24.11.1981
Sameinað þing: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

38. mál, fangelsismál

Jón Sveinsson:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa ánægju minni með þá till., sem hér liggur frammi. Öll athugun og úttekt af því tagi, sem hér um ræðir, hlýtur að vera af því góða. Athugasemdir hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, sem við höfum hlýtt hér á, eru vissulega sumar hverjar réttar, en ég verð þó að segja, að ég held að aðrar séu nokkuð ýktar og sumar hverjar beinlínis rangar.

Við þekkjum mörg dæmi þess, að seinagangur í dómsmálakerfinu er þess valdandi að menn ná ekki að hljóta refsiúttekt nægilega fljótt. Má segja að þar sé e. t. v. að finna meginástæðuna fyrir þeirri till. sem hér er flutt. Hins vegar þekki ég líka tilvik af því tagi að föngum eða aðilum, sem hlotið hafa fangelsisdóma, hafa að eigin ósk verið gefinn kostur að bíða úttektar af hálfu dómsmrn. Refsiúttekt hefur því verið frestað og frestað æ ofan í æ. Loksins þegar að úttekt hefur komið og ekki hefur verið unnt að fresta málinu öllu lengur er komin upp sú staða, sem kom fram í máli hv. þm. Guðmundar J. o. fl., að viðkomandi aðili hefur hafið búskap, hjúskap o. s. frv. Það er því ekki alltaf um það að ræða, að dómsmálakerfinu sjálfu sé um að kenna, heldur eiga þarna stundum hlut að máli einstaklingarnir sjálfir. Það er því stundum verið að fara eftir þeirra eigin óskum í upphafi og þegar loksins kemur að því að framkvæma þarf þau lög, sem Alþingi hefur sett og alþm. hljóta að ætlast til að sé framfylgt, þá stöndum við frammi fyrir þessari staðreynd. Þá geta þeir starfsmenn ráðuneyta og annarra stofnana, sem með þessi mál eiga að fara, því miður ekki gert annað en að fullnægja lögum á þennan hátt. Þess vegna finnst mér þær fullyrðingar, sem hér hafa komið fram, alls ekki sanngjarnar gagnvart starfsmönnum dómsmrn. og þeirra stofnana sem hér eiga hlut að máli. Þetta eru fyrst og fremst einstaklingar, eins og hv. þm. Vilmundur Gylfason minntist á, sem eru að gegna sínum störfum, væntanlega eftir bestu samvisku, og því er alls ekki við þá að sakast.

Meginástæðurnar fyrir því, að þetta ástand ríkir sem við stöndum nú frammi fyrir, eru e. t. v. þrenns konar: Í fyrsta lagi held ég að þjóðfélagið hafi alls ekki verið undir það búið að taka við þeim stórauknu refsingum, sem hér hafa átt sér stað í seinni tíð, og þeim stóraukna fjölda afbrota, sem hér hafa komið upp. Ég held að fullyrða megi að aldrei hafi verið vistaðir á Litla-Hrauni eins margir stórafbrotamenn, ef við getum orðað það svo, og á sér stað. Þar af leiðandi hlýtur að mega finna nokkra ástæðu þess, að við eigum við það vandamál að etja sem hér hefur verið gert að umræðu.

Í öðru lagi þykir mér rétt að benda hér á að ríkisvaldið hefur alls ekki brugðist nægilega skjótt við þeim vanda sem unglingar standa frammi fyrir þegar þeir leiðast út á refilstigu afbrota, ef svo má orða það, því að það eru nánast engar stofnanir sem ríkisvaldið hefur beinlínis komið á fót til að leiða unglinga út af afbrotastigum. Það hafa að vísu verið gerðar tilraunir í þessa átt, en ég leyfi mér að fullyrða að þær ná til ákaflega takmarkaðs fjölda og koma t. d. að sáralitlum notum víðast hvar á landsbyggðinni þó að þær nái til nokkurs fjölda einstaklinga hér í Reykjavík. Þannig má segja að undirrótin að þessum efnum liggi í því, að ekki hefur verið sinnt upphafinu, unglingum sem lenda í því á aldrinum 13–16 ára að leiðast út í afbrot. Ef okkur tekst að leiða slíka unglinga af afbrotabrautinni er e. f. v. von til að okkur takist betur á öðrum stigum.

Í þriðja lagi vil ég geta þess, að samstarf á milli dómsmálayfirvalda og geðlækna, t. d. hér á Kleppssjúkrahúsinu og annars staðar, er alls ekki nægilega gott. Er ástæða til að velta því fyrir sér í alvöru í þessu sambandi, hvernig þeir sjúklingar eða fangar, sem eiga við geðræn vandamál að etja, eru staddir í dag. Ég vil leyfa mér að fullyrða þetta, því að á Kleppssjúkrahúsinu er yfirleitt alls ekki tekið við föngum sem sæta þurfa t. d. geðrannsókn, heldur er að kröfu lækna þar beinlínis farið fram á að þeir séu vistaðir í fangageymslum eins og Síðumúlafangelsi eða öðrum slíkum stofnunum. Þarna skortir því verulega á að betur sé á haldið.

Ef þessi till. nær fram að ganga er sannarlega von mín að á þessu öllu verði tekið í heild, því að til þess er full ástæða. Ég lýsi því fyllsta stuðningi mínum við tillöguna.