24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

337. mál, nýjar kjarnorkueldflaugar í Evrópu

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það kemur greinilega fram af þeim fsp. sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur flutt hér, að hann hefur engar áhyggjur af kjarnavopnum Sovétríkjanna, því að fsp. eru einhliða um afvopnun vesturveldanna. Þetta er athyglisvert og ber vitni um sams konar málflutning og ýmsir nytsamir sakleysingjar á Vesturlöndum hafa tamið sér og er eingöngu í þágu málflutnings Sovétríkjanna.

Ég vil líka vekja athygli á því, að 1. málsl. fsp. er óþarfur, með tilvísun til fréttatilkynningar ríkisstj. í des. 1979. Núv. ríkisstj. er mynduð eftir að sú fréttatilkynning birtist. Alþb.-menn, þ. á m. hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sáu enga ástæðu til að gera neinn fyrirvara um þessa fréttatilkynningu og afstöðu Íslands í NATO varðandi kjarnaeldflaugar í Evrópu við myndun núv. ríkisstjórnar. Þess vegna ber hv. þm. og Alþb. jafna ábyrgð og ríkisstj. í heild og Alþingi og Íslendingar almennt á þessum ákvörðunum.

Ég vek enn fremur athygli á því, að fram kom í svari hæstv. utanrrh. að málið hefði alls ekki verið rætt í ríkisstj. Alþb.-menn í ríkisstj. hafa alls ekki talið málið það mikilvægt að ástæða væri til að hefja máls á því í ríkisstj. Ber það vissulega vitni um látalæti og yfirdrepsskap þeirra Alþb.-manna.

Síðast vildi ég aðeins ítreka og beina þeirri fsp. til Ólafs Ragnars Grímssonar, hver afstaða hans er til tilboðs Reagans Bandaríkjaforseta. Finnst honum ekki það tilboð sanngjarnt? Finnst honum ekki eðlilegt að jafnhliða því, að vesturveldin hætta við allar áætlanir um að koma upp kjarnaeldflaugum á sínu landssvæði, þá taki Sovétríkin niður allar slíkar eldflaugar þannig að Evrópa verði laus við þessi voðavopn? Ég held að svar hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar við þessari fsp. leiði í ljós hvort hann sé í raun og veru friðarsinni eða ekki. Ef það er jákvætt, þá hygg ég að hann eigi að beina fyrst og fremst áhrifum sínum og skeytum til austantjaldslandanna. Það má vel vera, að hann hafi þau sambönd í þá átt sem geri það að verkum að orð hans komist til skila, þótt ég dragi í efa að valdhafar þar austur frá taki mikið mark á þeim.