24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

337. mál, nýjar kjarnorkueldflaugar í Evrópu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það hvarflaði að mér rétt á meðan hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var að flytja tölu sína áðan, um borð í hvers konar skipi hann hefði sofið nýlega eina nótt. Það þarf náttúrlega ekki að spyrja að því, um borð í hvers konar skipi hv. þm. Finnur Torfi Stefánsson hafi sofið nýlega. (Gripið fram í.) Ég hef grun um að það hafi verið nautgripaflutningaskip.

Ég kem hér upp í ræðustól m. a. vegna þess að ég vil vekja athygli hv. þm. Finns Torfa Stefánssonar á því, að hv. þm. Ólafur Ragnar hafði þegar talað tvisvar þegar hv. þm. bar fram þessar grundvallarspurningar sínar til hans, þannig að hann hlýtur að búast við svari í hliðarherbergi hér á eftir samkv. þingsköpum. En meginerindi mitt í ræðustólinn er að taka undir fsp. hv. þm. Eiðs Guðnasonar til hæstv. utanrrh. Hann bar fram ákaflega þýðingarmikla fsp. sem kom sannarlega þessu máli við. Ég vil taka undir þessa fsp., hvort hæstv. utanrrh. sé kunnugt um að gerðar hafi verið sams konar athuganir og frá er greint í Dagens Nyheter s. l. laugardag á því, með hvaða hætti eða hvort sovéskum kjarnavopnum sé beint að Íslandi og þá í hvaða magni. Þetta eru ákaflega þýðingarmikil atriði þegar við erum að ræða um öryggismálin og þau málefni sem lúta að kjarnorkuvopnalausum Norðurlöndum. Og ég vildi þá aðeins bæta við einni spurningu í viðbót: Hafa farið fram nokkrar rannsóknir eða athuganir á því, með hvaða hætti við getum bægt hættunni af völdum sovéskra kjarnaeldflauga frá Íslandi, með hvaða hætti við getum komið í veg fyrir að slíkum vopnum yrði skotið á íslensk byggðarlög ef til styrjaldar kæmi?