24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

337. mál, nýjar kjarnorkueldflaugar í Evrópu

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hv. 11. þm. Reykv. að Ísland verði bundið við ákvarðanir annarra og beri ábyrgð á þeim. Eins og ég tók fram í svari mínu áður þarf samþykki eða að bandalagsríki sætti sig við til þess að það verði bundið. Bandalagsríki hefur sem sagt neitunarvald.

Ísland hefur sérstöðu í bandalaginu og það er tekið fram skýrt og skorinort. Það tekur ekki þátt í herforingjanefndinni, þar sem eingöngu sitja herforingjar, og tekur ekki þátt í þeim undirbúningi sem þar fer fram. Hins vegar taka fastafulltrúarnir þátt í þeim undirbúningi sem fram fer fyrir fund utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra. Ég held að þetta liggi nokkuð ljóst fyrir.

Það gleður mig að heyra að hv. þm. er mér sammála um að mikill fengur sé að því að hafa fengið fram þessar tillögur Reagans forseta. Það þarf ekki endilega að gera ráð fyrir að þær verði kokgleyptar strax, en þær eru áreiðanlega skref í rétta átt og geta orðið að góðu liði til þess að tryggja friðinn í Evrópu ef skynsamlega verður á málum haldið. En auðvitað verða menn að hafa nokkra þolinmæði, viðræður á milli þessara risavelda geta tekið sinn tíma. En það er að sjálfsögðu mjög þýðingarmikið í þeim, að menn greini á milli aðalatriða og aukaatriða. Í þessu sambandi eru SS-20 eldflaugarnar aðalatriðið, en ekki SS-4 og SS-5 sem hafa að vísu að einhverju leyti verið nefndar líka.

Ég er ekki reiðubúinn hér og nú að svara þeim fsp. sem fram komu frá hv. þm. Eiði Guðnasyni og hv. þm. Stefáni Jónssyni. Það er málefni sem er rétt að tala um með vissri gát. Ég segi fyrir mig: Ég vil ekki vera með neinar getgátur um það að neitt ríki beini kjarnaoddum sínum að Íslandi.

En aðeins í framhaldi af því, sem ég var að segja áðan um tillögur Reagans og spurninguna um mat á þeim og friðarhreyfingum, vil ég taka þetta fram: Eins og ég sagði áðan efast ég ekki um góðan vilja þess fólks — eða a. m. k. þorra þess fólks sem stendur að þessum friðarhreyfingum. En það, sem gæti verið neikvætt í sambandi við friðarhreyfingarnar, er að þær gætu hugsanlega komið inn þeirri hugmynd hjá Sovétríkjunum og leiðtogum þeirra, áður en þeir setjast að samningaborði, að Vestur-Evrópa væri sjálfri sér eitthvað sundurþykk í þessum efnum. Ég hygg að það væri mikill misskilningur, að leggja þann skilning í þetta, vegna þess að ég hygg að Vestur-Evrópa sé einhuga yfirleitt um að hún vill afvopnun. En hún vill ekki einhliða afvopnun heldur gagnkvæma afvopnun. Og með slíkri gagnkvæmri afvopnun einni er nokkur trygging fengin fyrir friði.