25.11.1981
Efri deild: 15. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

44. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á skuttogurum

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég hefði talið æskilegt að hæstv. sjútvrh. hefði séð sér fært að vera við þessa umr. Hann var hér í húsinu áðan, er nokkuð hægt að nálgast hann? (Forseti: Ég skal gera ráðstafanir til þess að kanna hvort hæstv. ráðh. er ekki reiðubúinn til að vera hér. Ég sé ekki beint að hans mál séu á dagskrá í Nd.)

Herra forseti. Eins og kunnugt er hefur mikil umr. farið fram að undanförnu um stærð skipastólsins. Ég held að það sé almennt viðurkennt, að skipastóllinn megi ekki stækka, og ýmislegt hefur komið fram í umr. manna á meðal og ýmsar þær vísibendingar sem að mínum dómi eru ótvírætt til stuðnings því sjónarmiði, að skipastóllinn sé of stór. Nú verður það að vísu að segjast eins og er, að hæstv. sjútvrh. og ýmsir aðrir ráðh. í ríkisstj. hafa ekki verið sérlega stöðugir í rásinni í yfirlýsingum sínum um þetta efni. Þeir hafa þó oft sagt að hann mætti ekki stækka, að hann væri hæfilega stór.

Eitt af því, sem varðar þetta mál, er sú heimild til sjálfvirkrar ríkisábyrgðar sem ríkisstj. hefur nú í sambandi við lán til kaupa á skuttogurum. Þessi heimild ríkisstj. um að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á skuttogurum er einstök í sinni röð. Allar aðrar ríkisábyrgðir koma til umfjöllunar og afgreiðslu á Alþingi.

Það frv., sem ég mæli hér fyrir, gerir ráð fyrir að sama gildi um ríkisábyrgðir vegna kaupa á skuttogurum og um allar aðrar ríkisábyrgðir. Afnám þessarar sjálfvirkni getur auðvitað verið liður í því að hafa hemil á stærð skipastólsins og þá sérstaklega með þeim hætti að leiða ríkisstj. ekki í freistni, því að dæmin sanna að hún hefur verið freistingargjörn í þessum efnum. Þetta gefur hins vegar tilefni til þess að ræða nokkuð um stærð skipastólsins og horfur í þeim efnum.

Eins og kunnugt er slakaði núv. ríkisstj. mjög á klónni í þessum efnum, opnaði ýmsar gáttir og setti af stað skriðu innflutnings fiskiskipa. Þetta gefur sérstaki tilefni til að líta á hverjar horfurnar eru í þessum efnum. Ég hef leitast við að afla mér sem gleggstra upplýsinga um það, hverjar séu horfurnar um viðbætur á árunum 1981 og 1982, út frá þeim skipum, sem búið er að lofa að geti verið smíðuð eða keypt erlendis frá, og eins þeim, sem þegar eru komin á árinu 1981. Mér telst svo til að þessi viðbót, sem við stöndum frammi fyrir, sé 23–25 skip á árunum 1981–82, og þá tel ég ekki smærri báta, og þessi viðbót sé af stærðinni 7000–7700 tonn. Þessi skip eru langflest skutskip, þótt sumt af þeim sé kosið að flokka undir báta vegna þess að þessi skutskip eru ekki eins stór og skuttogararnir. Að vísu berast ýmsar sögur af því og sumar staðfestar, að vegna þessarar skilgreiningar á bátum í stað skuttogara fyrir þessi skutskip sé nú verið að stytta æðimörg af þeim skipum sem hafa verið keypt erlendis, til þess að þau falli undir þá skilgreiningu að heita bátar en ekki skuttogarar, þótt þau séu fyrst og fremst smíðuð og gerð til togveiða eftir sömu meginreglu og skuttogararnir. Mér finnst þetta mikið, 23–25 skip, 7000–7700 tonn á þessum tveimur árum, einkum með tilliti til þess, að venjulega er talað um að eðlilegt brottfall úr skipastólnum sé einhvers staðar á bilinu 1300–1700 tonn á ári. Nú veit ég ekki hvert brottfallið hefur verið á árinu 1981 fram til þessa, en það væri ágætt að fá það upplýst. En hvað sem því líður, jafnvel þótt við tækjum bæði árin, þá sýnist mér að það verði mjög torvelt með þessari aukningu á skipastólnum að ætla sér að halda stærð hans óbreyttri. Það gerist a. m. k. ekki með eðlilegu brottfalli að því er séð verður í fljótu bragði. En við getum líka velt því fyrir okkur hvað þetta kosti og hvað þetta þýði.

Það virðist augljóst af því skömmtunarkerfi, sem hér er í gildi, að viðbætur við skipastólinn þýða ekki auknar tekjur. Hins vegar er augljóst að viðbæturnar þýða aukin útgjöld. Í áætlun, sem Framkvæmdastofnun ríkisins hefur gert hinn 4. sept. s. l., er gerð grein fyrir því, að útgjöld af rekstri nýs skuttogara að frátöldum viðhaldsog fjárfestingarkostnaði séu 11 millj. kr. á slíkt skip. Í áætlun frá Þjóðhagsstofnun, rekstraryfirliti yfir fiskveiðar, dags. 21. sept., mundi samsvarandi tala vera 10 600 þús. kr. eða um það bil 10 millj. á skip.

Nú er það vitaskuld svo, að úr því að einhver af þessum skipum eru minni en þau sem gert er ráð fyrir í áætlunum Framkvæmdastofnunar ríkisins, þá verður að ætla að rekstrarkostnaður verði eitthvað minni. Þegar við þess vegna litum á tölur eins og 10–11 millj. kr. rekstrarkostnað hvers skips má vitaskuld halda því fram í sambandi við þessa viðbót upp á 23–25 skip, að kostnaðurinn sé ekki svona mikill. En við skulum ganga út frá því, að um það bil 2/3 af þessum skipum séu af stærðinni ca: 250 tonn og um það bil 1/3 sé af fullri stærð og gera ráð fyrir að það birtist aftur í kostnaðartölunum, þannig að meðalkostnaður af hverju þessara 23–25 skipa sé 2/3 af þessum 10 millj. kr. Hvað mundi það þýða? Jú, það þýðir að við verðum að lækka þá kostnaðartölu, sem við erum hér að tala um, um þriðjung. Þetta mundi þýða það, ef gengið er nákvæmlega út frá áætlun Þjóðhagsstofnunar, að ef við drægjum fyrst frá alla hluti, vegna þess að þeir mundu væntanlega ekki aukast, og tækjum síðan 2/3 hluta af þeim kostnaði sem Þjóðhagsstofnun gerir hér ráð fyrir í rekstraryfirliti frá 21. sept.; þá mundi þetta þýða 7.1 millj. kr. rekstrarkostnað að jafnaði á hvert þetta skip um sig. Ef tekjurnar eru gefnar, tekjurnar vaxa ekki eins og ekki virðast vera horfur á miðað við afrakstursgetu fiskstofnanna — þá nemur heildarútgjaldaaukning af þessum nýju skipum 164 millj. kr. Ef við lítum á þetta yfirlit frá því í sept. og gerum ráð fyrir að þessi 23 — skulum við segja — nýju skip væru komin inn í þetta dæmi, þá mundi kostnaður af rekstri flotans hækka um 164 millj. kr. Þetta þýðir viðbótartap á skipastólnum sem nemur 7.9% í rekstri hans. Það mætti orða það þannig, að ef skipastóllinn væri þessum 23–25 skipum stærri — og ég nota þá einungis töluna 23 skip þá mundi þurfa 13–14% fiskverðshækkun til þess að afkoma fiskiskipastólsins væri jafnslæm eða jafngóð, hvort sem menn vilja nefna það, og hún var í sept. s. l.

M. ö. o.: ef við værum með þetta miklu stærri skipastól sem svarar til þess innflutnings og þeirrar nýsmíði sem ég hef hér gert að umtalsefni, þá þýðir það að gengið ætti að vera 6.5–7% lægra til þess að jafna metin. Það, sem ég er að segja, er að eins og við gerum þetta dæmi upp og miðað við að tekjurnar séu gefnar og við getum ekki aukið afrakstur fiskstofnanna, tekið meira úr þeim, þá hefur sú stækkun skipastólsins, sem hér um ræðir, þau áhrif að því mætti jafna til 6.5–7% þrýstings á gengi.

Nú vitum við að hæstv. ríkisstj. er að berjast við verðbólguna og árangurinn hefur verið upp og ofan. En það hefur komið fram m. a. í yfirlýsingum frá hæstv. sjútvrh., að hver prósenta í gengi skili sér innan árs í verðbólgu. Mér sýnist að þau markmið samræmist ekki að stækka skipastólinn og skapa þannig tilefni til gengisfellinga og hins vegar að vera að berjast við verðbólguna. Nú kann einhverri af þessum viðbótum að vera mætt með brottfalli. En mér sýnist að það sé æðilítill hluti af þeirri aukningu sem hér er í pípunum, eins og þeir segja hérna, og að mínum dómi er það ekkert smáræði, að á þessum árum, 1981–1982, skuli 23–25 skip ýmist vera komin til landsins eða leiðinni.

En það mætti kannske spyrja í sambandi við þetta brottfall hvað mörg skip hafi verið flutt úr landi að undanförnu, t. d. á þessu ári, vegna þess að eitt af þeim lögmálum sem um var talað til þess að skip fengjust flutt til landsins, var að annað skip færi úr landi í staðinn. Ég hef grennslast eftir hvort átt hafi sér stað verulegur útflutningur á skipum í stað þeirra sem hafa komið til landsins eða eru á leiðinni til landsins, og ég hef reyndar ekki fundið nema einn 11 tonna bát úr Vestmannaeyjum. En mér þætti vænt um ef sjútvrh. gæti upplýst hvaða fleiri skip hefðu farið úr landi eða væru að fara úr landi. Þessi regla hefur nefnilega ekki gefist sérlega vel að undanförnu.

Ef við lítum til baka er ljóst að brottfall hefur verið nokkuð misjafnt á undanförnum árum. Ef við lítum á fjölda þeirra fiskiskipa, sem beinlínis svara til þess sem venjulega má flokka undir brottfall, þá voru þau einungis tvö árið 1977 sem voru eyðilögð, úrelt eða seld í brotajárn, 1978 voru þau þrjú, 1979 voru þau að vísu 35 talsins, en árið 1980 voru þau 12. Það má því segja að árið 1979 skeri sig úr, en þá var líka gert sérstakt átak til þess að taka úrelt skip úr rekstri. Það er líka athyglisvert að líta á tölur yfir brottflutning skipa úr landi, einkum með tilliti til þess, að ýmsir sjútvrh. hafa sérstaklega ætlast til þess, að skip færu úr landi. Þessar tölur eru ekki mjög háar. Árið 1977 fóru þrjú skip úr landi, árið 1978 ekkert, árið 1979 sjö talsins, en eftir þeim upplýsingum, sem ég hef um árið 1980, fór einungis eitt skip úr landi það ár. En einnig varðandi þetta mál á það við að gert var sérstakt átak á árinu 1979 til þess að þvinga erlenda kaupendur íslenskra fiskiskipa til að flytja þau skip úr landi sem þeir höfðu keypt.

Samkvæmt svonefndri fiskiskipaáætlun hefur verið gert ráð fyrir því, að meðalbrottfall á árunum 1976–1985 gæti verið 1689 brúttó-rúmlestir, en þessi spá hefur reynst of há að undanförnu. Árin 1976–1978 var spáð meðalbrottfalli upp á 1385 tonn, en það reyndist aðeins rúmur helmingur þess. Árið 1979 réttir þetta nokkuð af með tilliti til þess sem ég var að geta um áðan, þannig að árleg rauntala fyrir árin 1976–1979 verður 1340 tonn. En ef við lítum á spána samkv. fiskiskipaáætlun fyrir næstu ár, árin 1981–1985, sem er náttúrlega það sem við þurfum sérstaklega að skoða, þá er þess að gæta, að í þeirri spá um fiskiskip er brottfall á síðutogurum upp á 3558 tonn, en núna er einungis einn síðutogari í rekstri og er reyndar ekkert sérstakt útlit fyrir brottfall hans. Og ef leiðrétt er fyrir þessu, þá mundi þessi fiskiskipaáætlun í rauninni ekki gera ráð fyrir meira brottfalli en 1417 tonnum að meðaltali á því tímabili sem í hönd fer, á árunum 1981–1985. Ég rek þetta til þess að menn átti sig á því, að eðlilegt brottfall er ekki nema lítið brot af þeirri tölu sem ég gat hér um varðandi skip sem kæmu til landsins á þessu ári eða lofað hefði verið að kæmu í rekstur á þessu ári.

En ég vil af þessu tilefni, vegna þess að það frv., sem ég mæli hér fyrir, varðar sérstaklega stærð skipastólsins, benda á fáein grundvallaratriði í sambandi við stjórn fiskveiða.

Í fyrsta lagi er það að einungis með markvissri heildarstjórn verður frambúðarafrakastur af auðlindum hafsins tryggður.

Í öðru lagi verðum við að hafa í huga að hver einstakur útgerðaraðili sækist vitaskuld eftir sem mestu í sinn hlut og hefur þess vegna m. a. tilhneigingu til þess að vilja auka sóknarmátt sinn, þótt það verði einungis á kostnað annarra þegar fiskimiðin eru fullnýtt. Það er þess vegna hlutverk stjórnvalda að takmarka heildarsóknina og þar með fjárfestingu í nýjum skipum til þess að tryggja afrakstur greinarinnar.

Í þriðja lagi vil ég ítreka þau augljósu sannindi, að of stór skipastóll þýðir einungis aukna skömmtun, þ. e. minna í hvern hlut og verri afkomu fyrir sjómenn og útgerð, fyrir sjómenn, fyrir útgerðina og fyrir þjóðina í heild.

Í fjórða lagi er það skömmtunarkerfi í fiskveiðum, sem nú er beitt, auðvitað til marks um það, að fiskiskipastóllinn sé of stór miðað við afrakstursgetu fiskstofna.

Þessi atriði mega ekki líða okkur úr huga. En ég vil undir lokin ítreka það sem kom fram í ræðu minni áðan, að of stór skipastóll þýðir aukinn þrýsting á gengi, og þær horfur, sem eru um að yfir 20 skip bætist í flotann á þessu ári og hinu næsta, svara til 6.5–7% í gengi, svo mikil er kostnaðaraukningin, og henni verður auðvitað að mæta með einhverjum hætti, að svo miklu leyti sem henni verður ekki mætt með brottfalli annarra skipa úr flotanum.

Þetta frv., sem ég mæli fyrir, er auðvitað einungis lítill liður í því að ná heildarstjórn á þessum málum. Eins og ég gat um í upphafi er þetta undantekningarákvæði varðandi ríkisábyrgð vegna skuttogarakaupa einstakt í sinni röð. Það var sett á sínum tíma til að auðvelda og örva kaup á skuttogurum, en einmitt þá var endurnýjun togaraflotans mjög brýnt verkefni. Þessi heimild hefur fyrir löngu þjónað markmiðum sínum. Nú um það bil áratug síðar eru aðstæður gerbreyttar. Víðtækt skömmtunarkerfi í fiskveiðum er vitaskuld til sannindamerkis um að fiskiskipastóllinn sé of stór miðað við afrakstursgetu fiskstofnanna við núverandi aðstæður. Forsendan fyrir þeirri undantekningu, sem hér var gerð varðandi ríkisábyrgðir og lögin um heimild fyrir ríkisstj. til að beita sjálfskuldarábyrgð fyrir skuttogara fela í sér, er gersamlega brostin. Þess vegna er bæði rétt og eðlilegt að um ábyrgðir af þessu tagi gildi sama regla og um aðrar ríkisábyrgðir, að þær komi til kasta Alþingis. Það er af þessum sökum að þetta frv. er flutt. Það var reyndar einnig flutt á síðasta þingi en varð þá ekki útrætt.

Ég vil að endingu ítreka nauðsyn þess að upp verði tekin markviss stefna að því er varðar það að ná stjórn á stærð skipastólsins, stefna sem tryggi að hann verði hæfilega stór á hverjum tíma.