25.11.1981
Efri deild: 15. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

104. mál, sjómannalög

Flm. (Finnur Torfi Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka góðar undirtektir hv. 3. þm. Vesturl. undir þetta frv. Ég get tekið undir nánast allar þær aths. sem hann flutti í sinni ræðu. Mér finnst tilefni til þess, að hugað verði líka að réttindum verkafólks í landi í samhengi við þetta, jafnvel þótt það sé ekki gert í þessu frv. Það gæti verið verðugt verkefni fyrir aðra hv. þdm. Ég get líka tekið undir það, að það hefði mátt hyggja að lokamálsgrein 3. mgr. 18. gr. laganna, jafnvel þótt ég hafi ekki gert það í þessu tilviki. Það getur þá líka verið verkefni fyrir aðra hv. þdm. Og í síðasta lagi er ég sammála honum um það, að hugsanlega hefði verið til bóta að hafa orðið samfellt líka í upphafsmálslið brtt. minnar, enda þótt ég telji að það sé nokkuð ljóst, að það eru samfelld störf sem átt er við. Það er sem sagt meining mín, að miðað sé við tveggja ára samfelldan starfstíma á sama hátt og það verði um fjögurra ára samfelldan starfstíma að ræða. Ef menn telja þetta ekki nægilega skýrt í greininni eins og það er fram sett, þá væri mér það mjög til þægðar að gerðar verði á því lagfæringar í þingnefnd ef menn telja ástæðu til þess.

Ég ætla að víkja örfáum orðum að ummælum hv. 3. þm. Norðurl. v. Ég hef eins og aðrir hv. þdm. alimikla reynslu af því að fylgjast með nefndarstörfum. Það er auðvitað altítt að nefndir eru skipaðar hagsmunaaðilum til þess að vinna að hinum ýmsu löggjafarmálefnum, og er ekkert nema gott um það að segja. Ég vænti því að sú nefnd, sem hv. þm. gerði hér að umtalsefni, vinni gott starf og geri nauðsynlegar tillögur um réttarbætur í sjómannalögunum. En hitt er allt annað mál, að ég hef enga fullvissu um að það verði gott starf sem hún vinnur. Ég get líka alveg eins átt von á að hún verði alllengi að vinna þennan starfa. síðast en ekki síst er það aldeilis fráleitt að hv. alþm. hætti afskiptum af löggjafarmálefnum fyrir það eitt, að nefnd er úti í þjóðfélaginu að störfum í slíku máli. Það er að sjálfsögðu skylda allra alþm. að hyggja sem gleggst að löggjöf landsins og leitast við að lagfæra þá ágalla sem þeir finna þar á hverjum tíma og þeir eiga auðvitað sjálfir að hafa frumkvæði að því að breyta því sem þeir telja ástæðu til.

Það hefur borið á því nú um langt árabil, að Alþingi hefur selt vald sitt í töluverðum mæli til aðila víðs vegar úti um þjóðfélagið. Það er þróun sem ég hygg að flestir þm. séu frekar áhyggjufullir út af. Ég er einn þeirra. Ég tel að Alþingi megi alls ekki gleyma sinni frumkvæðisskyldu varðandi löggjafarmál. Það er skylda þm. sjálfra að hyggja að löggjöfinni og koma með þær lagabrtt. sem þeir telja nauðsynlegar á hverjum tíma, en velta ekki öllum vanda á aðila annars staðar í þjóðfélaginu. Þetta er þeirra meginhlutverk. Alþingi er löggjafarstofnun. Meginhlutverk þessarar stofnunar er að setja lög. Ef menn telja ástæðu til lagabreytinga eiga menn að hafa frumkvæði um slíkt. Þess vegna get ég ekki fallist á þá hugsun sem kom fram í máli hv. 3. þm. Norðurl. v., að fyrir þá eina sök, að einhver nefnd væri að vinna að málinu, þá væri ekki tilefni fyrir hv. Alþingi að taka það til meðferðar. Ég er algerlega ósammála þessu. Ég held að Alþingi þurfi að vega það og meta, hvort þörf sé á þeirri lagabreytingu sem hér er til umr. Á að breyta lögum á þann veg sem hér er lagt til, eður ei? Ef þingið er sammála mér um að þetta sé þörf breyting, þá á þingið auðvitað að samþykkja hana án tillits til þess, hvort einhverjir aðrir aðilar séu með svipaðar hugmyndir annars staðar í þjóðfélaginu.

Ég vil leiðrétta misskilning sem mér fannst koma fram í máli hv. þm. varðandi tiltekna mgr. í grg. frv., þar sem þess er getið, að útgerðarmaður sitji mjög yfir kosti skipverja vegna þess að útgerðarmaðurinn geti svipt menn veikindaréttindunum með uppsögn einni saman. Í þessum ummælum felast alls ekki neinar ásakanir á hendur útgerðarmönnum um að þetta hafi gerst. Það er síður en svo. Ég veit ekki um nein dæmi þess, að útgerðarmaður hafi beinlínis sagt skipverja upp til þess eins að svipta hann veikindaréttindum. Það, sem hér er sagt, er einungis að útgerðarmenn eigi þessa kost. Lögin gera þeim það kleift eins og þau eru núna. Með því er ekki sagt neitt um að einhver útgerðarmaður hafi nýtt sér það eða gert það í raun. En þeir eiga þess kost að lögum, og það er að mínu mati ekki sanngjarnt og eðlilegt.