24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

337. mál, nýjar kjarnorkueldflaugar í Evrópu

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég heyrði ekki betur áðan en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson afsakaði þá Alþb.-menn í ríkisstj., við ríkisstjórnarmyndun og síðan ríkisstjórnarsetu, að hafa engar athugasemdir gert við fréttatilkynningu ríkisstj. frá des. 1979 og hefja ekki máls á þessu viðamikla máli síðan í ríkisstj., — hann afsakaði aðgerðar — og athafnaleysi þeirra Alþb.-manna með því, að ég hefði kveðið upp úr um það, að Alþb.menn ættu ekkert að vera að skipta sér af varnar- og öryggismálum Íslands. Mér þykir ákaflega vænt um að Alþb.-menn fara svona vel eftir þeim lífsreglum sem ég set þeim. Ég tel það bera vitni um og vera tilefni til þess að menn geti gert sér vonir um að þeir viti hvað til síns friðar heyri.

Á hinn bóginn verð ég þó að segja það, að auðvitað hafa Alþb.-menn allt of mikil áhrif í öryggis- og varnarmálum landsins með því að torvelda ýmsar nauðsynlegar framkvæmdir eins og byggingu flugstöðvar og byggingu eldsneytisgeyma, þótt þeir hafi á hinn bóginn kyngt ýmsum öðrum framkvæmdum eins og hefur komið fram í þessum umr.

Að lokum vil ég aðeins ítreka og undirstrika það, að það er einkennilegur friðarhugur eða friðarsinni, sem tekur ekki heils hugar undir það tilboð frá öðru stórveldanna, frá Reagan Bandaríkjaforseta, að hann og hans land skuli algerlega hætta við að setja kjarnaeldflaugar upp í samvinnu við önnur vesturveldi í Evrópu gegn því að eldflaugar, sem settar hafa verið upp austantjalds, verði gerðar óvirkar. Ég hefði haldið að takmark okkar væri ekki eingöngu kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd, heldur kjarnorkuvopnalaus Evrópa og helst kjarnorkuvopnalaus heimur. Menn ættu að sameinast til að ná sem lengst á þeirri braut, en ég dreg í efa að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson taki af heilum hug þátt í því þegar hann vill ekki taka undir það merkilega og stórhuga tilboð til afvopnunar sem Bandaríkjaforseti tilkynnti í ræðu sinni á dögunum.