24.11.1981
Sameinað þing: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

38. mál, fangelsismál

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil, eins og aðrir þeir sem hér hafa talað, fagna þessari till. til þál. og lýsa yfir fyllsta stuðningi við hana.

Það er auðvitað svo, að sögur eins og þær, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði áðan, eru því miður bæði ótrúlegar og allt of algengar. En þó finnst mér vanta inn í eitt verulegt aðalatriði í þessum efnum, og það er, að hvaða skoðanir sem menn kunna að hafa á refsingum, á beitingu innilokunar, og hvort sem menn telja slíki nauðsynlegt eða nauðsyn til stefnubreytingar, þá er hitt engu að síður staðreynd, að seinvirknin í réttarkerfinu sjálfu þ. e. tíminn sem líður frá því að afbrot er framið og þangað til dómur er kveðinn upp, er hér oft svo óhugnanleg að það er kannske hún fyrst og fremst sem veldur því, að slík mál verða að hreinum harmleikjum miklu oftar en ella mundi vera. Í þeirri sögu, sem er auðvitað ægileg, sem hv. þm. segir hér af einum tilteknum einstaklingi, finnst mér kjarni málsins vera sá, að það líða þrjú ár frá því að afbrotið er framið og þangað til dómur er kveðinn upp. Síðan líður sennilega vel ár þangað til dómurinn er fullnustaður. Alls er þetta hátt á fjórða ár. Hvernig á einstaklingur, sem kannske 18 ára gamall hefur framið afbrot, að skilja það eða þykja það vera réttlátt þjóðfélag yfir höfuð að tala sem fjórum árum seinna, þegar allir hagir viðkomandi kunna að hafa gerbreyst, hann kann að vera orðinn fjölskyldumaður og allir hagir bókstaflega með öllu hafa gjörbreyst, — þegar þjóðfélagið þá fyrst kemur og vill að hann taki út refsingu?

Sannleikurinn er sá, að um þetta eru ótrúlega mörg dæmi frá umliðnum árum og hvernig samfélagið með þessum hætti hefur brotið niður einstakling eftir einstakling. Kjarninn í þessum efnum er hinn óhugnanlega langi tími sem líður frá því að afbrotið er framið og þangað til dómurinn er kveðinn upp, 18 ára maður, sem afbrotið fremur, er orðinn 22 ára þegar hann á að fara að afplána. Ég þekki um þetta dæmi eftir dæmi. Ég held að verulegur hluti þessa sjúkdóms, því sjúkdómur er þetta, liggi í þessari staðreynd. Og sannleikurinn er sá auk þess, að þangað til fyrir nokkrum árum tók við annar eins ólestur að því er varðaði fullnustu dómanna, annar eins tími leið og jók mjög á eða tvöfaldaði þann óendanlega harmleik sem þetta var einstaklingum.

En hitt vil ég segja, að þessu var breytt á árinu 1978 með breytingum og nýju starfsfólki í dómsmrn. Þar á hlut að máli sá embættismaður, sem hv. 7. þm. Reykv., að minni hyggju mjög ómaklega, vék að áðan. Þær breytingar miðuðu þó þrátt fyrir allt að því, að það, sem bæri að fullnusta að réttum lögum, væri gert. Mér finnst ekki hægt héðan úr ræðustól á Alþingi að ráðast að tilteknum embættismanni fyrir það eitt að hafa unnið eftir lögum og undir ráðh. Sé að einhverjum að ráðast er það auðvitað þeim sem setja lögin eða þá ráðherranum, því að hann ber auðvitað ábyrgðina á framkvæmdinni sé að henni að finna.

En rótin, hygg ég, að þessari sögu, sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagði hér alveg réttilega, — og mér er fullkunnugt um það, eins og hann sagði réttilega, að hægt hefði verið að segja miklu verri sögur en þá sem hann sagði, — rótin er sú, að það líður allur þessi tími frá því að afbrotið er framið og þangað til viðkomandi á að taka út sína refsingu. Hvaða skoðun sem við höfum á því, hvort refsingin sé rétt eða röng, mannúðleg eða ómannúðleg,þá má segja enn og aftur: Hvernig á maður, sem er ungur og óbeislaður á þeim tíma sem þessi gjörð er framin, þegar allir hans hagir hafa breyst og hann er orðinn margra barna faðir, fjölskyldumaður og það allt saman, að bregðast við? Það er þarna sem hefur gerst harmleikur eftir harmleik í þessum efnum.

Hvað sem má segja jók það á þetta vonda ástand, að framkvæmd fullnustunnar var meira og minna öll í molum, en það var lagað. Ég hygg að það hafi verið í marsbyrjun 1978 sem því var kippt verulega í lag. Ef áhugi manna að því er framkvæmdir varðar, sem er auðvitað margflókið mál, mundi beinast að því að hraða málum í gegnum dómskerfið þannig að sem allra stystur tími liði frá því að afbrotið er framið og þangað til að refsing fer fram, hver svo sem hún er, og það er auðvitað hægt að hafa á því margar skoðanir, þá væri komið í veg fyrir margan harmleikinn af þessu tagi. Auðvitað er rétt hjá hv. 7, þm. Reykv. að það er bókstaflega óþolandi að horfa upp á það sem gerst hefur í þessum efnum og oft á viðkvæmasta aldursskeiði fyrir þá einstaklinga sem hlut eiga að máli.

Það eru auðvitað fjölmörg atriði sem til álita koma fyrir þessa nefnd, og ég held að sú umræða, sem orðið hefur í sumar og síðan, ekki síst fyrir tilstuðlan séra Jóns Bjarmans fangaprest, hafi að öllu leyti verið af hinu góða.

Í fyrsta lagi er það auðvitað veigamikið verkefni fyrir þessa nefnd að velta því fyrir sér: Getur verið að sú grundvallarheimspeki, sem refsilöggjöf okkar og refsiaðferð hvílir á, sé röng og í a. m. k. mjög mörgum tilfellum eigi innilokun alls ekki við? Það má vel vera að svo sé.

Í annan stað er áreiðanlegt að það er meiri háttar vandamál, sem að hluta til má auðvitað rekja til fámennis hér, að í íslenskum fangelsum og þá einkum á Litla-Hrauni úir og grúir af mjög ólíku fólki, allt frá fólki, sem framið hefur afbrot af andstyggilegasta tagi, og allt frá vanheilbrigðu fólki af ýmsum sortum og gerðum til óharðnaðra unglinga. Það hlýtur auðvitað að vera svo, að umhverfið, sem myndast við þessar aðstæður, hafi mjög spillandi áhrif á þetta yngra og óharðnaða fólk sem hefur framið afbrot sem við köllum ekki alvarleg á venjulegu máli a. m. k. Út af fyrir sig er áreiðanlega meiri háttar nauðsynjamál að flokka afbrot meira. innilokanir og fangelsi eru yfir höfuð að tala auðvitað ómannúðleg eðli málsins samkvæmt. Það er alla vega svo, að það hlýtur að vera mjög skaðlegt að hafa þar annars vegar afbrotafólk af versta tagi og hins vegar fólk sem framið hefur afbrot sem eru af allt öðrum toga spunnin. En það sem líka skiptir máli í þessum efnum, og því lýsti reyndar hæstv. ráðh. áðan, er að það bókstaflega verður að skilja það fólk frá sem er sjúkt af einhverjum ástæðum, annars vegar fólk, sem á við áfengisvandamál að etja, og hins vegar fólk, sem er geðveikt í einhverjum skilningi orðsins. Margt af því fólk á alls ekki heima í fangelsum, heldur á heima í allt annars konar stofnunum. En hitt er verra, og ég þykist hafa nokkuð fyrir mér þegar ég segi það, að áhrif þess konar fólks á umhverfið, á fanga sem eru lokaðir inni á öðrum forsendum og af öðrum ástæðum, hljóta auðvitað að vera mjög neikvæð og brjóta fangana niður og gefa þeim rangar hugmyndir um sjálfa sig og það líf sem lifa skal.

Í þriðja lagi hefur það verið nefnt hér líka, að menntunaraðstaða fanga er auðvitað ákaflega mikils virði. Það er væntanlega eitt af því sem sú nefnd, sem ég hygg að allir hér séu sammála um að skipuð skuli, ætti að taka til athugunar.

Kjarni þessa máls og það, sem þessi nefnd væntanlega kemur til með að velta fyrir sér fyrst og síðast, er að það kann að vera að við séum að því leyti á rangri braut að við beitum innilokun of mikið eða í öllu falli gefum ekki nóg tækifæri áður en slíkri aðferð er beitt. Fari svo, að nefndin komist að slíkri niðurstöðu og breyti um stefnu að nokkru í þessum efnum, — þetta verður auðvitað að skoða mjög vel, — kann vel að vera að slíkt sé alfarið af hinu góða.

En ég vil enda þar sem ég byrjaði. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson og ég gætum, og við mörg hér inni sennilega, sagt margar og ljótar sögur af því tagi sem hann sagði. Allt leiðir þetta eðlilega og réttilega til þess að menn velti fyrir sér kostum og miklu fremur löstum á því refsikerfi sem við búum við. Annar helmingur vandamálsins liggur hins vegar í réttarkerfinu sjálfu og liggur í þeim tíma sem það tekur fyrir mál að fara þar í gegn. Þegar menn velta fyrir sér réttarkerfinu sjálfu mega menn ekki eingöngu horfa á og spyrja um embættismennina, dómarana sem þar sitja, og hvað þeir geti og geti ekki, hvernig aðstaða sé og annað slíkt, heldur verða menn að horfa á þolendurna. Og hverjir eru þolendurnir? Það er fólkið sem verið er að dæma í þessu kerfi. Ég hygg að sá einstaklingur, sem hér var nefndur áðan, og tugir annarra hefðu sætt sig miklu betur við dómsniðurstöðu ef tíminn hefði verið miklu skemmri sem liðið hefði, enda hefði þá viðkomandi verið kvittur við þjóðfélagið fyrir 31/2 ári og hans máli lokið. En það gerðist ekki. Þetta tók þrjú ár og á fjórða ár með fullnustunni. Það er við þær aðstæður sem viðkomandi aðstandendur, eiginkona sem komið hefur í millitíðinni, og tvö börn, eins og hér var lýst, skilja ekki. Þar gerist það að réttlæti þjóðfélagsins hefur snúist í argasta ranglæti, þó svo að engum reglum hafi verið breytt og ekkert hafi breyst nema það eitt að þetta var gert á röngum tíma, allt of seint.

Mér finnst að í allri þessari umræðu verði menn að horfa meira til þessa þáttar. Áður en að refsingunni kemur hefur verið framið afbrot, en í millitíðinni hefur liðið tími sem um afbrotið hefur verið fjallað í kerfinu sjálfu. Því lengri tími sem líður þarna á milli, því lengri í raun verður refsitími einstaklingsins sem hlut á að máli. Það eru 3 ár í því dæmi sem hv. þm. nefndi. Það eru til sögur af miklu lengri tíma, 4 árum, — 7 árum man ég eftir í einu dæmi í þessum efnum. Þarna hefur réttlæti þjóðfélagsins snúist í hið viðurstyggilegasta ranglæti. Það er þarna kannske frekar en í sambandi við fullnustuna sem ranglætið er að finna, því að það má segja með miklum rétti að þau mál séu í mun betra ástandi en þau voru fyrir ekki mörgum árum. En því miður hefur ferillinn í réttarkerfinu fram að þeim tíma orðið andstyggilega langur. Valdsmenn hafa því miður haft allt of mikla tilhneigingu til að spyrja: Hvað geta dómararnir, hvað getur kerfið gert? Það er horft á þá sem þolendur í þessu máli, en þolendur eru auðvitað ekki kerfið. Þolendur eru einstaklingarnir, hverra refsing er framlengd um ár eftir ár með þessum hætti.