, nr. 57/1978, og tel að til þess að ná þeim jöfnuði, sem ég hef hér minnst á, sé ekki um annað að ræða en taka þar viss atriði til endurskoðunar og reyna að taka um leið alla samninga til endurskoðunar í sambandi við þessi mál við læknastétt landsins. Á því er nauðsyn. Ég tel t. d. að það þurfi að breyta 20. gr. laganna að því er varðar starfslið heilsugæslustöðva, þ. e. að ríkissjóður greiði laun alls sérhæfðs starfsfólks, en svo er ekki nú. Þar er aðeins um að ræða laun lækna og hjúkrunarliðs að hluta til. Einnig kemur að sjálfsögðu til athugunar hvort ekki á að breyta aðstöðu eða greiðslufyrirkomulagi í sambandi við sjúkrasamlögin að því er varðar heilsugæslustöðvarnar. Þetta er að vísu stærra mál en hægt sé að ræða hér í fsp.-tíma, en ég endurtek þakkir fyrir þær upplýsingar sem hér hafa komið fram. Í mínum huga er hér um stórmál að ræða.