24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

338. mál, aðild Íslands að kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil, vegna þess að hv. þm. Kjartan Jóhannsson furðar sig á því, hvers konar menn það séu á Norðurlöndum sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson tali við og komist að þeirri niðurstöðu af tali þeirra að þeir dragi í efa að Íslendingar verði með í alvarlegum umræðum um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum þar sem þeirra land yrði innifalið, aðeins upplýsa að ég hef heyrt jafnaðarmenn, þ. á m. þm. úr jafnaðarmannaflokkunum á Norðurlöndum, lýsa yfir að þeir telji vafasamt að Íslendingar treysti sér til þess að vera með þarna eða íslensk stjórnvöld vegna þeirra tengsla, sem landið standi í við Atlantshafsbandalagið, og vegna amerísku herstöðvarinnar, og þeir bera þm. Alþfl. fyrir því.

Við þurfum ekki að undrast út af fyrir sig annars konar viðbrögð hv. þm. Alþfl. hér á Íslandi við hugmyndunum um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og hversu frábrugðin þau eru því forustuhlutverki sem ýmsir af stjórnmálaleiðtogum jafnaðarmannaflokkanna á Norðurtöndum hafa tekið að sér í baráttu fyrir kjarnorkuvopnalausu svæði, beinlínis vegna þess að þeir menn virðast hafa önnur viðhorf til þessara vandamála og vera á allt annan hátt hugmyndafræðilega tengdir inn í þessi mál en þm. Alþfl. á Íslandi. Ég vil nefna dæmi um „pósitíft“ viðhorf og eðlilega spurningu sem borin hefur verið fram af þm. Alþfl. á Íslandi varðandi þessi mál fyrir skemmstu. Ég hygg að við hljótum að ræða það mál, sem hér liggur fyrir, í tengslum við þá hugmynd sem þar kom fram. Hann spurði ekki hæstv. utanrrh. hvort hann teldi að beint væri kjarnaeldflaugum erlendis frá að Íslandi. Hann spurði hvort gerð hefði verið könnun á því, hvort slíkum vopnum væri beint gegn Íslandi. Við þurfum að afla okkur upplýsinga þegar við ræðum þessi mál, allra þeirra sem við eigum kost á, draga ályktanir af niðurstöðum þeirrar könnunar, sem gerð er, með hvaða hætti við getum best komið fyrir okkar eigin öryggismálum, öryggi okkar eigin lands, og að slíkum óyggjandi upplýsingum fengnum setjast niður, þm. allra flokka, og ræða þessi mál. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt: Ég er alveg ugglaus um að hver einasti okkar hv. alþm. muni taka þá afstöðu til þessara mála sem hann telur helst til þess fallna að tryggja öryggi þessarar vesalings þjóðar á válegum tímum.