24.11.1981
Sameinað þing: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

38. mál, fangelsismál

Albert Guðmundsson:

Forseti. Ég vil eins og hv. þm., sem hér hafa talað á undan mér, lýsa stuðningi við þá þáltill. sem hér er á dagskrá, 38. mál. Ég vil undirstrika það, sem kemur fram í grg., að hér er um viðkvæman og vandmeðfarinn málaflokk að ræða þar sem oft vill verða skammt öfga á milli. Ég skal reyna að falla ekki í þá gryfju að tala hér með neinum öfgum. En í grg. segir líka, með leyfi forseta: „Heildarumræða um alla þætti fangelsismála, vandamálin þar og framkvæmd yfirleitt, hefur ekki farið fram á þingi og hafa þó oft gefist til þess ástæður.“ Þetta vil ég allt undirstrika og benda á að þingheimur hefur ekki staðið sig hvað þennan málaflokk snertir. Ég vil undirstrika að þessi málaflokkur á að fá raunsæja skoðun og umr. hér á Alþingi. En ég held að þær umr. ættu frekar heima í nefndum en mjög opinskáar umr. um þennan viðkvæma málaflokk á opnum fundum Alþingis. Það er margt sem þarf að koma fram en ekki er hægt að segja fyrir framan blaðamenn og aðra sem bera þjóðinni fréttir héðan. Þau atriði gætu kannske orðið til þess að málunum yrði komið í það horf sem við viljum sem löggjafar að þau séu, en gætu sært og kannske orðið vopn gegn góðum málflutningi á opnum fundi og í höndum blaðamanna sem klippa þá kannske þær setningar úr sem helst vekja athygli úti á meðal fólksins.

Ég vil taka undir margt af því sem kom fram hjá hv. 7. þm. Reykv. Við höfum tekið að okkur erindi ýmissa aðila, bæði Reykvíkinga og annarra, en því miður hafa ekki öll mál, sem við höfum tekið að okkur, verið afgreidd á þann hátt sem við óskuðum eftir. Ég segi: því miður, vegna þess að við höfum kannske fallið í þá gryfju að hugsa of mikið með hjartanu, láta tilfinningarnar kannske ráða okkar gerðum og okkar málflutningi þegar við komum á fund manna sem fara bókstaflega eftir því sem Alþingi hefur samþykkt, sem sagt landsins lögum, og hafa út af fyrir sig ekki heimild til að starfa öðruvísi en þeir starfa. Þá tala ég auðvitað sérstaklega fyrir mig, ég er afskaplega óánægður með þær undirtektir, en þeir menn, sem ég hef talað við, verða að fara eftir settum reglum, og ég er kannske á vissan hátt að biðja þá um að brjóta þær reglur. Þeir starfa eftir fyrirmælum, eftir lögum, en ég fer eftir erindi sem mér berst, og ég þekki þá kannske heimilisaðstæður þeirra sem eru að tala við mig hverju sinni. Þar er afskaplega mikill munur á. Annars vegar er embættismaðurinn, sem verður að fara að settum reglum, og hins vegar alþm. eða erindreki, sem fer eftir sínum tilfinningum og þekkir heimilisaðstæður — við skulum segja í þessu tilfelli: dæmdra manna. Ég verð þó að segja að hæstv. dómsmrh. hefur ávallt tekið málaleitan minni vel, stundum hef ég verið mjög ánægður með afgreiðslur, en í önnur skipti óánægður, eins og gengur og gerist.

Ég hef í mörgum tilfellum verið beðinn um að heimsækja fangelsi. Ég hef verið beðinn um að koma að Litla-Hrauni og eiga þar viðtöl við fanga. Ég hef verið þar með viðtalstíma. Það er nokkuð langt síðan ég var þar síðast ásamt hv. 7. þm. Reykv. Ég vil taka undir það, að starfsfólk á Litla-Hrauni hefur á sér mjög gott orð fyrir heiðarleika og þykir vera samstarfsgott við hina innilokuðu. Ég hef spurt þar fanga í einrúmi í viðtalstímum um ýmislegt sem snertir starfsemina fyrir austan, og ég hef ekki undan starfsfólki á Litla-Hrauni að kvarta, en ég þekki ekki önnur fangelsi.

En það er eitt sem er sláandi og situr afskaplega fast í mér eftir þessar mörgu heimsóknir mínar austur, að ég er sannfærður um að margir af þeim, sem dæmdir eru, sérstaklega fyrir minni háttar brot — og minni háttar brot eru mörg, þurfa að þola meira en ástæða er til miðað við þau afbrot sem þeir hafa framið, og það verð ég að segja að á ekki að eiga sér stað. Afbrot, þ. e. brot á lögum, eru ekki í öllum tilfellum glæpir. En í okkar litla þjóðfélagi vilja afbrot, sem ég kalla, hljóta meðferð glæpamála. Mér finnst við oft gera of mikið úr slíkum brotum. Það kom vel fram hjá hv. 9. þm. Reykv., að lögbrot, sem eru framin á unga aldri, eru oft ekki glæpir, en tíminn, sem líður frá því að brot eru framin og þangað til kemur að refsingu, hefur gerbreytt manninum sjálfum. Eins og kom greinilega fram hjá hv. 9. þm. Reykv. er maðurinn kominn með allt aðra ábyrgð á sínar herðar, og bara ábyrgðartilfinningin gerbreytir honum. Það þarf oft ekki annað en að viðkomandi unglingur, ef það er karlmaður, verði ástfanginn og kvænist. Það getur gerbreytt öllu hans lífi. Þegar kemur svo að því að afplána brot framin á 18 ára aldri, eins og hv. þm. gat um, þá er verið að dæma miklu fleiri en þann mann sem er raunar orðin allt annar maður — dæma miklu fleiri til að vera þolendur vegna þessara glappaskota — frekar en glæpaverka — sem framin voru 4, 5, 6 árum áður. Auk hins ákærða er það kona til viðbótar og í því tilfelli, sem minnst var á áðan, tvö börn sem verða að afplána hluta af þessum afbrotum. Það eru þessi brot sem liggja hvað þyngst á mínum huga.

Ef við tölum svo um glæpi, morð eða eitthvað slíkt, þá er það allt annað mál. Ég geri engar athugasemdir við þá dóma sem menn hafa hlotið fyrir glæpi, því að glæpir eru þeir sömu hér og annars staðar. Það eru litlu brotin sem ég er að tala um. Og litlu brotin kalla ég þau sem framin eru kannske í ölæði, kannske undir öðrum áhrifum á unga aldri. Ég vil undirstrika þetta sem kom skýrt fram í málflutningi hv. 9. þm. Reykv.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um það, það fer ekkert á milli mála, að það eru hæfustu menn og virtustu hver á sínu sviði sem eru í náðunarhefnd. Það fer ekkert á milli mála. Ég mundi tvímælalaust sjálfur hafa mælt með þeim mönnum öllum sem fagmönnum. Það eru virtustu og færustu fagmenn hver á sinu sviði. En þegar fagmenn hafa fjallað um afbrot á öllum stigum vill oft það mannlega vanta. Það mannlega verður að koma á eftir, þegar búið er að fjalla á faglegan hátt á öllum sviðum um þau afbrot sem ég er að tala um. Því hefði ég talið að í náðunarnefnd ættu ekki að vera fagmenn. Það er ekki fólkið sjálft sem verið er að vernda með því að loka inni þjóðfélagsþegna. Að mínu mati ættu hér að koma til virtir borgarar sem ekki eru fagmenn, en hugsa meira með hjartanu, eins og ég hef stundum sagt, heldur en um lagabókstafinn. Án þess að vilja kasta nokkurri rýrð á náðunarnefnd hefði ég viljað sjá hana öðruvísi skipaða.

Það fer ekki á milli mála að það þarf að finna nýjar leiðir til að bæta fólk sem er lokað inni. Ég vona að með tilkomu þessarar nefndar finnist þær leiðir sem Alþingi getur sætt sig við, verða okkur öllum til sóma og koma í veg fyrir að langur tími líði frá afbroti til afplánunar.

Ég hefði viljað setja það í lög og gera þá breytingu sem fyrst, að falli ekki dómur í þessum smærri málum, sem ég kalla, innan ákveðins tíma, þá fyrnist þau, eða þá til vara, ef dómur fellur svona seint, þá sé hann í flestum tilfellum skilorðsbundinn. Ef maðurinn og kringumstæður hans hafa frá því að hann framdi afbrot, ég tala ekki um glæpi, frá því að hann braut lög og þangað til hann á að afplána, ef ekkert hefur komið fyrir hann í millitíðinni og hann er orðinn heimilisfaðir með þá ábyrgð sem því fylgir, þá á að mínu mati sterklega að koma til greina að skilorðsbinda slíka dóma.

Ég veit ekki hvort það er rétt, en ég hef heyrt að ef um fangelsisvist fyrir minni háttar afbrot og jafnvel minni háttar glæpi hjá heimilisföður sé að ræða, þá hafi fjölskyldan ekki slíkar fjárhagsáhyggjur í sumum öðrum löndum sem fjölskyldur hafa hér, því að hið opinbera greiðir fjölskyldunum lífeyri og tekur á sig ýmsar þær kvaðir sem hvíla á hinum fangelsaða. Þetta kynni að vera rétt að athuga og er ekkert óeðlilegt, vegna þess að þegar fyrirvinnu, kannske ungum manni sem er fyrirvinna fjölskyldu, ungra barna, er kippt úr umferð, þá skapast visst framfærsluvandamál. Það er ekkert óeðlilegt að þegar þjóðfélagið í heild vill svipta heimili fyrirvinnu af einhverjum lítilvægum ástæðum, þá verði ríkissjóður og Félagsmálastofnun sameiginlega að sjá fyrir fjölskyldunni.

Ég er sammála hæstv. ráðh. um að fangelsisvist er neyðarúrræði í þessum tilfellum og ég vil vera þátttakandi í að breyta þessum lögum. Það getur vel verið að hægt sé að gera þau eitthvað mannlegri, þannig að embættismennirnir, sem eiga að framfylgja þeim, liggi ekki undir ádeilu fyrir að reka sín störf ekki eins og vera ber þegar þeir eru kannske harðir í horn að taka. Því styð ég þessa tillögu. Ég vona eins og flm., að hún komi sem fyrst úr nefnd, og vona þá líka eins og hæstv. ráðh., að gott samstarf náist milli rn., embættismannanna og þeirrar nefndar, sem fjallar um þessa till., um að hraða henni sem mest í gegnum kerfið, svo að hún geti sem fyrst komið til framkvæmda eða ný lög — og þá kannske með nýjum anda — komið til framkvæmda, svo að ekki þurfi á þessum píslargöngum að halda sem við tveir þm. höfum stundum þurft að ganga á fund ráðh. og annarra til þess að flytja erindi þeirra ungu eiginkvenna, sem hér eiga hlut að máli, og barna þeirra, bæði fæddra og ófæddra í sumum tilfellum. Ég veit um eitt dæmi þar sem barnið fæðist ekki, það lifir ekki. Eiginkonan missti fóstur fyrir nokkrum dögum og eiginmaðurinn er farinn frá henni, frá fyrirtæki sem hann er tiltölulega nýbúinn að reisa, allt annar maður en hann var þegar hann braut af sér. Nú blasir ekkert annað við þessari fjölskyldu en algert hrun. Í fyrra tilfellinu, sem hv. 7. þm. Reykv. tók dæmi af, fæddist þó barn, það lifir og þau hjón eiga tvö börn. Í seinna tilfellinu fæddist barnið andvana fyrir tímann og lifði ekki. Áhyggjurnar leggjast svo þungt á ekki bara þann sem braut af sér, heldur líka vandamenn hans sem hann hefur eignast þegar hann á að taka út dóminn seinna meir.